10 ára planið

Þann 1. júlí 2017 verð ég:

-Nógu rík til að ráða fólk í öll verk sem mig langar ekki beinlínis að vinna sjálf.
-Með sömu fituprósentu og í dag.
-Amma (að vísu fær það plan dræmar undirtektir hjá niðjum vorum en ef fortölur duga ekki má alltaf nota gamla, góða húsráðið, að leita uppi smokkasafn heimilisins og leggja á það títuprjónsálög.)
-Hætt að tárast af væmni (ég þoli ekki þennan veikleika hjá sjálfri mér).
-Ennþá gift manninum sem ég giftist sumarið 2008. (Þar sem doktorsnefnan hefur jafnan tekið bónorðum mínum heldur fálega, reikna ég með að beina kröftum mínum heldur að karli einum kankvísum. Hver hann verður veit nú enginn og þá síst hann sjálfur en ástæða er til að ætla að hann verði góður við konuna sína.
-Búin að verja a.m.k. 3 mánuðum við hjálparstörf á stríðshrjáðu svæði.
-Óþolandi hamingjusöm.

 

Takk fyrir mig

Þúsund þakkir fyrir allar afmæliskveðjurnar. Ég vssi ekki að síminn minn gæti tekið á móti svona mörgum sms-um. Og þið sem reynduð að hringja; ég er ekki alveg svona símafælin, ég slökkti ekki á símanum til að losna við að svara, heldur af því að ég var fyrst í kaffiboði og svo að vinna. Ég er líka búin að fá allt of dýrar og fínar gjafir. Held að pabbi og Ranga séu endanlega gengin af vitinu. Halda áfram að lesa

Ammli

Vaknaði tvisvar við símann í nótt. Get svosem alveg fyrirgefið þeim sem hringja á næturnar þegar tilgangurinn er að syngja afmælissöng, úr partýi sem ég hefði kannski mætt í ef mér þætti ekki skemmtilega að sofa. Já og Elías er á sérsamningi. Vaknaði svo fertug í morgun. Gömul og vitur kona í stelpulíkama. Ætla samt ekki að fagna fyrr en í haust þegar ég er flutt inn í fallegu, fallegu íbúðina mína og vinir og vandamann komnir úr sumarfríi.

Ég er samkvæmt hefð að vinna á ammlisdaginn minn. Notaði morguninn til að útbúa kræsingar ofan í 16 manns (jamm, nornafundur í kvöld) og á eftir að útbúa smágaldra fyrir hópinn og nokkrar pantanir.

Fæ samt pönnukökur hjá pabba og Rögnu í dag.

 

Afrekaskrá fjórða áratugarins

Eftir nokkra klukkutíma verð ég fertug.

Fyrir 20 árum fannst mér að það hlyti að vera beint samhengi á milli þess að vera fertugur og ráðsettur. Mér líður samt ekkert ráðsett. Ég er heldur ekkert á leið í neina miðaldurskrísu. Ég hef upplifað tímabil sem ég hef haft meiri frítíma og lagt meiri rækt við heilann í mér en í heildina tekið hef ég aldrei verið jafn sátt við lífið og sjálfa mig. Halda áfram að lesa

Fyrr má nú rota…

Ég ber afskaplega litla virðingu fyrir „best fyrir“ dagsetningum á matvöru. Ég lít á slíka merkingu sem ábendingu um það hvenær maður ætti ekki að borga fyrir vöruna en ekki sem heilagri tilskipun um að henda henni. Lykt og bragð kemur allajafna upp um skemmda fæðu og ég sé enga ástæðu til að bæta nothæfum mat við sorpbirgðir veraldarinnar. Sjoppmundur vinur minn er sama sinnis og gefur mér stundum vörur sem eru orðnar of gamlar til að hann geti selt þær. Ég geri það sama, gef uppáhaldskúnnum krem og olíur sem eru að renna út eða býð upp á köku þegar ég sé fram á að hún fari annars í ruslið.

Það hlýtur nú samt að vera einhver munur á því að vera nýtinn og að nota magann á sér sem ruslafötu. Í gær braut ég allavega það prinsipp að láta nef og tungu um að meta ástandið. Ég rakst á sinnepsbrúsa í kæliskáp föður míns. Hann var merktur best fyrir 07 2001. Ég veit ekki hversu lengi sinnep geymist en hugsaði sem svo að ef á annað borð gæti myndast eitrun í sinnepi yrði þetta ættargóss að teljast varasamt. Þar sem dagsetningin var orðin máð, ákvað ég að gefa forræðishyggju minni lausan tauminn og forða föður mínum frá bráðum bana af völdum sinnepseitrunar.

Þetta var frekar sárt. Flaskan var næstum því full. Sem bendir reyndar til þess að pabbi sé ekki nógu sólginn í sinnep til að leggjast í þunglyndi yfir tjóninu.

 

Heimskona

Ég efast um að tengdadóttir mín, hin eðalborna, hafi vanist því sem hluta af daglegum heimilisstörfum að pödduhreinsa greinar og tæta sundur hálfúldin hrafnahræ. Ég hefði búist við því að stúlka sem er alin upp í höll, segði allavega oj, en mín lætur ekki annað á sér sjá en að þetta sé allt saman fullkomlega eðlilegt.

Heimskona er sú sem er jafnhæf til að sitja veislur aðalsmanna, skipuleggja mótmælaaðgerðir og brúka þorskhaus til galdrakúnsta.

Vondir nágrannar

Einu sinni fyrir löngu kom til mín viðskiptavinur sem bað um galdur til að losna við erfiða nágranna. Það er svosem ekkert óalgengt að fólk biðji um ráð til að bæta andann milli granna, hjálp við að leysa deilur friðsamlega eða jafnvel að losna við einhvern sem reynist óviðræðuhæfur. Þetta tilvik var þó dálítið sérstakt, þar sem allir í stigagangnum voru ósambúðarhæfir og ef ekki þeir sjálfir, þá voru það vinir þeirra sem gengu um með háreysti eða lögðu bílunum sínum illa. Halda áfram að lesa