Að stjórna stelpum

Það var klámvæðing Legókubbanna sem gekk fram af mér. Mér hefur ekki runnið svona rækilega í skap í margar vikur og enn á ég nokkuð ósagt.

Allt hefur sína stund og sinn stað. Og öskudagur er hreinlega ekki dagur sem rúmar pólitíska rétthugsun. Nema gagnvart einu sviði mannlífsins, því sem varðar kyn og klám.

Viljum við að börnin okkar tileinki sér siðferði og líferni sjóræningja eða byssubófa? Viljum við að þau samsami sig persónuleika Svamps Sveinssonar?  Viljum við ala upp í þeim staðalímyndir svertingja, araba eða indíána? Viljum við að þau hegði sér eins og hundar eða að sjálfsmynd þeirra verði fyrir skaða af því að þau standi ekki undir ofurmennisímyndinni?

Nei, ég reikna ekki með að fólk vilji það en for fokking kræing át lád, þetta er einn dagur á ári og það dettur engum heilvita manni í hug að taka hann alvarlega. Hlutverkið sem barnið leikur er einmitt það – leikur. Öskudagur er karnival, ekki kennslustund í pólitískri rétthugsun. Ef lítill strákur má leika ræningja, hversvegna má lítil stelpa þá ekki leika skvísu?

Jú, vegna þess að skvísubúningar eru „klámvæðing“. Það er ekki lengur neinn munur á skvísum og hórum. Og kynþokki er svo rosalega hættulegur að þótt drengurinn geti leikið þungvopnað illmenni án þess að skaðast af því, eru allar líkur á að telpan gerist sérleg handbendi klámvæðingarinnar, ef hún klæðist stuttu pilsi og háhælaskóm einn dag á ári. Stúlkur þarf að vernda frá heimi fullorðinna. Ekki drengi. Það eru bara stúlkur sem kunna ekki fótum sínum forráð og eru ófærar um gagnrýna hugsun.

Grímubúningarnir sem hafa verið í umræðunni undanfarið eru nákvæmlega ekkert klámfengnir og mér finnst hreintrúarstefnan orðin fremur ógeðfelld þegar fólk virðist leggja sig fram um að sjá klám allsstaðar, jafnvel í klæðnaði og leikföngum barna. En þar fyrir utan þá endurspeglar þessi hysteríska umræða annarsvegar djúprætta tilhneigingu til að stjórna stúlkum og hinsvegar taumlausa fyrirlitningu á þeim konum sem nota kynþokka sinn sér til framdráttar, þeim konur sem kallaðar eru druslur og dræsur og þeim sem hafa atvinnu af klámi og kynlífsþjónustu. Af einhverjum ástæðum virðist þessi eina stétt kvenna, eiga að sætta sig við að sæta eilífri fordæmingu.

Ég sé klám ekki sem vandamál þar sem það á heima. Óþarfi að veifa því framan í börn, rétt eins og það er óviðeigandi að vera á fylliríi í barnaafmæli. Ég sé vændi heldur ekki sem vandamál. Oft eðlileg viðbrögð við vandamálum, oft frjálst val, ekki vandamál. Samt sem áður ekkert fyrir börn. Ekki frekar en svo margt annað sem tilheyrir veröld hinna fullorðnu og er umborið þennan eina dag á ári. Ef stelpu dytti í hug að leika klámstjörnu á öskudaginn, þætti mér það svona röklega séð ekkert óhugnanlegra en að leika mafíósa eða ninju. Það kæmi samt verulega illa við mig – tilfinningalega, vegna þess að hóran er tabú og við erum ekkert ósnortin af tabúum.

Því svo fordæmd skepna er hóran að þótt börn fái fúslega að leika vampýrur, djöfla, róna og morðingja, er hórunni úthýst, ekki aðeins úr mannlegu samfélagi heldur úr samfélagi leikinna skrímsla. Þessi umræða segir kannski meira um hóruhatur samfélagsins en klámvæðinguna.

Nei, ég mæli ekki með því að börn séu klædd í hórubúninga. Tepran í mér afber bara ekki þá tilhugsun, ég ræð við smástrák með hríðskotabyssu, ekki stelpu í korseletti. Ég mæli hinsvegar með því að fólk stilli sig um að búa til klámtengingar þar sem það er fullkominn óþarfi.

mjallhvit    Rauðhetta2    Lína-Langsokkur

 

Til eru erótískar grímubúningaútgáfur af öllum vinsælum ævintýrapersónum. Ef við ætlum að láta klámvæðingargrýluna stjórna okkur, þá liggur beinast við að leggja öskudaginn niður. Annar valkostur er að sleppa tökum á óttanum um að allt sem stúlkur hafa ánægju af sé á einhvern hátt sjúkt og rangt, ýmist yfirborðskennt eða klámfengið.

Það er ekkert nýtt að foreldra og stelpur greini á um það hvað getur talist viðeigandi klæðaburður. Ég var 11 ára þegar móðir mín kvartaði um að ég vildi helst líta út eins og gleðikona. Ég hafði aldrei séð gleðikonur en ég hafði séð skvísur. Flottar unglingsstelpur með græna augnskugga og sanserað naglalakk. Systir mín hafði allt annan smekk, hún vildi ganga með hundaól og í netabol. Móður okkar fannst hún líta út eins og „götustelpa eða hryllingsmyndarfígúra“ en systir mín hafði áreiðanlega ekki séð margar hryllingsmyndir, ef nokkra, hún var bara að reyna að vera pönkari.

Þegar litlar stelpur biðja um skvísuföt eru fyrirmyndir þeirra ekki klámmyndaleikkonur, heldur stóru stelpunar sem sumum foreldrum finnst klæða sig allt of djarflega. Litlar stelpur langar stundum að líta út fyrir að vera miklu eldri en þær eru. Kannski ættum við bara að reyna að lifa með því og láta af þessari endalausu stjórnsemi, allavega þennan eina dag á ári.

3 thoughts on “Að stjórna stelpum

  1. Þú hefur komið sjónarmiðum þínum vel á framfæri. Ég er samt sem áður ekki 100% sammála. Ef þú t.d. lest fréttina á DV frá því í fyrradag var ekki minnst á orðið “klámvæðingu”, heldur segir talskona Feministafélagsins að öskudagsbúningar verði “sífellt kynjaðri og kynferðislegri með hverju árinu.”
    Þú hefur sjálf tekið undir að ‘Lolita’ búningur (eða amk nafnið á honum) væri á gráu svæði. En þú vilt ekki taka undir að neitt sé athugavert við búninginn “Major Flirt”. Allt í lagi, en búningurinn sá er ekki byggður á fyrirmynd hermannabúnings, heldur einhverri allt annari fyrirmynd, enda líta engir hermenn út eins og “Major Flirt”.
    (Til að hafa það á hreinu, ég myndi aldrei klæða barn, hvorki stelpu né strák, í hermannabúning.)

    Þú segir að þessi “hysteríska umræða” endurspegli “djúprætta tilhneigingu til að stjórna stúlkum”. JÚ, mikið rétt, þar er ég algjörlega sammála. En ég er algjörlega ósammála þér að það séu hysterískir feministar sem séu að stjórna stúlkum, heldur einmitt hið ógagnrýna hormónadrifna neyslusamfélag sem ýtir glamúr-gellu-búningum að 5-9 ára stelpum. Stelpum – og strákum – er stjórnað með sterkum og áberandi staðalímyndum, því það selur. 5-7 ára læra stelpur að þeirra framtíðarhlutverk er að verða kynþokkafullar KONUR.

    Og þú heldur að þetta sé það sem 7 ára stelpur vilja sjálfar??

    Á öskudegi í Afganistan eru stelpurnar í sjóræningjabúrku, lögreglubúrku, nornabúrku og álfabúrku.

    Á Íslandi er stelpum boðið uppá sjóræningja-glamúrgellubúning, lögreglu-glamúrgellubúning, norna-glamúrgellubúning, og álfa-glamúrgellubúning.

    Hver er að stjórna hverjum?

  2. Svo virðist sem viss hluti þýðisins sé eitthvað að misskilja daginn. Öskudagur, ekki öskurdagur, gott fólk!

  3. Þessir búningar hafa verið víðar til umræðu en hjá DV. Klámvæðingar- og mellutalið má t.d. sjá á kommentakerfum netmiðlanna og á mörgum þráðum á fb. https://www.facebook.com/pages/Part%C3%BDb%C3%BA%C3%B0in/144375795609437

    Það sem 7 ára stelpur vilja er nú, eins og á öllum tímum, að líkjast eldri stúlkum. Ef 13 ára stelpur gengju jafnan í víðum smekkbuxum og rúllukragabolum, myndi sú tíska sjást í öskudagsbúningum barna, Umræðan um siðleysið í búningunum er í ágætum samhljómi við heimsósómaraus fyrri kynslóða yfir klæðaburði æskunnar. Munurinn er bara sá að vandlætingin í umræðunni núna er meiri.

    Afganir halda ekki öskudag eða aðra grímubúningadaga og afgönsk börn klæðast ekki búrkum. Hvað þá nornabúrku.

Lokað er á athugasemdir.