-Áttu tarotspil?
-Jájá, margar gerðir. Þessi er t.d. vinsæl.
-Ég átti þessi spil en það kom allt fram sem þau sögðu svo ég varð hrædd og losaði mig við þau.
Ég hef upplifað þessa senu og aðrar svipaðar ótal sinnum og verð alltaf jafn vandræðaleg. Hvernig dettur fólki í hug að fikta við spásagnir ef það þolir ekki að heyra sannleikann? Og hvernig á maður eiginlega að svara þessu? Á ég að segja taktu þá frekar þessi spil, það er ekkert að marka þau? Myndi maður ekki bara hræða þetta fólk ef maður segði því að framsýnin byggi í hausnum á því en ekki í spilunum?
Ég segi sem fæst en sýni viðskiptavininum fleiri gerðir af spilum. Fólk sem lítur á spásagnir sem „dóma“ ætti að halda sig frá öllu slíku. Mig dauðlangar að hafa vit fyrir kúnnanum en þetta er verslun, hann kom inn sjálfviljugur, hann bað um að fá að sjá spil, hann á rétt á þjónustu. Auk þess hentar það stefnu fyrirtækisins að fá fleiri krónur í kassann svo ég ætti að vera glöð. Mér finnst samt alltaf eins og ég sé að gera eitthvað rangt þegar ég sel fólki eitthvað sem það, að mínu mati, hefur ekkert með að gera. Sennilega þætti mér alveg jafn óþægilegt að vinna í fatabúð og selja einhverjum flík sem fer honum illa eða á veitingastað og færa of feitu fólki franskar og kokteilsósu. Afskiptasamt fólk ætti ekki að vinna við afgreiðslu.
Eins og þeir sem þekkja mig best hafa líklega þegar giskað á er Alexander í fríi.