Alhliða aðgerðir 1. des

Davíð Oddsson forfallaðist. Enn er mikilvægum upplýsingum haldið leyndum fyrir þjóðinni og ekkert hefur heyrst um það hvernig eigi að greiða upp þau lán sem nú er verið að taka án samþykkis þjóðarinnar. Þann 1. desember fögnum við sjálfstæði okkar sem þjóðar, sjálfstæði sem nú er í bráðri hættu.

Við sem metum sjálfstæði okkar mikils, nú rísum við upp og grípum til alhliða aðgerða þann. 1. desember.
-Við mætum ekki til vinnu.
-Við borgum ekki af lánum hjá ríki og bönkum.
-Við komum saman við Stjórnarráðið og krefjumst þess að þeir sem bera ábyrgð á ástandinu víki.
-Við förum þaðan í Seðlabankann og skorum á Davíð að segja af sér.
-Ef það dugar ekki til þá berum við hann út -öðrum til varnaðar.

Við höldum ekki sjálfstæði okkar með því að taka fleiri lán í von um að ‘þetta reddist’. Við þurfum raunhæfa áætlun.

mbl.is Davíð frestar komu sinni

Hvernig eigum við að borga lánin?

Nú á að bjarga hagkerfinu með því að taka lán en því er ósvarað hvernig við eigum að greiða aftur lán upp á hundruð milljarða. Við vitum að þeir sem mest skulda munu ekki borga, því fyrirtækin þeirra voru bara loftbólur, leikur að tölum, en eru í raun verðlaus.

Hvar á að skera niður? Getum við búist við endalausum ‘hagræðingum’ í heilbrigðisþjónustu, menntakerfinu og félagslegri þjónustu? Hvaða atvinnubótavinnu verður okkur boðið upp á þegar verðlag er orðið svo hátt að fyrirtæki fara unnvörpum á hausinn? Hvernig á að ná hærri vöxtum út úr fólki sem er búið að missa vinnuna og er þegar með hærri greiðslubyrði en það ræður við? Hvaða ríki er líklegast til að hernema okkur (allavega viðskiptalega) þegar kemur í ljós að við getum ekki borgað?

Af hverju komast ráðamenn upp með að hegða sér eins og hinn íslenski meðaljón gerir þegar hann verður blankur, að taka bara lán sem hann getur ekki endurgreitt og ímynda sér að það ‘reddist’? Erum við virkilega svo gegnsýrð af þessum hugsunarhætti að við umberum ríkisstjórninni hann gagnrýnislaust?

BÚS!

Við verðum að koma þessum manni úr pólitík. Það þarf ekki að fjalla um hvernig eigi að taka á málum, heldur þarf að taka á málum.

Þarf virkilega að fórna mannslífi til þess að þessi dómsmálaráðherrabjáni fari að leita sér að öðru starfi?

mbl.is Enn í hungurverkfalli

Kastljósið um lögreglustöðvaraðgerðina

Varðandi umfjöllun Kastjóssins um mótmælin við Hlemm er rétt að taka fram, af því að Stefán talar um að maður hafi komið út með gjallarhorn, að það gerðist nú reyndar ekki fyrr en eftir að piparsturtuna. Ég var þá farin upp á slysadeild svo ég sá það ekki sjálf. Aðvörun kom allavega ekki.

Stækkun yrði lóð á vogarskálina

Á tímum hríðlækkandi heimsmarkaðsverðs á áli, er auðvitað tilvalið að skuldsetja þjóðina enn meir en orðið er og fórna þeim náttúruauðlindum sem við eigum eftir.

Sennilega þurfum við ekki byltingu. Öfgakapítalisminn mun sjá um að rústa sér sjálfur. Spurningin er bara hversu margir fátæklingar þurfa að svelta, á Indlandi, á Jamaica, í Mexíkó, og að lokum á Íslandi, áður en þeir ósiðlega ríku verða nógu fátækir til að sjá glóruleysið í stóriðjustefnunni,

mbl.is Bitist um stækkun í Helguvík

Hörður ber enga ábyrgð á óeirðunum

Fanganum sleppt

Ég sé að nokkrir bloggarar halda því fram að Hörður Torfason beri ábyrgð á því sem gerðist við lögreglustöðina á Hverfisgötu í gær. Það er auðvitað fráleitt. Hörður Torfason hefur sterka réttlætiskennd og honum ofbýður, eins og svo mörgum öðrum, þegar einn af virkustu aktivistum landsins er fyrirvaralaust handtekinn og settur inn til afplánunuar refsingar, daginn fyrir stóran mótmælafund. Það var ekki snjallt hjá lögreglunni að standa þannig að málum og velkist enginn heilvita maður í vafa um að tilgangurinn var sá að halda honum frá mótmælunum og senda öðrum mótmælendum skilaboð um að halda sig á mottunni.

Neinei, Hörður ber ekki ábyrgð á mótmælunum við Hlemm. Hörður er þekktur fyrir að boða friðsamlegar aðgerðir og hann hvatti sannarlega engan til að brjóta sér leið inn á lögreglustöð. Hann hvatti fólk til að hrópa ‘látið hann lausan’ en það var eina aðkoma Harðar að þessum fundi.

Valdníðsla í verki

Það er hrein og klár valdníðsla hvernig að þessu er staðið og greinilegt að tilgangurinn er sá að kippa honum úr umferð fyrir mótmælin í dag.

Hópur fólks ætlar að ganga að lögreglustöðinni á Hverfisgötu strax eftir mótmælafundinn á Austurvelli í dag og lýsa óánægju sinni með þessi vinnubrögð. Ég hvet alla til að mæta, bæði á Austurvöll og að Hlemmi á eftir.

mbl.is Bónusfánamaður handtekinn