Ég sakna tenglanna minna. Dáltið eins og að búa ein í blokkinni. Eins gott að Anna er með vaska sveit lífvarða í kringum sig. Ég ætla bara rétt að vona að Ken skili henni aftur.
Greinasafn eftir:
Bara að ljúga?
Ég var orðin töluvert áhyggjufull vegna pöntunar sem ég lagði inn hjá fyrirtæki í Bandaríkjunum þann 11. spetember. Ég greiddi vörurnar með korti og fékk þær upplýsingar að þær ættu að berast mér innan sex vikna. Ekkert hefur ennþá bólað á sendingunni en ég fékk þær skýringar hjá fyrirtækinu, endur fyrir löngu, að sendingin hefði ekki farið af stað fyrr en 10 dögum eftir að ég lagði inn -og greiddi pöntunina. Ekki fást skýringar á hvernig á því standi.
Í morgun hringdi ég svo í póstinn til að athuga hvort þar á bæ væri hægt að fá einhverjar upplýsingar um hvað hefði orðið af sendingunni. Góða konan sagði mér að það tæki minnst átta vikur og gæti tekið allt að tólf vikur að fá vöru afgreidda frá Bandaríkjunum en að fyrirtæki ættu það til að „ljúga bara“ til um afgreiðslutímann.
Ég ætla rétt að vona að sendingin berist fyrir jól. Annars gæti farið svo að eitthvað verði ekki fullkomið og það er náttúrulega óþolandi.
Pósturinn kominn í lag
Netpósturinn, bæði minn prívat og hjá búðinni var óvirkur seinni partinn í gær af tæknilegum ástæðum en nú er allt fullkomið. Þeir sem hafa fengið villuboð á póstinn sinn, reyni endilega aftur.
Oj
Mikið skil ég vel að barnið í Vanish auglýsingunni hafi sullað þessum ókræsilega kvöldverði niður á fötin sín fremur en að borða hann.
Speki dagsins
Sonur minn Bjargvætturinn: Það er hann sjálfur sem leikur hann.
Sonur minn Byltingin: En ekki hver?
Sonur minn Bjargvætturinn: En ekki hann sem leikur hann sem leikur stundum einhvern annan.
Loksins, loksins
Anna er búin að trixa Nornabúðarsíðuna þannig að nú er ekkert mál fyrir mig að uppfæra hana. Snorri tók fullt af nýjum myndum sem koma inn bráðum og vefbókin mín komin hingað svo nú get ég ritræpt eins og vindurinn án þess að hafa áhyggjur af uppátækjum Bloggers.
Þarf að læra á kerfið til að setja inn tengla en það kemur.
Nýtt heilkenni
Ég var að uppgötva nýjan sjúkdóm; sjúkdómsgreiningarheilkennið.
Sjúkdómsgreiningarheilkennið kemur fram í sterkri tilhneigingu til að klína sjúkdómsheitum á hvern þann eiginleika sem gerir karakter að karakter. Sá sem er haldinn sjúkdómsgreiningarheilkenni er logandi hræddur við hvern þann sem gæti talist „so fucking special“ og finnur hjá sér óstöðvandi hvört til að útskýra viðhorf hans og tilfinningaviðbrögð sem eitthvað óeðlilegt sem þarf að „lækna“. Ef einhver víkur örlítið frá fullkominn meðalmennsku, hlýtur eitthvað að vera að honum. Allt sem er á einhvern hátt óþægilegt fyrir meðaljóninn í okkur, hvort sem um er að ræða andfélagslega hegðun eða bara sérvisku sem veldur svosem engum skaða, er skilgreint sem sjúklegt ástand.
Illa uppalin börn eru ofvirk, agalausir letingjar með athyglisbrest, fólk sem er stjórnlaust af frekju með þrjóskuröskun, einfarar haldnir tengslaflótta, fólk með ríka skipulagshvöt er með þráhyggju og einþykkt fólk sem spyr óþægilegra spurninga eða hefur þörf fyrir meiri líkamlega nánd en gengur og gerist með Aspergerheilkenni.
Sjúkdómsgreiningarsjúklingurinn er þó sá eini sem á raunverulega bágt. Sjúkdómsheiti hans hefur nefnilega ekki ennþá verið viðurkennt og því engin meðferð til við kvillanum. Meðferðin við öllum hinum heilkennunum er fyrst og fremst sú að nota sjúkdómsheitið til að skýra öll frávik í hugsun og hegðun og ef það dugar ekki til þess að aðstandendum sjúklingins líði betur er tekist á við ástand þeirra með því að dæla fíkniefnum í heilkennishafann. Ég býst við að sjúkdómsgreiningarheilkenni megi lækna með cannabis.
(Þessi færsla átti að bera titilinn „sjúkdómsgreiningarheilkennið“ en þar sem blogger er haldinn uppsetningarrröskurnarheilkenni, sem kemur fram í því að raska uppsetningu síðunnar ef ég hef langar fyrirsagnir eða reyni að setja inn fleiri tengla (það er bara þessvegna sem þeir eru ekki fleiri)varð ég að stytta hann. Anna er að búa til nýja bloggeróháða síðu handa mér svo þetta stendur til bóta.)