Um ofstæki mitt gagnvart reykingum

Ég held að ég hefði nú ekki vogað mér að reykja nálægt þér ef ég hefði verið búinn að lesa vefbókina þína, sagði Málarinn.

Ég benti honum á að þrátt fyrir ofstækisfullt hatur mitt á reykingum, hef ég búið með þremur mönnum og einni konu (ekki samt öllum í einu, þótt ég sé gefin fyrir stóðlífi) sem reyktu öll. Og ekki reyndi ég að koma í veg fyrir það. Öll systkini mín hafa lengst af reykt og reyndar flestir þeirra sem ég hef umgengist mest í gegnum tíðina. Ég hata nefnilega bara reykingar en ekki tóbaksfíkla og aðra sjúklinga. Halda áfram að lesa

Og svarta Górillan hefur afpantað tímann

Örlögin geta átt það til að vera kaldhæðin. Það er samt ekki svo margt sem veltur á örlögunum. Við getum ekki haft stjórn á veðri og jarðhræringum, efnahagskerfinu eða húsnæðismarkaðnum (allavega ekki hvert um sig). Við getum farið varlega og lifað heilbrigðu lífi en við útilokum ekki möguleikann á slysum og sjúkdómum. Flestu öðru ráðum við sjálf og afstaða okkar skiptir að sjálfsögðu sköpum um það hvort við getum talið okkur hamingjusöm eða farsæl.

Yfirleitt getur maður skrifað kaldhæðnislegar aðstæður á sinn eigin fávitagang. Og þannig verður maður Megas. Nema maður vilji frekar vera Kristján Fjallaskáld. Það held ég hafi verið boooring.

Angurgapi

Er nokkuð að marka þetta? Er þetta ekki bara óttaleg vitleysa, hnussaði Angurgapinn og geiflaði sig af hneykslan þess sem þarf ekki að kynna sér hlutina áður en hann dæmir þá.

Venjulega útskýri ég hugmyndafræðina í stuttu máli en þessi var greinilega bara komin til að fá útrás fyrir einhverja geðbresti og það eru takmörk fyrir því hversu langt ég nenni að ganga í samfélagshjálpinni.

Jafnvel þótt ég væri nógu galin til að byggja rekstur fyrirtækis á tómri vitleysu, væri ég samt ekki nógu heimsk til að viðurkenna það svaraði ég drungalega og gaut augunum illilega á hana.

Hún keypti reykelsi. Þefaði ekki einu sinni af þeim fyrst.

Skilnaðarblús

Í síðustu viku sölsaði ég undir mig Nornabúðarveldið. Nú þarf ég bara að finna meðeiganda sem nennir að standa í því að hnattvæða dæmið.

Ef búðin væri þegar orðin hnattræn (eða „global group“, svo maður tali nú skiljanlegt mál), gæti ég fundið meðeiganda í gegnum raunveruleikaþátt. Fyrsta verkefnið yrði að leggja tarotspil fyrir Birgi Baldurs. Ekki af því að ég hafi unun af því að horfa á fólk þjást (ég hef það vissulega en einmitt þessvegna voru bollgaggið og pískurinn sett á markað), heldur til að útiloka miðlamafíuna og finna fólk sem getur staðið með mér án þess að þurfa vikulega áfallahjálp.

Ég hef komist að því síðustu daga að skilnaður við viðskiptafélaga er meira vatnslosandi en netluseyði. Munurinn á þessu og skilnaði við fávita af loðnara kyninu er sá að viðskiptafélaginn hefur hvorki umgengnis- né forsjárskyldu gagnvart afkvæminu.

Sem betur fer er samt allt í góðu á milli okkar og ég reikna með einhverju samstarfi áfram. Og það er nú gott því ég elska Spúnkhildi meira en búðina. Ef það er þá hægt.

Afrek dagsins

Sögulegur atburður hefur átt sér stað. Ég innbyrti mat sem inniheldur fleiri næringarefni en hvítan sykur og coffein.

Ég hef aldrei átt erfitt með að treysta fólki. Enda er fólki almennt treystandi. Fólk bregst nánast aldrei af því að það sé illa innrætt, heldur vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Í augnablikinu á ég ponkulítið erfitt með að treysta aðstæðum þeirra sem hafa lýst yfir áhuga á samstarfi. Það er nefnilega fyrirsjáanlegt að aðstæður gætu orðið óviðráðanlegar.

Ég er satt að segja búin að fá af óviðráðanlegum aðstæðum í bili.

Á framabraut

Nú er ég farin að fá æsispennandi tilboð um að gefa líknarfélögum vinnuna mína. Það hlýtur að merkja að ég sé álitin listamaður. Aldrei leit nokkur maður á mig sem listamann á meðan ég var bara ljóðskáld.

Gerðu áhugamál þín að bissniss og þú verður álitinn listamaður.