Búsáhaldabyltingin virkaði!

Frábær árangur. Beinar aðgerðir virka. Þúsundir manna hafa nú tekið þátt í ólöglegum mótmælum í heila viku enda er stjórnin búin að gefast upp.

Þetta er auðvitað bara áfangasigur. Við þurfum líka að tryggja að hér verði tekið upp nýtt stjórnkerfi sem býður ekki upp á að völd geti safnast á fáar hendur, að mikilvægum upplýsingum sé haldið leyndum og að útilokað sé að losna við vanhæft fólk úr embættum.

Þjóðhátíð í kvöld. Allir á Austurvöll með börnin sín og afa, kassagítar og kakóbrúsa, sjóðum egg og setjum á samlokur (eða geymum þau fyrir natófundinn), það er engin ástæða til að kasta eggjum í kvöld. Fögnum og skemmtum okkur. Byrjum kl 7 og sýnum í búum miðbæjarins þá tillittsemi að hætta snemma.

Lifi byltingin, búsáhaldabyltingin.

One thought on “Búsáhaldabyltingin virkaði!

  1. —————————

    og núna fær hún kökukeflið í hausinn.

    frábært

    Posted by: Nonni | 26.01.2009 | 17:45:15

    —————————
    Til hamingju og takk fyrir. Þið eruð hetjur, þið “Ausu”-vallar byltingarfólk. Þetta hefur svo sannarlega borið árangur.
    En af hverju leggurðu svona mikla áherslu á “ólögleg” mótmæli? Það var ekkert ólöglegt við þetta. Nema ef væri það eitt að trufla ræðumenn í potu á Alþingi.
    kjh

    Posted by: kjarheid | 26.01.2009 | 17:58:36

    —————————

    jei je!

    Posted by: Þráinn Kristinsson | 26.01.2009 | 18:44:41

    —————————

    Jújú, það er kolólöglegt að trufla starfsfrið Alþingis, hvað þá með þokulúðrum, háværum trumbuslætti og vanvirðandi slagorðum. Það er ólöglegt að skjóta upp flugeldum á þessum tíma. Það er ólöglegt að kveikja bál á Austurvelli, rífa niður Óslóarjólatréð (sem er almenningseign þótt það hafi verið hætt að gegna tilgangi sínum), brenna garðbekki í eigu borgarinnar, brjóta rúður í Alþingishúsinu, tromma á hjálma lögregluþjóna og kasta matvælum, saur og grjóti í þá.

    Sem betur fer voru nú aðeins örfáir sem stóðu í grjótkasti. Þótt ég dauðsjái eftir garðbekkjunum fannst mér samt að sumu leyti gott að þeir fóru á bálið því þetta var svo góð æfing fyrir venjulegt fólk í því að taka málin í sínar hendur og svona fyrir utan grjót og kúk fannst mér þetta gífurlega vel heppnað.

    Ólögleg mótmæli, sem almenningur hélt uppi, í heila viku, var það sem skilaði árangri.

    Lífið er fagurt og ég er búin að mála mig, eftir að hafa verið ljót í heila viku.

    Posted by: Eva | 26.01.2009 | 19:50:29

    —————————

    Flott allt saman, til hamingju og takk. En það er samt ekki ahbú.

    Posted by: Kristín | 26.01.2009 | 21:40:09

Lokað er á athugasemdir.