Rún dagsins er Maður

Mannsrúnin er torræðasta rún norræna rúnarófsins. Hún táknar sjálfsvitund mannsins. frjálsan vilja hans og hæfni hans og skyldu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og líta heiminn og sjálfan sig gagnrýnum augum, án þess að vera niðurrífandi. Rúnin er notuð í galdri þegar reynir á rökhyggju og viljafestu og einnig þar sem þörf er fyrir góð samskipti.

Í rúnalestri táknar Maður sjálfstæði og viljafestu spyrjandans ef hún kemur upp ein en með öðrum rúnum getur hún táknað aðra manneskju, vin, fjölskyldumeðlim, ráðgjafa eða óvin, allt eftir því hvaða rúnir standa með henni.

Rún dagsins er Jór

Jór er reiðskjótinn sem ber manninn á vit nýrra ævintýra. Eða nýrra ógna ef svo ber undir. Jór er skyldur rúninni Reið en ólíkt henni táknar Jór að ef maður vill breyta aðstæðum sínum þá verður hann að gera eitthvað í því sjálfur. Í galdri er Jór notaður til þess að öðlast kjark og visku til að taka erfiða ákvörðun og sem vegvísir.

Í rúnalestri táknar Jór að spyrjandinn standi frammi fyrir tveimur eða fleiri valkostum og hann má ekki daga það lengi að taka ákvörðun því þá fer hesturinn af stað án hans. Nærliggjandi rúnir gefa til kynna hversu ánægjuleg ferðin verður.

Rún dagsins er Björk

Björk er lítið harðgert tré sem stendur af sér öll áföll. Hún er gæfurún, felur í senn í sér vernd og sköpunarkraft og hentar vel í hverskyns töfragripi til happs og verndar.

Ef Björk kemur upp ein í rúnalestri táknar hún að spyrjandinn hefur góða aðlögunarhæfileika. Hann mun komast í gegnum erfiðleika án þess að bugast. Hann hefur sérstaka getu til að snúa aðstæðum sér í hag og nýta veikustu hliðar sínar til góðs. Framundan er enginn frítími en spyrjandinn mun blómstra í þeim verkefnum sem hann fæst við og njóta þess að þroska hæfileika sína, hvort heldur er veraldlega eða andlega.