Ógnvaldur grunnildanna

Ég var fyrst núna að lesa þessa grein eftir Guðmund Andra. Finnst hún góð. Læt fljóta hér með tilvitnun í bréf frá Árna Finnssyni:

“Lögreglustjóri ríkisins vill gjarnan láta til sín taka þegar mótmælendur láta til sín taka. Sagt er að senda verði skýr skilaboð til mótmælenda þess efnis að ólögleg mótmæli verði ekki liðin. Skilaboðin eru þó ekki svo einföld. Af hálfu dómsmálaráðherra og stjórnvalda er verið að senda þau skilaboð til álfyrirtækja að þeim verði óhætt á Íslandi. Þau þurfi ekki að óttast mótæmæli af því tagi sem Miriam Rose tók þátt í.”

Ekki okkar mál?

Nú er vika síðan Ísraelsmenn lýstu því yfir að þeir ætluðu að breyta Gaza úr fangabúðum í útrýmingarbúðir. Ég hef ekki séð eitt orð um þetta frá ráðamönnum okkar Íslendinga. Hefur það farið fram hjá mér eða telja Íslendingar bara að þeim komi þetta ekki við?

Verjum Þjórsá

Þann 12. september standa grasrótarhreyfingar víða um heim fyrir alþjóðlegum mótmælum gegn stóriðju. Á Íslandi er þessi dagur helgaður stuðningi við baráttu íbúa í nágrenni Þjórsár gegn áformum Landsvirkjunar um stíflur og lón í neðri hluta Þjórsár.

Þær aðgerðir sem eru fyrirhugaðar á vegum Saving Iceland þennan dag eru afskaplega Íslendingslegar (eins og reyndar flestar aðgerðir Saving Iceland, það eru aðeins þær allra hörðustu sem rata í fjölmiðla) og ættu að henta jafnvel forpokuðustu hvítflibbum. Við ætlum að fá okkur labbitúr fyrir framan Stjórnarráðið, dreifa lesefni og svo er fyrirhuguð mótmælastaða við Þjórsá og nestisferð að Urriðafossi.

Þeir sem hafa áhuga á að vera í samfloti að Þjórsá geta sent mér tölvupóst eða hringt í mig.

Erfðabreytt korn er glæpur

Einu sinni var gaur sem hét Gvuð Almáttugur. Hann mun hafa skapað himinn og jörð og jurtirnar og dýrin.

Nú er hann dauður en í staðinn er kominn einhver annar sem segist hafa skapað, ja kannski ekki himinn og jörð en allavega ýmsar jurtir. Hann heitir að vísu ekki Gvuð heldur Monsanto en hann er fyrirtækjarisi sem hegðar sér eins og hann sé Gvuð, þ.e.a.s. hann hefur keypt sér einkarétt á erfðabreyttum korntegundum.

Fyrir smábændur þýðir þessi einkavæðing á lífverum t.d. að bóndinn verður að kaupa nýtt útsæði á hverju ári þar sem sumar erfðabreyttar plöntur bera ekki fræ. Fyrir aðra þýðir þetta að ef erfðabreytt korn berst inn á lönd þeirra, geta þeir reiknað með að verða lögsóttir fyrir þjófnað ef þeir selja afurðina.

Ég veit ekki hvor erfðabreytt korn er óhollt og ég viðurkenni að mér finnst ágætt að til séu steinalaus vínber. Það sem mér finnst algjört ógeð við erfðabreytt matvæli er viðbjóðseðli kapítalimans sem ætíð setur auð og völd ofar rétti manneskjunnar til að lifa við sæmilegt frelsi og öryggi.

Gæsaveislur og busavígslur

Orðskrípið „gæsun“ hefur valdið mér töluverðu hugarangri í mörg ár.  „Steggjun“ er ekki skárra. Hver er eiginlega hugsunin á bak við orðalagið að „gæsa“ konuna og „steggja“ karlinn? Ekki sú að halda veislu heldur að breyta hjónaleysunum í gæs og stegg? Hvernig beygist annars sögnin að gæsa? Gæsa, gæsaði, gæsað? Eða gæsa, gæsti, gæst? Síðari kosturinn er skömminni skárri.

Sömuleiðis hefur menningarfyrirbærið busavígsla víst breyst í „busun“ og nýnemar eru nú „busaðir“ við upphaf framhaldsskólagöngu sinnar.

Má af þessu ráða að eftir nokkur ár verði hjónavígsla „hjónun“ og nýgæst konan og nýsteggjaður karlinn verði ekki gefin saman heldur „hjónuð“. Prestsefnið verður „prestað“ og prestsvígslan sjálf kallast þar með „prestun“. Útskriftarathöfn stúdenta verður „stúdun“ en þar verða nýútskrifaðir námsmenn stúderaðir.

Sjálf er ég steinhætt að halda jól. Ég „jóla“ í stað þess að halda jólaboð og framkvæmi „jólun“ á híbýlum mínum í stað þess að skreyta húsið. „Afjólun“ fer svo fram 7. janúar ár hvert.

 

 

Undarlegt gildismat

Hvernig komast menn að þeirri niður stöðu að það sé óþarft að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim sem sparka í höfuð samborgara sinna á sama tíma og þeir sem standa í fíkniefnainnflutningi eru nánast alltaf teknir úr umferð? Nú er ég ekki að mæla með kókaínsmygli en þegar allt kemur til alls þá ræður fólk því sjálft hvort það notar vímuefni. Hinsvegar er næsta sjaldgæft að kúnninn hringi í Glanna Glæp og biðji hann kurteislega að koma og sparka í hausinn á sér.