Bráðaofnæmi hvað? Hvað með ilmefni, skinnfatnað og annað sem einhver gæti hugsanlega haft bráðaofnæmi fyrir? Ef þetta snerist raunverulega um hættuna á bráðaofnæmi, hefði verið lítið mál að hengja upp tilkynningu með aðvörun. Það er augljóslega einhver önnur ástæða að baki þessari afskiptasemi heilbrigðiseftirlitsins. Hugsanlega bara hreinlætisfasismi. Í mörgum borgum Evrópu getur fólk tekið hunda með sér inn á krár og ýmsa staði þar sem hundar eru ekki umbornir á Íslandi, og ekki hef ég trú á að bráðaofnæmi gegn hundum sé neitt algengara hér en annarsstaðar.
Alveg finnst mér það ótrúlegt að í samfélagi þar sem ríkisafskipti af rekstri fyrirtækja hafa verið svo lítil að nokkrir menn hafa komist upp með að svíkja hundruð milljarða út úr almenningi, skuli ríkið samt vera með nefið ofan í því hvað einkafyrirtæki leyfa sínum viðskiptavinum og hvað ekki. Einkafyrirtæki á að hafa fullan rétt á því að leyfa hunda, ketti og táfýlu svo fremi sem starfsfólk og viðskiptavinir eru upplýstir um hugsanlega áhættu af því að eiga viðskipti við það fyrirtæki.
Mér finnst reyndar annað gilda um reykingar og er hlynnt reykingabanni, ekki bara á opinberum stöðum, heldur yfirhöfuð. Það er vegna þess að óbeinar reykingar eru stórt heilsufarsvandamál, sem leggst ekki bara á lítinn minnihlutahóp. Þær eru mjög lúmskt vandamál og valda ekki meiri óþægindum en svo að þegar þær eru nánast allsstaðar í umhverfinu, lætur fólk sig gjarnan hafa það að taka áhættuna á því að þurfa að glíma við alvarlegar afleiðingar mörgum árum síðar. Mér finnst inngrip ríkisins vera réttlætanlegt þegar um svo stórt hagsmunamál er að ræða. Af svipuðum ástæðum finnst mér ástæða til að takmarka framboð á vímuefnum.
Hundarnir máttu ekki koma í bíó | |
——————————————————
já réttindi okkar reykingamanna má líkja við réttindi hunda. Það er hundur í mér þegar ég fylgist með því hvað ríkisvaldið er sífelt að brjóta á mannréttindum okkar reykingarmanna. Ég ert til í að stofna mannrettindasamtök reykingarmanna og mótmæla reykingarbanni á pöbbum.
Offari, 8.2.2009 kl. 13:52
——————————————————
Sjálfsögð réttindi okkar takmarkast við að þau gangi ekki á mikilvægari réttindi annarra. Það eru því ekki mannréttindi að fá að blása eitri framan í annað fólk. Ekki frekar en það eru mannréttindi hundaeigenda að fá að troða hundum í fangið á öðrum.
Mér finnst réttur þeirra örfáu sem eru með hundaofnæmi, til að fara í einn ákveðinn bíósal, tiltekinn dagafjölda eftir einn ákveðinn viðburð, ekki vega svo þungt að það sé réttlætanlegt að skerða rétt fyrirtækisins til að leyfa þessa hundasýningu (hversu bjanalegt sem það nú annars er). Hinsvegar finnst mér réttur þeirra 100% sem ætla má að verði fyrir óþægindum og/eða skaða af völdum tóbaksreyks, vega nógu þungt til að réttlætanlegt sé að banna reykingar. Það gegndi auðvitað öðru máli ef aðeins einn veitingastaður á landinu vildi leyfa reykingar við eitt ákveðið tækifæri og langflestir hinna hefðu aldrei einu sinni tekið það til athugunar.
Eva Hauksdóttir, 8.2.2009 kl. 14:13
——————————————————
En gengur það á rétt annarra að leyfa reykingar á ákveðnum stöðum? Hvers vegna geta reyklausir ekki farið á reyklausa staði? Gengur það á rétt starfsfólks að nokkrir staðir leyfi reykingar? Enginn neyðir það til að vinna þar.
Er þetta ekki svipað því að ég færi fram á að vinna á þungarokksklúbbi, en af því að ég er með viðkvæma heyrn færi ég fram á að hljóðstyrkur fari ekki yfr 30 db?
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 8.2.2009 kl. 16:08
——————————————————
Sko greinin byrjar svakalega vel en þetta er á soldið röngum forsendum. Fólk á rétt á að vinna við hættulega hluti og framkvæma hættulega hluti og vera innan um fólk sem framkvæmir hættulega hluti. Ef þú villt ekki vera inn á stað þar sem er reykt þá neyðir þig ekkert til þess.
Fólk á ekki rétt (þar með talið ríkisvaldið) til að takmarka hegðun með gagnkvæmum vilja, hvort sem það er hundasýningar eða reykingar.
fókusinn á heima á þeim punkti en ekki pragmatíkinni sem er á bakvið réttlætinguna að hundar séu ekki mikil ógn heldur reykingar. Því erf þú ferð inn á bar þar sem reykingar eru leyfðar ertu að fallast á að dveljast í reyktu umhverfi. Það er munur á því að fara inn í reykhús og að elta fólk á röndunum og blása vindlareyk framan í það.
Binni (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 17:04
——————————————————
Nei það gengur ekki á rétt annarra að leyfa reykingar á ákveðnum stöðum. Til skamms tíma voru reykingar ekki leyfðar á ákveðnum stöðum heldur nánast allsstaðar, sem aftur gekk á rétt allra hinna.
Reyklausir geta farið á reyklausa staði já. Fyrir reykingabann á veitingahúsum áttu 80% þjóðarinnar kost á um 10 kaffihúsum þar sem hægt var að fá frið fyrir þessum viðbjóði. Mér finnst eðlilegra að reykingafólk fari á sérstaka reykingastaði en að meirihlutinn þurfi að leita uppi staði sem eru ekki beinlínis heilsuspillandi.
Það gengi ekki á rétt starfsfólks ef örfáir staðir leyfðu reykingar. Það gengur hinsvegar á rétt þess ef er nánast útilokað að fá vinnu á veitingastað án þess að frá lungnaþembu og krabbamein í kaupbæti.
Samanburðurinn við þungarokksklúbbinn ætti ágætlega við ef þungarokksstaðir væru meðal örfárra fyrirtækja sem ungt fólk á kost á að vinna hjá.
Eva Hauksdóttir, 8.2.2009 kl. 17:29
——————————————————
Ég er alveg sammála þér Haukur, neytendur eiga að skapa þrýsting. Hinsvegar eru óbeinar reykingar þess eðlis að skaðlegar afleiðingar koma ekki fram fyrr en eftir marga áratugi og það er ekki hægt að búast við því að fólk um tvítugt, neiti sér um að fara á skemmtistaði vegna hættunnar á því að fá lungnaþembu upp úr fimmtugu.
Eva Hauksdóttir, 8.2.2009 kl. 22:44
——————————————————
Ætti þá lausnin ekki að felast í aukinni fræðslu um skaðsemi óbeinna reykinga frekar en bönnum?
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 9.2.2009 kl. 13:15
——————————————————
Það er ekki fáfræði sem er vandamálið, heldur frekar tilhneiging mannsins til að sætta sig við það sem drepur þig ekki í dag. Fólk borðar óhollan mat gegn sinni betri vitund af því að það er auðvelt að ljúga því að sjálfum sér að einn hamborgari í viðbót skaði mann ekki. Það sama á við um tóbaksreyk, ef er gaman NÚNA, þá hef ég ekki svo miklar áhyggjur af því að ég verði veit eftir 25 ár. Eina raunhæfa leiðin til að bregðast við þessu er að bjóða upp á nóg úrval af reyklausum skemmtistöðum og gera það auðveldara að vera reyklaus en reykjandi. Fyrir 20 árum var beinlínis vandamál að vera reyklaus, það er blessunarlega orðið nokkuð auðvelt í dag.
Eva Hauksdóttir, 9.2.2009 kl. 13:57
——————————————————
En orðið erfiðara að vera reykingamaður.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 9.2.2009 kl. 15:12
——————————————————
Já en hvort finnst þér æskilegra að fólk auðveldi sér lífið með því að byrja að reykja eða með því að hætta að reykja?
Eva Hauksdóttir, 9.2.2009 kl. 17:10
——————————————————
Ég veit nú ekki til þess að fólk hafi byrjað að reykja vegna skorts á reyklausum stöðum…
Auðvitað er bölvuð vitleysa að reykja. Það er hins vegar mín ákvörðun, rétt eins og það er mín ákvörðun að drekka, hlusta á þungarokk og eignast ekki börn. Ríkið á ekki að skipta sér af því, svo lengi sem ég er ekki að þröngva minni hegðun upp á fólk. Ég fer ekki inn á reyklausa staði og kveiki mér í – eins datt mér ekki í hug að kvarta yfir reyk á skemmtistöðum eða kaffihúsum þegar ég reykti ekki.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 9.2.2009 kl. 18:32
——————————————————
Með því að reykja á stöðum sem eru opnir öllum, þröngvar þú óhjákvæmiega þeirri hegðun upp á annað fólk. Um 20% fullorðinna reykja og það væri allt í lagi að leyfa um 20% veitingastaða að hafa reykingaleyfi. Þetta var hinsvegar öfugt. 20 prósentin sem reyktu, lögðu undir sig 80-90% af öllum kaffihúsum og líklega alla dansstaði nema Ártún. Auðvitað hópuðust þessi 80 reyklausu prósent ekki öll inn á 5 kaffihús og Ártún, heldur gerðu bara eins og þú, mættu á reykstaðina og kvörtuðu yfirleitt ekki.
Eva Hauksdóttir, 9.2.2009 kl. 19:38
——————————————————
Sagðirðu ekki í pitlingnum að þú værir hlynnt reykingabanni „ekki bara á opinberum stöðum, heldur yfirhöfuð“?
Áttu þá við að reykingar verði bannaðar á öllu landinu? Heiminum?
Ég hafði val um staði. Ég gat farið á Súfistann, sem ég gerði oft, eða á reykstað. Sjálfsagt hafa reyklausir staðir verið fleiri (var Mokka ekki reyklaus?), en þetta var aldrei mikið mál í mínum augum.
Í dag hafa reykingamenn ekkert val nema á milli þess að standa úti og reykja eða sitja inni og reykja ekki. Ef ég fer á bar og kaupi mér bjór, hef eg val milli þess að sleppa því að reykja þar til bjórinn er búinn, eða skilja hann eftir fyrir hunda og manna fótum og vona að enginn drekki hann, hræki í hann eða laumi einhveri ólyfjan í glasið.
Reykingabannið, eins og það er í dag, gæti virkað ef a) veðrið væri betra, b) leyfilegt væri að fara út með drykki og/eða c) sérstök, vel loftræst reykherbergi væru leyfð. Eins og staðan er í dag er þetta forsjárhyggja í gervi heilsuverndar.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 9.2.2009 kl. 20:18
——————————————————
Jú ég er hlynnt reykingabanni í návist reyklausra, yfirhöfuð. Mér þætti þó allt í lagi að hafa ákveðna reykstaði sem yrði þá mjög auðvelt að forðast. Nánar hér: http://www.nornabudin.is/sapuopera/2005/12/a_upprta_ofbeldi.html
Eva Hauksdóttir, 9.2.2009 kl. 21:25
——————————————————
Jahá. Eins og mér þykir alltaf gaman þegar einhver segir að ég sé „snargeðveik af eigingirni“…
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 9.2.2009 kl. 22:17
——————————————————
Auðvitað er ónotalegt að fá það framan í sig að maður sé snargeðveikur af eigingirni, en á því augnabliki sem þú stendur sjálfa þig að því að finnast svo mikilvægt að fullnægja einhverri tilbúinni þörf að þú lýgur að sjálfri þér um áhættuna og afleiðingarnar, þá ertu á valdi slíkrar geðveiki. Það er þessi sama geðveiki sem fær fólk sem allajafna er ábyrgt til að aka drukkið eða eyða barnabótunum í spilakassa. Eigingirnin býr í okkur öllum en við ráðum því alveg hvort við bjóðum henni beinlínis að taka stjórnina af okkur með því að koma okkur upp fíkn.
Mesta ágætisfólk, sem venjulega er ekkert nema elskulegheitin og vill allt fyrir alla gera, verður snargeðveikt af eigingirni þegar fíkn er annars vegar. Það hefur ekkert með innræti fólks að gera, það er bara eðli fíknar. En það er nú svo undarlegt að þótt allir sjái þetta þar sem vímuefni eru annars vegar, þá tregðast flestir við að viðurkenna að þetta sama skrímsli sannfærir reykingafíkilinn um að líðan hans á tilteknu augnabliki, skipti meira máli en nokkuð annað í heiminum.
Eva Hauksdóttir, 10.2.2009 kl. 09:24
——————————————————
Ég hef aldrei þrætt fyrir skaðsemi reykinga, hvorki beinna né óbeinna.
Einnig hef ég afar sjaldan lent í því að finnast reykingaþörf mín mikilvægari en nokkuð annað í heiminum. Ég hef sleppt því að reykja í vinnunni ef það er illa séð, ég fer út að reykja ef það eru ung börn í herberginu og eins og fram hefur komið læt ég það yfir mig ganga að sleppa því að reykja á skemmtistöðum og kaffihúsum.
Ef ég er stödd í bíl eða á heimili reyklausrar manneskju, spyr ég um leyfi áður en ég kveiki í. Mér finnst fáránlegt að sömu reglur megi ekki gilda á kaffihúsum.
Síðan eru flugvélar alveg sér kapítuli. Þar hafa gæði loftsins minnkað síðan reykingar voru bannaðar.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 10.2.2009 kl. 13:23
——————————————————
Það er gott að heyra þetta Tinna. Í dag er orðið nokkuð algegnt að fólk leiti samþykkis áður en það kveikir í en því miður er tillitssamt reykingafólk svo sjaldgæft fyrirbæri að það dugði ekkert minna en sérstök lagasetning til að innleiða það viðhorf að þolandinn væri rétthærri.
Viðhorfin hafa breyst en sökum þess að fíkn leiðir til sjálfsblekkingar, dugar viðhorfsbreytingin ekki til þess að fólk hafi hemil á sér nema þar sem reykingar eru beinlínis bannaðar eða jafningar frábiðja sér reykinn. Þessvegna þarf að setja lög gegn reykingum inni á heimilum barna og annarra varnarlausra til að leiðrétta það viðhorf að fólk megi beita sín eigin börn þessari sérstöku tegund ofbeldis. Eins og mér er annars illa við boð og bönn sé ég hreinlega ekki að nein önnur leið sé vænlegri til árangurs.
Þú ert áreiðanlega að hugsa um það núna að ég hljóti vera paranojd og/eða fasísk og hafa rammskakka mynd af þessu. Ég er vissulega bæði paranojd og fasísk gagnvart þvinguðum reykingum, af réttmætum ástæðum, en myndin er ekki skökk. Fylgstu bara með vinum þínum og ættingjum sem halda því fram að þeir reyki ekki ofan í börnin sín, og skoðaðu hvað þeir gera raunverulega. Ef þú segir ekkert, fylgist bara með, muntu sjá að flestir þeirra reykja innan dyra en segja að það sé allt í lagi af því að barnið sé í öðru herbergi. Börnin þeirra eru auðvitað ekkert öðruvísi en önnur börn, færa sig nokkuð oft á milli herbergja og gera ekki boð á undan sér. Það er engin leið að loftræsta áður en þau koma fram, og auk þess gleymir sá fullorðni iðulega að drepa í þegar barnið birtist en heldur því þó jafnan fram að það sé ‘algjör undantekning’.
Eva Hauksdóttir, 10.2.2009 kl. 15:44
——————————————————
Af hverju er alltaf talað eins og réttur fólks til að hafa dýrin sín með sér á mannamót eigi að einskorðast við hunda. Hvers eiga eigendur annarra dýrategunda að gjalda? Margir ferðast um með kanínurnar sínar, kettina, páfagaukana ofl. Sumir eiga gælurottur sem ferðast utan á eigendum sínum. Fjöldi frístundabænda á nokkrar rollur og svo gæti færst í vöxt að fólk fái sér hænur í garðinn.
Geit (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 09:43