Ég er nú svo aldeilis …

Bíddu nú við!

Hvaða alnæmis máli skipta skoðanir Davíðs Oddssonar? Er hann ekki hættur í pólitík?

Hvað er Sjálfstæðisflokkurinn eiginlega að pæla? Og hvað eru Vinstri græn að pæla? Nær nokkur ógalinn maður lengur utan um þennan orkufarsa? Stendur íþróttaálfurinn kannski fyrir þessari hringavitleysu?

Ég sé allavega enga þörf fyrir Spaugstofuna á næstunni. Þeir eiga aldrei eftir að toppa þennan borgarstjórnar-orkumála-lyga-svika-og-spillingar-farsa.

Löggæsluenglar?

Lögreglan þarf að færa rök fyrir því hversvegna þessir vítisenglar sem voru boðnir í partý á Íslandi en meinað að mæta eru taldir „ógn við þjóðaröryggi og grundvallarreglu“. Eru þessir menn eftirlýstir? Hefur lögreglan rökstuddan grun um að þeir hafi í hyggju að stunda glæpastarfsemi hér á landi? Hvaðan kemur sú hugmynd að fólk sem kemur hingað á vegum samtaka til að taka þátt í skemmtun sé þar með að reyna að festa rætur hér?

Heyrst hefur margt ljótt um vítisengla. Ég efast ekkert um að meðlimir úr þessum samtökum hafa ofbeldisverk og önnur afbrot á samviskunni. Ég efast þó einnig um að nokkurntíma hafi verið gefin út opinber yfirlýsing um einbeittan brotavilja (án þess að ég vilji fullyrða það). Fram hefur komið að vítisenglar eru ekki á skrá yfir glæpasamtök og reglan „saklaus uns sekt er sönnuð“ á að sjálfsögðu að gilda um þessa menn sem aðra. Lögreglumenn eru ekki fulltrúar Gvuðs á jörðinni. Þeim ber að fara að lögum, hvort sem þeir hafa góða eða vonda tilfinningu fyrir fólki. Ég sé ekki betur en að þarna hafi verið framið mannréttindabrot.

Umhverfis- og félagshyggjublaaa

Auðvitað vil ég ekki sjá það að hafa lygalaupa og spillingarpunga í borgarstjórn. Mér er samt fyrirmunað að skilja hvað á að vera svona miklu betra við þennan nýja meirihluta? Hvað hefur þetta fólk gert síðustu 12 árin sem er svona æðislegt?

Sorrý Stína en þrátt fyrir þá sannfæringu mína að skömm og skítbuxaháttur sé með miklum blóma innan Sjálfstæðisflokksins get ég ómögulega litið fram hjá því að þeir hafa þó komið meiru til leiðar í umhverfismálum á 17 mánuðum en grænu flokkarnir gerðu á 12 árum. Mér er meinilla við að viðurkenna það en þannig er þetta nú bara.

Mikið óskaplega langar mig nú að gera byltingu.

Rugl í þrugli

Þegar spillingin keyrir um þverbak finnst mér valdarán réttlætanlegt. EN:

-Hvað var Dagur að pæla þegar hann studdi kaupréttarsamningana?
-Hvernig dettur Svandísi, þeirri skeleggu konu í hug, eftir allt sem á undan er gengið, að hlaupa upp í rúm með Bingó? Hvað segja þessar vöflur sem eru komnar á hana núna gagnvart samrunanum um heilindi hennar?
-Mun nokkur nokkuntíma að treysta Bingó framar?
-Hvernig dirfist Margrét Sverrisdóttir að setjast í stól forseta borgarstjórnar og hvað eru hin að pæla? Finnst einhverjum þetta viðeigandi?

Hvurslags eiginlega pólitík er rekin í Reykjavík og bara í þessu landi? Í alvöru talað, er ekki að verða kominn tími á alvöru byltingu?

Ó Yoko

Ég get ekki sagt að ljósastaur hræsninnar særi skattgreiðandann í mér neitt tilfinnanlega. Ég hef áreiðanlega einhverntíma pungað út nokkrum krónum fyrir eitthvað sem er a.m.k. jafn ómerkilegt og partý fyrir fólk sem er of fint fölende til að þola nærveru hernaðarandstæðinga og annars almúgafólks sem borgar fyrir herlegheitin. Það kætir öllu heldur í mér kuldabolann að vita af þessum ljósengilslim sem tákni um stefnu Íslendinga í friðarmálum.

Ég veit ekki alveg hvort mér finnst betur viðeigandi, aðkoma Orkuveitunnar, sem svo sannarlega hefur stutt hernað og mannréttindabrot dyggilega, eða tímasetningin en í dag lýkur einmitt fundi hernaðarbandalags sem við Íslendingar erum svo lukkuleg að tilheyra og þar með að bera ábyrgð á dauða, limlestingum, fátækt og sorg þúsunda manna, sem hafa ekki hugmynd um það hvað við erum friðelskandi og menningarleg.

Það eina sem ég hefði viljað hafa öðruvísi er efniviðurinn. Limur ljósengilsins hefði vitanlega átt að vera úr áli.

Mannúðlegt?

Ég verð að viðurkenna, þrátt fyrir dálæti mitt á Amnesty, að ég skil ekki tilganginn með svona yfirlýsingum.

Hefur einhver heyrt um mannúðlega aftökuaðferð? Er yfirhöfuð hægt að nefna mannúð og aftökur í senn?