Af slæmum hugmyndum

Eiginlega þyrfti ég að vinna fram eftir og krakkarnir á ferðalagi svo ég á ekkert erindi heim. Bráðvantar félagsskap og það vill svo til að ég á kunningja í hverfinu …

Birta: já, þú átt við þennan sem hundsaði þig nánast vikum saman, rétt rak inn nefið til að tilkynna þér að hann væri á kerlingarblús.
Eva: Hann kom reyndar aftur til að tilkynna mér að hann væri hættur á kerlingarblús og biðja mig að eyða með sér helginni. Það er einhver heiðarleikakeimur af því.
Birta: Grey stelpan, ertu enn að setja samasemmerki milli dreifbýlismennsku og heiðarleika. Hvað gerðist svo, manstu það?
Eva: Ég var reyndar búin að plana helgina en sagði honum að ég skyldi láta hann vita ef ég yrði búin snemma á menningarnótt, sem ég og gerði. Hann var þá eitthvað að ljóða-eitthvað úti í bæ, það er það sem fólk gerir á menningarnótt.
Birta: Og?
Eva: Og svo hringdi hann í mig um kl hálf fjögur um nóttina, fullur, og vildi koma í heimsókn.
Birta: Og daginn eftir kom hann með blóm og baðst auðmjúklega afsökunar á dónaskapnum?
Eva: Hann er karlmaður Birta. Alinn upp á seinnihluta 20. aldar og Íslendingur í þokkabót.
Birta: Ég ætla bara að benda á eina staðreynd. Gaurinn hefur ekki virt þig viðlits síðan.
Eva: Við skulum nú ekki fara að gera einhverjar 19. aldar kröfur. Kannski var hann spældur yfir því að ég nennti ekki að rífa mig upp til láta riðlast á mér.
Birta: Æ,æ, slæmt að þú skyldir ekki nenna því. Þú gætir þá verið búin að eyða heilli viku í dramakasti. En það er svosem ekkert of seint.
Eva: Æ góða sjutðefokköpp, ég hef oft borðað hamborgara með karlmanni án þess að leggjast í dramakast yfir því.
Birta: Hamborgari er slæm hugmynd, ef þú vilt mitt álit. Gætir alveg eins beðið hann að flengríða þér.

-Hæ, þetta er Eva, ertu búinn að borða?
-Ha, neeei.
-Ég er að vinna fram eftir, viltu rölta með mér út á Tomma?
-Það gengur ekki. Þú hleyptir mér ekki upp á þig akkúrat á því augnabliki sem það hentaði mér svo ég skveraði mér upp á næstu tiltæku kvenpersónu og var víst búinn að lofast til að skvetta í hana einhvern tíma á eftir, svo nei, ég held ekki að hamborgari eða samloka af neinu tagi væri góð hugmynd í augnablikinu.

Nei, nei, auðvitað orðaði hann þetta ekki svona. Það sem hann sagði raunverulega var á þessa leið:
-Ég ehh… get það ekki. Ég …. uhhh… eignaðist vinkonu á menningarnótt og hún er að koma til mín.

Birta: Jæja gæskurinn. Hvort ætli þessi vinátta hafi þróast áður en hann hringdi í okkur eða eftir það?
Eva: Uhh! Ég átti svosem ekki von á að hann tæki þessu daðri okkar eitthvað sérstaklega persónulega frekar en ég sjálf. Fólk hefur rétt til að ríða. Engin ástæða til að dramakastast yfir því.
Birta: Jájá en þú ert samt pínu svekkt yfir því að skipta greinilega engan mann neinu máli nokkurntíma.
Eva: Og þú ætlar auðvitað að gera eitthvað í því eins og vanalega?
Birta: Gæti byrjað á því að setja andlátstilkynningu í vefbókina: Elskuleg dramarúnkvinkona okkar Eva Hauksdóttir er skriðin inn í skáldsögu eina ferðina enn. Blóm og kossar afþakkaðir og þeim sem vildu ríða henni er bent á að hoppa upp í rassgatið á sér.
Eva: Heldurðu að lesendur séu ekki að verða dálítið þreyttir á þeirri klisju?
Birta: Hvað viltu að ég skrifi? Ástarsögu kannski? Vel rakaðan rómantíker með ást og virðingu eða eitthvað svoleiðis?
Eva: Nei, drottinn minn dýri, við skulum nú ekki fara út í einhverja svoleiðs þvælu. Eitthvað pínulítið trúverðugra takk fyrir.
Birta: Við getum hringt í Taðskegglinginn!
Eva: Þennan sem er yngri en tengdadóttir mín?
Birta: Jamm! Varstu ekki bara að hugsa um skyndibita hvort sem er?
Eva: Ég held að hann sé vegan, drengurinn.
Birta: Bjóddu honum þá bara eitthvert baunagums, er það ekki það sem það étur?
Eva: Stundum veit ég ekki alveg hvor okkar fær verri hugmyndir.

 

One thought on “Af slæmum hugmyndum

  1. ————————————-

    Það er hægt að fá veganborgara á Tomma… 😉

    Posted by: Unnur María | 28.08.2007 | 10:31:57

Lokað er á athugasemdir.