Velkomin til ársins 2015

Ég var í prófi í samningarétti í dag. Eitt verkefnanna snerist um mann sem gerði tilboð í reiðhjól. Að sjálfsögðu bréflega. Seljandinn svaraði einnig bréflega en þar sem væntanlegur kaupandi var í sumarbústað, las hann bréfið ekki fyrr en nokkrum dögum síðar.  Í þessu dæmi staðfesti pósturinn að ábyrgðarbréfið hefði verið sett í lúguna kl 16.

Maður hefði nú kannski haldið að það væri ívíð áhugaverðara álitaefni hvenær tölvupóstur telst hafa borist manni.

Það má segja Lagadeild til hróss að ég hef enn ekki þurft að leysa verkefni þar sem menn senda tilboð og samþykki með bréfdúfum.

https://www.facebook.com/eva.hauksdottir.norn.is/posts/10153290929207963

 

Frítekjumarkið

Eva: Hvað er þetta eiginlega með frítekjumarkið, af hverju er verið að refsa fólki fyrir sjálfsbjargarviðleitni?
Einar: Þú misskilur þetta. Það er verið að refsa því fyrir að vera öryrkjar.

Forsetaefnið

Einu sinni var ég í Nettó og ætlaði að kaupa eldhússrúllur en þær voru svo hátt uppi í hillu að ég náði þeim ekki. Þarna var ég, gráti næst, að reyna að hoppa nógu hátt til að ná í eldhússrúllur og var farin að sjá fram á að þurfa að nota skeinipappír í staðinn fyrir verkamannaservíettur næstu vikurnar. Kom þá ekki einhver stelpa sem var áreiðanlega minnst 1.66 á hæð og teygði sig í pakka og rétti mér. Ég veit ekkert hvað hún heitir en ég ætla að kjósa hana ef hún fer í forsetaframboð.