Mín eina hjartans löngun um það snýst
að yrkja til að anda til að skrifa
og ekki hættir tímans úr að tifa
og tækifærum fjölgar allra síst.
Ef ekkert svar af söngli mínu hlýst
sem segir mér að ljóð mín megi lifa
ég sífellt mun á sama tóni klifa
uns sál þín greinir sandlóunnar tíst.
Í fjarskanum ég greini fljótsins drunur
er fjötra íssins brýtur vorsól hlý
þótt ljóð mitt beri lítinn vott um snilli
en hvort það verður meira en mynd og grunur
að mestu leyti veltur nú á því
sem lestu sjálfur línanna á milli.