- Flestir halda að ég sé náttúrubarn og bókaormur, hvorugt er rétt.
- Ég hef fáránlega ástríðu gagnvart orðum, spila t.d. scrabble við sjálfa mig og les orðabækur.
- Mér finnst ofboðslega leiðinlegt að fara í búðir, sérstaklega fatabúðir.
- Ég kann vel við kóngulær.
- Ég hef óvenju lítinn húmor fyrir slysum, sjúkdómum, ofbeldi, kynþáttahyggju og kynrembu.
- Mér finnst dauðinn ekkert sérstaklega sorglegur.
- Ég græt oft af yfirborðskenndri tilfinningavellu en sjaldan af sorg, kvíða eða reiði.
- Ég er langrækin og úthluta engum fyrirgefningu nema syndaviðurkenning liggi fyrir en fyrirgef þeim fúslega sem iðrast í alvöru.
- Mér finnst ekkert niðurlægjandi við að viðurkenna að maður hafi gert mistök eða haft rangt fyrir sér, ef eitthvað er er það frelsandi.
- Ég hef megna andúð á snobbi, einkum snobbi gagnvart menntun og atvinnu.
- Ég er haldin fordómum gagnvart AA fólki.
- Neyslubrjálæði, sóun á nauðsynjavörum og sóðaleg umgengni um náttúruna hneykslar mig.
- Ég hef trúarþörf og yrki sálma en trúi þó ekki á Gvuð.
- Ég hef ástarþörf og yrki ástarljóð en trúi þó ekki á rómantíska ást.
- Ég trúi á hagkvæmnishjónabönd og myndi funkera vel í slíku.
- Mér finnst eitthvað hryllilega ógeðslegt við að sjá fólk setja borðhníf upp í sig eða sleikja hann.
- Mér finnst hinsvegar ekkert ógeðslegt að lána öðrum tannburstann minn.
- Ég hef mikla þörf fyrir vinsamlega snertingu og vil helst sofa í rúmi með öðrum án þess að sé neitt kynferðislegt við það.
- Ég tek óvæntri, kynferðislegri snertingu hinsvegar mjög illa en bráðna frekar fyrir tvíræðu augnaráði, athugasemdum og látbragði.
- Ég verð skotin í kornungum strákum sem kunna hvorki á hárgreiðu né klukku en ég gæti ekki hugsað mér að búa með slíku eintaki.
- Það sem mér finnst erfiðast við að búa með öðru fólki er draslið sem fylgir manneskjum.
- Ég missi fljótt virðinguna fyrir fólki sem skortir hugrekki eða kemur fram af óheilindum.
- Andlega sinnað fólk fer í taugarnar á mér.
- Ég vinn illa undir álagi og gengur best að halda mig að verki þegar ég hef nægan tíma.
- Ég á erfitt með að fara eftir áætlunum annarra, breyti yfirleitt alltaf einhverju, bara til að draga úr þeirri tilfinningu að einhver annar sé að stjórna mér.
Ég hef oft verið frekar neikvæð gagnvart svona leikjum en um daginn þegar ég var að skoða vinalistann minn hér, áttaði ég mig á því að ég veit yfirleitt ekki rassgat um þetta fólk. Ég ákvað að vera með í þetta sinn og þeir sem ég skora á að birta sambærilega lista eru ekki meðal þeirra sem ég er í nánu sambandi við í dag, heldur frekar fólk sem vekur áhuga minn en ég veit lítið eða ekkert um.