Að gefnu tilefni

Þótt ég hafi tekið vefbókina úr birtingu merkir það ekki að það hafi orðið andlát í fjölskyldunni, ég sé rambandi á barmi sjálfsmorðs, gjaldþrots, giftingar eða taugaáfalls, hafi orðið fyrir ólýsanlegu áfalli eða að eitthvað annað sé „að“ hjá mér.

Það er ekkert meira að mér en venjulega og satt að segja á ég að baki furðulegri uppátæki en þau að hvíla mig á fremur ómerkilegri dægradvöl.

 

Komið til skila

Jæja Mogginn er búinn að leiðrétta mestu rangfærslurnar.

Ég varð frekar fúl þegar þeir sögðu frá þessu nánast eins og Haukur væri bara ranglandi um Palesínu á eigin vegum að snapa fæting en get kannski frekar lítið sagt þar sem ég neitaði að gefa upplýsingar (enda var ég búin að lofa Hauki að gera það ekki nema fá leyfi hjá honum fyrst.) Þetta er þá allavega komið á hreint og Haukur er kátur. Ekkert á heimleið held ég þótt flestum í fjölskyldunni hefði þótt best ef hann yrði bara rekinn úr þessu hræðilega landi.

 

Án þess að vita

Fólk heldur oftast að það sé mikilvægara en það er. Samt er því stöku sinnum öfugt farið. Oft í hverri viku hitti ég mann sem heldur áreiðanlega að hann sé mun stærra númer í lífi fjölskyldu sinnar, vina og nágranna en raun ber vitni. Samt hefur hann ekki hugmynd um að ég, sem veit ekkert um hann, ekki einu sinni fullt nafn hans, er sennilega uppteknari af því hvað hann er að hugsa en allt þetta fólk samanlagt.

Neeej, ég er ekki ástfangin af honum. Ég á það til að fá fólk á heilann af öðrum ástæðum. Ég hef samt velt því fyrir mér undanfarið hvort ég skipti kannski töluverðu máli í lífi einhvers sem ég þekki ekki, án þess að hafa minnsta grun um það.