
Ís er rún kulda og stöðnunar. Í galdri er hægt að nota hana bæði til ills og góðs, til að tryggja varanlegt ástand, en ekki er hægt að mæla með því fyrir byrjendur.
Í rúnalestri getur hún táknað að spyrjandinn sé á hálum ís og þurfi að fara varlega og íhuga hvert skref. Einnig að það ástand sem hann er ósáttur við sé líklegt til að vara lengi ef ekkert verður að gert. Hann þarf að „brjóta ísinn“, hvort heldur er í samskiptum eða með því að koma sér úr þeim aðstæðum sem hann er fastur í, en ekki má hann flana að neinu því það mun fara illa.

Nauð táknar illgirni, áþján, neyð og nauðung. Í galdri er hún notuð til að gera öðrum eitthvað til miska og það ástand getur varað lengi en einnig snúist gegn þeim sem galdrinum beitir. Hægt er að nota Nauð til góðs því hún táknar einnig stafi sem núið er saman til að kynda eld og bönd sem festa eitthvað saman en hún er vandmeðfarin og ekki fyrir byrjendur.

Hagl er rún tímabundinna erfiðleika. Í galdri er hún notuð sem refsirún, til þess að kalla erfiðleikahríð yfir þann sem hefur gert á hlut manns. Þótt markmiðið sé ekki að valda varanlegum skaða er alltaf vafasamt að nota bölrúnir og í versta falli getur það hitt nornina sjálfa eða einhvern annan en hún ætlaði.