Afsakið …

Mér finnst alltaf skrýtið þegar fólk biðst afsökunar á því að hafa ekki bloggað lengi. Ég gæti kannski skilið það ef bloggið væri eina færa leiðin til að láta nánustu aðstandendur vita að maður sé á lífi en þeir sem eru í aðstöðu til að blogga geta nú yfirleitt líka sent tölvupóst. Það liggur því beinast við að álykta að fólk sé að biðjast forláts á því að hafa ekki sinnt þeirri borgaralegu skyldu sinni að vera kunningjum sem og ókunnugum til afþreyingar. Upplifir fólk virkilega vefbókina sem kvöð? Eitthvað sem maður skrifar af skyldurækni fremur en sjálfum sér til ánægju? Halda áfram að lesa

Smá klemma

Ég get fengið nákvæmlega þá íbúð sem ég vil, fyrir 130.000 kr meira en það hæsta sem ég er tilbúin til að borga.

Ég gæti áreiðanlega galdrað fram 130.000 í viðbót en það bara ofbýður sanngirniskennd minni. Á hinn bóginn er frekar hallærislegt að missa af akkúrat því sem maður vill, fyrir skitinn 130.000 kall, sem maður getur reddað.

Nú þarf ég að hugsa út fyrir rammann.

 

Eymd

Ég ætla að loka búðinni yfir páskana. Hef svona verið að velta fyrir mér þeim möguleika að vera bara þar og vinna eins og vitleysingur. Nóg verkefni framundan. Gæti haft yfirdrifið nóg að gera 14 tíma á dag, jafnvel þótt búðin væri lokuð. Ég þarf bara svo sárlega á fríi að halda. Þyrfti helst tilbreytingu, skipta um umhverfi, brjóta upp rútínuna, hitta fólk, gera eitthvað.

Ég hlakka samt ekki baun til þess að vera í fríi. Vandinn er sá að ég nenni ekki að fara neitt, nenni ekki að gera neitt og nenni ekki að hitta neinn. Hef ekki einu sinni druslast í leikhús nema einu sinni það sem af er árinu, sótt eina tónleika og farið fimm sinnum í bíó. Sá ekkert á frönsku kvikmyndahátíðinni. Núna nenni ég ekki einu sinni í vinnuna og klukkan að ganga 10. Það væri mjög eðlilegt ef ég væri útkeyrð af þreytu eða væri að fara að gera eitthvað ógurlega spennandi í kvöld.

(Reyndar varð ég svo sjokkeruð yfir sjálfvalinn eymd minni í síðustu orðum skrifuðum að ég pantaði mér leikhússmiða í kvöld. Ætla hér með að rífa mig upp og koma mér að verki.)