Góður dagur

Mikið var þetta góður dagur.

Við fórum í Austurbæ og sáum Annie og svo komu afi Bjarni og amma Hanna í mat til okkar. Ég bjó til lasagne með spínati og möndlum sem uppistöðu og eftirrétturinn var mjög fljótlegur heimatilbúinn ís.

Ég er ákveðin í því að halda matarboð reglulega á þessu ári. Ég hef svo mikla ánægju af því að fá fólk í mat og matarboð útheimtir hvorki að maður þurfi að standa í stórþvotti sökum reykmengunar daginn eftir, né að maður missi svefn. Það er nákvæmlega ekkert vesen ef maður hefur lítinn tíma, mín reynsla er allavega sú að fólk kunni almennt vel að meta ofnrétti, pottrétti og annað sem hægt er að undirbúa með fyrirvara og það þarf heldur alls ekki að vera dýrt að bjóða fólki í mat.

Ruglus

Ég hef heldur betur ruglast í kvartilaskiptunum. Eins gott að ég galdraði um áramótin. Var mér enganveginn meðvituð um að einmitt á gamlársdag var nýtt tungl, það fyrsta eftir vetrarsólstöður. Ég galdraði allavega helling af hamingju svo þetta hlýtur að verða gott ár.

Næsti verulega magnaði galdradagur er semsagt ekki í dag heldur föstudagurinn 13. en þá um nóttina er einnig fyrsta fullt tungl í nýju ári. Ég endurtek þá bara lækningagaldrara sem ég framdi síðustu nótt, þeir verða bara magnaðri fyrir vikið.

Urr

Ég kemst ekki inn á bloggsíðuna mína (þ.e.a.s. síðuna sem birtist a blogspot.) Aðrar blogspot síður koma upp en mín er bara hvít. Fékk andartak hland fyrir hjartað því ég á ekki afrit af þessum textum og ég hugsa að ég sæi eftir nokkrum þeirra ef kæmi í ljós að síðan væri bara horfin. Ég get allavega afritað þá ennþá, það kom í ljós þegar ég reyndi að komast inn á ritsíðuna (blogger) eða hvað sem það heitir á íslensku).

Ég um mig til minnar listsköpunar

Það er nú mannsins eðli að álíta sjálfan sig áhugaverðusta einstakling á jarðríki. Flestir hafa mikla þörf fyrir að tala um sjálfa sig (annars þrifust ekki allar þessar bloggsíður) og sumir eiga svolítið erfitt með að átta sig á því að allir hinir hafa þessa sömu þörf fyrir að tjá sig um sjálfa sig. Mikilvægasta orð í heimi er „ég“. Halda áfram að lesa

Gerningar

Gerast nú dröm mikil í þeim þáttum sápuóperu tilveru minnar sem eigi er birtingarhæf í bloggheimum. Hef þegar varið 30 mínútum af þessum morgni í að reyna að leiða möppudýrum kerfisins fyrir sjónir þau voðaverk sem eru í uppsiglingu en spádómsgáfa mín er að engu höfð.

Ég hef aldrei gert alvarlega tilraun til veðurgaldurs en mun nú beita mér af öllu afli fyrir því að aðfaranótt 10. janúar gangi fellibylur yfir Keflavíkurflugvöll.

Niðurstaðan varð magadans

Urr.
Ég var að reyna að skrá mig á námskeið hjá Kramhúsinu en tekst ekki að senda skráninguna og enginn svarar síma.

Afródansar eru kenndir á laugardögum sem hentar mér enganveginn, svo ég skráði mig í magadans. Held reyndar að það sé ekki fljótleg leið til að auka úthald en öll hreyfing er betri en engin og þetta hlýtur þó að vera aðeins erfiðara en jóga. Auk þess er minni hætta á að mér finnist magadans leiðinlegur og markmið númer eitt er nú einmitt að leiðrétta þá skoðun að ég sé bara ekki þessi týpa sem hoppar. Kannski árangursríkara að velja eitthvað sem samræmist því þótt það skili ekki tígrisdýrslungum fyrir páska.

Reyndar kostar þetta aðeins meira en ég hafði hugsað mér að setja í viðhorfssnúninginn en ég hef náttúrulega allra síst efni á því að eyðileggja dæluna með notkunarleysi.