Verðmat

Fasteignasala auglýsir frítt verðmat án skuldbindingar um að íbúðin sé sett á sölu. Ég minnist þess nú ekki að hafa verið rukkuð um verðmat þegar ég hef sett mínar íbúðir í sölu en vel má vera að einhver fasteignasala sé til sem rukkar fyrir það. Held samt frekar að búi eitthvað undir þegar það sem venjulega er innifalið í pakkanum er auglýst sem „frítt“. Halda áfram að lesa

Stál

Hefur gengið á með éljum. Skrattinn hamast á dyrabjöllunni og Amma hans sendir sms. Skrattinn svarar ekki símanum og Amma hans svarar ekki dyrabjöllunni. Lítið um sprungnar skeljar í þeirri fjölskyldu.

Um miðnætti tróð ég Skrattanum í sauðarlegginn og stáltappa í opið. En ég átti bara einn legg svo Amman lék lausum hala í alla nótt og hélt fyrir mér vöku. Um það leyti sem hún fékkst til að leggja sig var Skrattinn vaknaður. Ég gerði tilraun til að bjóða honum morgunmat ef hann lofaði að vera stilltur en hann trompaðist bara og hótaði að aka stórri ýtu á stáltappann ef ég opnaði ekki fyrir honum.

Svei mér þá ef lítur ekki út fyrir stórhríð.

 

Stundin á milli

Él standa aldrei lengi. En þau koma stundum nokkur í röð. Önnur hrina í kvöld og svo er það búið.

Í augnablikinu er allt eins og það á að vera. Ég er að gúlla í mig súkkulaði. Það er með vanillukremi.

Stundum er sumt alveg eins og það á að vera.

 

Ljónakaramella

Maðurinn sem getur alveg sofið við hliðina á mér segir að varir mínar bragðist eins og karamellan í Lion-Bar. Vanilla eða hunang hefði kannski verið rómantískara en þar sem hann fílar Lion-Bar í ræmur er ég sátt við þann dóm.

Ég er búin að vera að sleikja á mér varirnar í allan morgun og ég finn nú bara venjulegt varabragð.

Lífið hefur allajafna verið næs við mig en þessa dagana líður mér jafnvel betur en venjulega.