Lítil saga af búrapa

images1Lítil saga af búrapa.

Ég sendi opinberri stofnun fyrirspurn um hversu langan tíma ég hefði til að leggja fram formlegt erindi. Viika leið en ég fékk ekkert svar. Ég ítrekaði fyrirspurnina og fékk þær upplýsingar að hún hefði verið „send í vinnslu til lögfræðings.“

Ég spurði hvort væri rétt skilið að starfsmaðurinn vissi ekki hvaða reglur giltu hjá embættinu eða hvar hægt væri að nálgast þær. Fékk þá strax fullnægjandi svar ásamt afsökunarbeiðni (nefni þessvegna ekki stofnunina.)

Stundum dettur mér í hug að almennir starfsmenn séu notaðir til að sía frá þá sem hafa ekki tíma til að krefjast svara.

Fram úr væntingum

Ég á til að ganga út frá því að góð þjónusta sé sjálfsögð. Og finnst þá mjög gremjulegt ef hún stendur ekki undir væntingum. En stundum fær maður líka betri þjónustu en maður reiknaði með.

Ég bjóst ekki sérstaklega við því að fá framúrskarandi þjónustu hjá Fríhöfninni í Leifsstöð. Við keyptum þar vörur á leið til Skotlands um síðustu mánaðamót en skildum þær eftir á afgreiðsluborðinu.  Þegar ég áttaði mig á því hafði ég samband við Fríhöfnina í mjög veikri von um að afgreiðslumaðurinn hefði tekið þær frá og geymt þær.  Mér varð að ósk minni og vörurnar voru endurgreiddar um leið og ég var búin að senda mynd af kvittun og kortanótu.

Þakka hér með afgreiðslumanninum sem tók vörurnar frá og konunni sem ég talaði við fyrir sérstök liðlegheit.