Um krútt

Krútt eru lítil, sæt og sakleysisleg og segja allskonar sniðugt og heillandi sem gaman er að rifja upp síðar. Börn geta verið krútt. Júlíus frændi minn var krútt þegar hann var fjögurra ára og bað um gular nærbuxur svo hann gæti verið Tarzan á Öskudaginn. Darri var krútt þegar hann var 18 mánaða, benti á endurnar á tjörninni og sagði voff!

Gunnar I Birgisson er ekki krútt. Reyndar algerlega laus við allt krúttípúttí. Það var heldur ekkert krúttlegt af honum að láta bóka eftir sér jafn ómálefnalega athugasemd. Bara heimskulegt sem er ekki það sama því krúttlegar athugasemdir byggjast á misskilningi eða barnslegri heimsýn. Ef eitthvað er er Gunnar I Birgisson ókrútt, vankrútt eða andkrútt.

Annars rifjaði þessi krúttumræða upp fyrir mér samræður okkar Hauks frá síðustu sveitastjórnakosningum:

Fordæðan: Ég er ekki frá því að kynþokki Gunnars Birgissonar sé ívið meiri en kjörþokki hans.

Byltingin: Ég get hvorki tengt kynþokka né kjörþokka við Gunnar Birgisson. Mér finnst aftur á móti enhvernveginn eins og orðið óþokki hringi einhverri bjöllu.

Tjásur:

Halda áfram að lesa

Útrunninn

Getur einhver sagt mér af hverju má ekki geyma ávaxtasafa í opinni fernu í kæli lengur en 3 daga? Kemur eitrun í safann og ef svo er, finnst það þá ekki á bragði og lykt? Sjálf hef ég oft drukkið háaldraðan ávaxtasafa og aldrei orðið meint af. Ég er reyndar með óvenju sterkan maga svo kannski er það ekki alveg að marka.

Munar ekkert um tittlingaskít

Ríkissjóður tönnslast á því að við munum ekkert finna fyrir því ef við setjum 5000 kall á mánuði í sparnað. Vel má það vera en eitt finnst mér mótsagnakennt. Um áramótin hækkuðu laun ríkisstarfsmanna. Laun þeirra sem eru í 8.launaflokki, 5. þrepi hækkuðu t.d. um 4241 kr á mánuði.

Og nú spyr ég, fávís konan, hversvegna býður Ríkissjóður starfsfólki sínu launahækkun, sem hann sjálfur telur svo ómerkilega að engar líkur séu á að hún skipti launþegann nokkru máli?

Tryggðarof

Ætli fólk upplifi það almennt sem ákaflega dramtískan viðburð að skipta um banka?
Þegar allt kemur til alls virðast flestir halda sig við sama bankann lengur en sama makann.

 

Einn skammt af slöppum?

Hvaða hálfapa datt í hug að láta sjoppuafgreiðslufólk setja franskar kartöflur í loftþétta poka „til að halda á þeim hita“?

Líklega þeim sama og fann út að besta leiðin til að kæla gosdrykki væri sú að fylla glasið af muldum ís. Ég drekk reyndar ekki gos sjálf, hvorki vantsþynnt né óþynnt en gufusoðnar franskar, það eru nú bara helgispjöll. Gott ef ekki guðspjöll.

Ástríður

Ástríður er gott og gilt kvennafn, sett saman úr ást og -ríður (þessi Ríður er fremur fjöllynd) með áherslu á ást. Ást-ríður. Ástríður stírða aftur á móti á mannssálina og þær þurfa ekkert endilega að tengjast ást. Þessvegna er áherslan á á-ið. Semsagt á-stríður. Mikið vildi ég að auglýsingastofur og fjölmiðlar gerðu þá kröfu til starfsmanna sinna að þeir tileinki sér þokkalegt málfar, m.a. framburðarmun á Ástríði og ástríðum.

 

Köstum hækjunni

Ármann Jakobsson skrifar það skynsamlegasta sem ég hef nokkurntíma lesið um samkynhneigð og frjálsar ástir. Greinin birtist á Múrnum í gær.

Reyndar þyrfti ég líklega stranga sálfræðilega innrætingu til að langa til að sofa hjá konu, eldri borgara eða Suður-Afríkana en mér er eiginlega nokk sama hvort smekkur minn ræðst af genum eða einhverju öðru. Auk þess ætti manni að vera frjálst að skipta um skoðun á þessu sem öðru. Ég tek því undir með Ármanni. Við þurfum ekki genaskýringu eða aðra hækju til að afnema afskiptasemi ríkisvaldsins af kynlífi og sambúðarformi.