Hvarfl

Systir mín barnaheimilið sagði einu sinni að fljótlegasta leiðin til að verða sér úti um almennilegan maka væri sú að finna sér ungling og ala hann upp. Og það gerði hún. Fermingardrengurinn hennar varð fullorðinn á aðeins 5 árum en ég er enn ógipt og grátandi.

Ég held að sama regla gildi ef maður vill gott starfsfólk. Ráða ungt fólk, bara ekki heimskt, latt eða leiðinlegt. Búðarsveinninn jólaði bílinn minn. Glætan að ég hefði fengið svona góða þjónustu ef ég hefði ráðið einhverja andlega kerlingu með mikla reynslu af afgreiðslustörfum. Ég ætla samt ekki að senda piltinn í Bónus til að sinna mínum persónulegu jólainnkaupum. Það væri einum og langt gengið í því að misnota aðstöðu sína. Ekki svo að skilja að það hafi ekki alveg hvarflað að mér.

 

Urr dagsins

Hvernig afrekaði einhver það að planta þeirri hugmynd meðal Íslendinga að jólum tilheyri sleðaferð með bjölluhljómi í hvítum snjó? Grútskítugur bíll í tjörumenguðu saltkrapi er nær lagi.

Fávitar

 

Versta vika ársins að hefjast

Desemberkvíðinn í hámarki. Þótt ég hafi nákvæmlega engu að kvíða. Það eina sem ég þarf að gera sem mér finnst erfitt er að fara í Bónus (Darri verður í sveitinni fram á Þorláksmessu svo ég get ekki sent hann) og svo auðvitað að missa svefn. Ég hélt að ég væri vel birg af öllu í byrjun aðventu en sit uppi með sama lúxusvandamál og í fyrra, tómar hillur í lok dags. Ég veit ekki hvar þetta fyrirtæki væri ef Saumfríðar nyti ekki við en þótt hún sitji við vélina öll kvöld hef ég nóg að gera við að mála galdrastafi á allan fjandann, brenna birkiplötur og vigta jurtir fram á miðja nótt.

Annars er ég alltaf heltekin af þreytu og kvíða síðustu viku fyrir vetrarsólstöður, jafnvel þótt sé ekkert óvenjulegt álag á mér, jafnvel þótt mitt umhverfi sé sennilega streitulausara en flestra annarra Íslendinga og jafnvel þótt ég verði í fríi öll jólin. Veit ekki alveg hvernig á því stendur en ég er yfirleitt búin að ná mér á Þorláksmessu, einmitt þegar allir aðrir eru gjörsamlega að fara á límingunum. Og það er alveg sama hvað ég er vel undirbúin og hef mikinn stuðning, þessi tími er alltaf sama helvítið fyrir sálina í mér.

Sum sár gróa bara einfaldlega ekki.

 

Álög

Ég sé enga ástæðu til að neita mér um það sem mig langar í nema það sé sjúkt, rangt eða skaðlegt. Hitt er svo annað mál að ég hef oft staðið sjálfa mig að því að stinga upp í mig kökubita, bara af því að hann var fyrir framan mig en ekki vegna þess að mig langaði svo mikið í hann. Svo er líka talsverður munur á því að vilja og langa. Það er bara þessvegna sem ég ét ekki allar kökurnar í bakaríinu. Mig langar það ekki nógu mikið til að taka áhættuna á því að fá sykursýki. En ef mann langar í alvöru, þá má maður samt alveg fá eina. Helst með jarðarberjum.

Maðurinn sem er með sprungu í skelinni trixaði mig með töfrasprota og í dag er ég kaka. Og með jarðarber i hjartanu. Sem gerir það líklega sætt og girnilegt til átu. Það er dálítið ógnvekjandi en það er allt í lagi. Ótti er ekkert hættulegur nema maður leyfi honum að stjórna sér. Hann sagðist líka vera hættur að lesa bloggið mitt. Það var, trúi ég, hin mesta lygi.

 

Lögmálið

Skilaboðin á gemsanum algjörlega úr karakter. Merkilegt hvað þú gerist alltaf ástúðlegur þessi stuttu tímabil sem ég trúi því að ég muni einhverntíma eignast maka, eins og þú ert annars hamingjusamur og alveg tilbúinn til að sleppa takinu á mér. Hálftíma síðar ertu kominn, af því þú veist að ég þarfnast þín þótt ég nefni það auðvitað ekki. Sonur minn hinn herskárri kemur heim af kvöldvakt og fagnar þér með því að klóra þér blíðlega undir hökunni. Ég hef margsinnis bannað strákunum að koma fram við þig eins og þú sért gæludýrið okkar en við hverju er að búast þegar þú lygnir augunum og biður um meira? Halda áfram að lesa

Óafgreitt mál

Kannski er nett galið að fá egóbúst út úr því að fara inn á netbankann bara til að sjá skilaboðin enginn ógreiddur reikningur, rétt eins og það sé eitthvert afrek að standa við skuldbindingar sínar. En stundum er hamingjan fólgin í því að eiga fyrir reikningunum sínum og dálítinn afgang líka, sérstaklega þegar stóri bagginn vegna utanhússviðgerðanna kemur í desember. Ég gat borgað hann án þess að taka lán og er að rifna af monti, búin að kíkja oftar á netbankann en tölvupóstinn þótt ég hafi svosem haft nóg annað að gera. Lét Búðarsveininn bara skúra og sendast svo ég gæti setið og brosað framan í netbankann :-Þ Halda áfram að lesa