Hættur, farinn

Á meðan fólkið sem bauð sig fram til þingsetu undir merkjum umhverfisvænnar vinstri hreyfingar keppist við að koma meiri völdum á færri hendur, sitja kjósendur aðgerðalausir og bíða eftir að ‘eitthvað’ gerist. Þeir fáu sem nenna og þora að láta ‘eitthvað’ gerast, vita nú af reynslunni að þeir eru of fáir til að ná árangri. Ekki einu sinni kannabisræktendur ná almennilegum árangri og eru þeir þó öllu fleiri en aðgerðasinnar á Íslandi. Halda áfram að lesa

Appelsínugul æla

Eftir þennan ömurlega fund á Lækjartorgi í dag, er ég búin að fá staðfestingu á því hverskonar roðhænsn það eru sem standa fyrir þessu. Ekki var minnst einu orði á hrottaskapinn sem lögreglan hefur sýnt af sér síðustu daga og auk þess var þessum fundi beint sérstaklega gegn grímuklæddu fólki. Halda áfram að lesa

Haukur tekinn úr umferð -valdníðsla í verki

Haukur var handtekinn í kvöld og honum gert að afplána 14 daga fangavist. Forsaga málsins er sú að í desember 2005 fékk Haukur á sig sektardóm vegna aðgerðar á vegum Saving Iceland. Hann kaus vitanlega að sitja af sér dóminn, þ.e. 18 daga, en var sparkað út á 5. degi til að rýma til fyrir öðrum aktivista sem þurfti að taka úr umferð. Honum var þá sagt að hann yrði kallaður inn síðar þegar fangelsismálastofnun hentaði. Hann reiknaði þó ekki með að vera hirtur upp af götunni án nokkurs fyrirvara.

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður þekkir þess ekkert dæmi að fangelsisyfirvöld skipti afplánun niður að eigin geðþótta. Það þarf mjög góðar ástæður til og einu dæmin sem þekkjast um að svo stuttum dómi sé skipt er ef sá dæmdi fer sjálfur fram á það vegna sérstakra aðstæðna, t.d. ef ástvinur fellur frá. Auk þess ber fangelsisyfirvöldum að boða fólk í afplánun með minnst 3ja vikna fyrirvara.

Ég tel engum vafa undirorpið að þessi óvenjulegu vinnubrögð, sem eru skýlaust mannréttindabrot, standa í beinu samhengi við það hve mikla athygli baráttuaðferðir Hauks hafa vakið. Tímasetningin er engin tilviljun. Undanfarna laugardaga hafa aðgerðasinnar staðið fyrir táknrænum gjörningum sem eftir er tekið og fá þeir skýr skilaboð um að betra sé að halda sig á mottunni, ganga ekki lengra en að halda ræðu eða veifa spjaldi.

Það er óþolandi að valdníðslan sem Íslendingar búa við skuli jafnvel ná til tjáningarfrelsins. Því er ætlunin að halda upp að lögreglustöðinni á Hverfisgötu strax að loknum mótmælafundi á Austurvelli á morgun og mótmæla þessum vinnubrögðum.

Mætum öll, fyrst á Austurvöll og svo upp að Hverfissteini. Höfum hátt og sýnum valdhöfum fram á að ekki verði þaggað niður í okkur með valdníðslu.