Borgaralaun

Ég hef haft verulegar efasemdir um borgaralaun en eftir að hafa lesið nokkra kílómetra af álitum Umboðsmanns Alþingis og heyrt nokkrar persónulegar sögur af niðrandi framkomu, persónunjósnum, og öðrum ógeðslegheitum félagsmálabatterísins auk þess að verða vitni að slíku sjálf, er ég komin að þeirri niðurstöðu að með því væri ekki aðeins hægt að spara ómældar upphæðir vegna yfirbyggingar og launakostnaðar hjá félagsþjónustunni, heldur einnig bæta lýðheilsu. Það virðist sáralítill áhugi vera fyrir því innan þessa kerfis að styðja fólk til sjálfshjálpar.

Matreiðslubækur

Mér finnst í rauninni forvitnilegt að efni eins og t.d. fokdýrar, litprentaðar matreiðslubækur (oft svo stórar og þykkar að þær henta engan veginn til þess að lesa í rúminu) skuli yfirhöfuð seljast. Það er bara svo auðvelt að finna uppskriftir og myndir af svo til hvaða rétti sem er á netinu ásamt öllum hugsanlegum upplýsingum um uppruna, næringargildi, matreiðsluaðferðir hefðir o.s.frv. En þær seljast nú samt af því að eitthvað þarf fólk að gefa hvert öðru í jólagjöf og allir þurfa jú að éta. Það er að minnsta kosti eina skýringin á sölu matreiðslubóka sem mér finnst trúleg.

Forsetaefnið

Einu sinni var ég í Nettó og ætlaði að kaupa eldhússrúllur en þær voru svo hátt uppi í hillu að ég náði þeim ekki. Þarna var ég, gráti næst, að reyna að hoppa nógu hátt til að ná í eldhússrúllur og var farin að sjá fram á að þurfa að nota skeinipappír í staðinn fyrir verkamannaservíettur næstu vikurnar. Kom þá ekki einhver stelpa sem var áreiðanlega minnst 1.66 á hæð og teygði sig í pakka og rétti mér. Ég veit ekkert hvað hún heitir en ég ætla að kjósa hana ef hún fer í forsetaframboð.

Litlu hjónin

Árið 1978 var maður sakfelldur í hæstarétti fyrir misneytingu. Hann hafði fengið greindarskert hjón til að selja sér íbúð á allt of lágu verði. Í dag er þessi dómur kenndur við lagadeild HÍ undir heitinu „Litlu hjónin“.

Ég veit ekki hvort þau hétu Jón og Gunna en – æ, þús’t, eitthvað um lágmarksþekkingu á vinsælustu verkum þjóðskáldanna og solles.

Umræður hér

Hið göfuga fórnarlamb

Kvenfyrirlitning er vissulega til og karlar sem beita konur ofbeldi eru svo sannarlega til og já konur voru beittar þöggun og eru það víðast hvar ennþá (ég sé reyndar ekki að það sé vandamál í okkar samfélagi í dag.)

Palestínumenn eru líka kúgaðir á alla lund, það er staðreynd. Það er líka staðreynd að gyðingahatur margra þeirra er ekki bara „meint“ heldur mjög raunverulegt. Svo raunverulegt að ég efast ekki um að ef Ísrael fengi skyndilega engan stuðning annarra þjóða, þá yrði Ísraelsmönnum nánast  útrýmt. Líka þeim sem bera enga ábyrgð á hernáminu. Það að einhver sé beittur órétti gerir hann nefnilega alls ekkert ólíklegri til að valta yfir aðra ef hann fær tækifæri til þess.