Janúar 2011
Það þarf mikið til að lögregluþjónn sé látinn víkja. Ætli það dugi að reyna að beita persónulegum tengslum sínum innan löggunnar til kærastan komist upp með að aka full? Eða þarf maður að ganga svo langt að afturkalla aðstoð neyðarlínunnar þegar kærastan hefur valdið slysi? Þetta reyndist vera einn og sami maðurinn. Hann fékk „tiltal“.
Mér þætti eðlilegt að þessi maður yrði umsvifalaust sendur í frí en það gerðist ekki heldur þurftu foreldrar barnsins þurftu að kæra hann. Ég hef ekki fundið fréttir af því að hann hafi verið látinn víkja á meðan málið var í rannsókn. Ef einhver lesenda veit meira um málið þigg ég tengil. Eiga foreldrar virkilega að þurfa að kæra lögregluþjón til þess að svona mál sé litið alvarlegum augum og hvernig fór þetta mál eiginlega?
Einnig fjölluðu fjölmiðar um gamalt mál, þar sem lögreglan fór offari gagnvart flogaveikum manni. Þetta er eitt þessara sjaldgæfu mála sem eru nógu gróf til þess að kæra á hendur lögreglu sé tekin til greina. Staðfest var með dómi að þjónar laganna voru ekki starfi sínu vaxnir. Maðurinn fékk bætur, en ekki hef ég séð neinar fréttir þess efnis að afglaparnir sem píndu hann eigi að sæta nokkurri ábyrgð, það er almenningur sem borgar en ekki glæponinn.
Fyrsta mánuði ársins lauk svo með því að Hæstiréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir burðardýri. Lögreglan gaf þær skýringar á tiltækinu að hún hefði ekki viljað hneyksla almenning. Ekki hefur komið fram hvaða lagagrein lögruglan hafði í huga eða hvort viðkomandi afglapar fengu voru sendir á endurmenntunarnámskeið. Vel má vera að oft sé ástæða til að hneppa burðardýr í gæsluvarðhald en þessi rök eru lýsandi fyrir það viðhorf sem virðist ríkjandi innan lögreglunnar, að löggunni sé heimilt að taka geðþóttaákvarðanir um frelsisviptingu fólks.
Febrúar 2011
Í febrúar bárust fréttir af því að maður hefði setið saklaus í gæsluvarðhaldi í fjórar vikur.
Fjögurra vikna gæsluvarðhald þótt engin sönnunargögn lægju fyrir. Maður veltir því fyrir sér hvort lögreglan viti ekki hvað rökstuddur grunur merkir? Eða finnst þeim bara allt ílagi að slá af kröfum um sannanir þegar útlendingar eða aðrir sem hafa ekki gott tengslanet eiga í hlut?
Maðurinn dreif sig skiljanlega úr landi um leið og hann losnaði. Ætli séu nokkrar líkur á að hann hafi gert tilraun til að kæra þessa meðferð?
Nokkrum dögum síðar var íslenska ríkið dæmt til að greiða hundrað þúsund króna miskabætur vegna ólögmætrar húsleitar. Skattgreiðendum var refsað. Ekki afglöpunum sem óðu inn án þess að hafa dómsúrskurð. Ekki fylgir sögunni hvort búið er að kenna þeim lögreglumönnum sem stóðu að þessu uppátæki að heimildarlaus húsleit er ekkert annað en innbrot, þ.e.a.s. afbrot sem almenn hegningarlög ná yfir.
Lögreglumenn eru eins og flestir þeirra sem fara með völd og áhrif í viðkvæmri stöðu að því leyti að starfið setur því takmörk hverskonar hegðun þeir geta leyft sér utan vinnutíma. Stundum verður þó ekki betur séð en að sumir þeirra eigi svo erfitt með að slíta sig frá hlutverkinu að þeir taka jafnvel valdníðsluhlutann með sér á djammið.
Mars 2011
En það er ekki aðeins lögreglan sem þekkir ekki takmörk sín. Í mars birtist þessi grein um afglöp héraðsdómara á vefritinu Róstum. Ég hef ekki séð frétt þess efnis að Arngrímur hafi á nokkurn hátt þurft að taka ábyrgð á þessu lögbroti. Hygg ég þó að flestir telji að heppilegt væri að dómarar fylgdu sjálfir þeim lögum sem þeir dæma eftir.
Og enn af dómstólum. Fyrsta ársfjórðungi lauk með því að maður var sýknaður af hrottalegri líkamsárás af því að þolandinn treysti sér ekki til að bera vitni. Nú gildir sú regla að maður skal teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð svo e.t.v. var dómnum ekki stætt á því að sakfella hann en fjandakornið, hversvegna er vitnum ekki veitt almennileg vernd? Hversvegna kemst lögreglan upp með þau vinnubrögð sem Hæstiréttur gagnrýnir og hversvegna eru dómar felldir í málum sem ekki hafa verið rannsökuð almennilega? Hvar í fjandanum er eftirlitið með þessum afglapastofnunum?
Þetta síðasta mál marsmánaðar leiðir reyndar hugann að undarlegu máli sem kom upp nokkrum vikum áður þegar minnstu munaði að saklaus maður yrði dæmdur fyrir líkamsárás. Það er hvorki lögreglu né dómstólum að þakka að saklausum manni var ekki refsað, heldur bófanum sem framdi glæpinn! Það er því miður ekki hægt að ganga út frá því að allir afbrotamenn sýni annan eins drengskap og má það undrum sæta þegar afglöp þessara stofnana ganga jafnvel svo illilega fram af glæpamönnum að þeir sjá sig sjálfir knúna til að leiðrétta það.