Mér gramdist þegar hugmyndir um sjónvarpsþátt fyrir konur sem hafa áhuga á einhverju öðru en tísku og karlmönnum fengu engar undirtektir. Ekki af því að sé ekki allt í lagi með þátt um þessa hluti sem almennt er viðurkennt að höfði til kvenna, heldur finnst mér bara svo sjúkt og rangt að svo fáari konur taki þátt í því að móta samfélag sitt og ég held að það þurfi kannski aðeins öðruvísi efni til að höfða til okkar en karlmanna. Þessvegna vildi ég sjá svoleiðis þátt. Þátt sem vekur áhuga minn á t.d. efnahagsmálum, skipulagsmálum og öðrum hlutum sem koma mér við en ég eyði litlum tíma í að setja mig inní og enn minni tíma í að tala um.
Mér finnst ekkert að því að hafa áhuga á útliti, karlmönnum o.s.frv. en ég viðurkenni að ég hafði ákveðna fordóma gagnvart þessum þætti sem Tobba og Ellý ætluðu að sjá um en varð svo á endanum bara Tobbu þáttur. Var nokkuð viss um að ég myndi allavega ekki fá mikið út úr honum. Ég var þó farin að velta því fyrir mér hvort ég hefði hrapað að ályktunum og ákvað þessvegna að gefa honum séns þegar ég kom heim til Stefáns, líklega í fyrradag og sá Tobbu á skjánum.
Þegar ég kom inn var Tobba einmitt að tala um að fólk í ræktinni yrði að klæða sig þannig að ekki sæist í hvernig nærbuxum það væri. Stuttu síðar voru áhorfendur upplýstir um að það sem þeir birta á facebook sé alheiminum sýnilegt og því sé góð hugmynd að hugsa áður en maður notar opnar netsíður sem vettvang fyrir viðkvæmar upplýsingar. Ég slökkti.
Kæru sjónvarpkarlar, Satan, Jesús og englarnir allir; ég er kona, það merkir ekki endilega að ég sé illa hugsandi. Segið mér eitthvað sem ég veit ekki. Sýnið mér eitthvað sem örvar mig, vekur spurningar, fær mig til að horfa á hlutina frá öðru sjónarmiði, hvetur mig til að lesa meira, skrifa meira, standa upp og gera eitthvað.
Konur standa sig ekki vel í samfélagsþáttöku en kannski er það ekki bara vegna þess hvað við erum gallaðar. Kannski hugsum við á aðeins annan hátt en karlar. Kannski þurfum við aðra nálgun en þið til að langa til að vera memm. Við segjum minna en þið, skrifum minna en þið, tökum síður ábyrgð, frumkvæði og áhættu, höfum minni áhrif og sækjumst síður eftir því og nei, það er ekki í lagi. Það er eitthvað að í heimi þar sem aðeins 13% greinahöfunda á Wikipedíu eru konur. Þar sem innan við 20% bloggpistla og blaðagreina um samfélagsmál eru eftir konur. Það er ekkert náttúrulögmál að konur sýni þetta áhugaleysi, það hlýtur að vera einhver önnur skýring á því. Ég veit ekki hver skýringin er en kannski er hægt að breyta þessu þótt við vitum ekki nákvæmlega hverju þetta sætir.
Ég vil sjá sjónvarpsþátt sem höfðar til kvenna sem eru búnar að afgreiða varalitinn, nærbuxurnar og facebook eða hafa kannski aldrei verið sérlega uppteknar af þessum hlutum. Kannski væri reynandi að fá konur sem hafa áhuga á efnahagsmálum, vegagerð, skipulagsmálum, fiskveiðistjórn og öðrum sviðum þar sem konur hafa lítið tjáð sig, til að matreiða fyrir okkur efni um þessa málaflokka. Kannski væri hægt að spyrja konur hvað þær vilji sjá ef ætlunin er að fjalla um efni sem nær út fyrir heimilið og vinnustaðinn. Já og facebook.
Og ef út í það er farið snýst þetta ekki bara um karla og konur. Hversu hátt hlutfall þeirra sem taka þátt í pólitík og pólitískri umræðu eru verkamenn? Iðnaðarmenn? Atvinnubílstjórnar? Ungir, gamlir, fatlaðir, fátækir? Væri hægt að framleiða efni sem höfðar meira til þessara hópa? Eða erum við kannski alveg sátt við það að þröngur hópur karla stjórni heiminum á meðan konurnar, börnin og meirihluti karlanna hanga á facebook?
————————————————–
Mér finnst eiginlega kjánalegt að stilla einhverju upp sem „karla“ eða „kvenna“ efni; þetta er bílaþáttur, þetta er tískuþáttur, þetta er dýralífsþáttur, en það er kannski bara af því að mér finnst hundleiðinleg nálgun að reyna alltaf að stilla öllu upp sem andstæðum pólum, þar með talið fólki.
Maður ímyndar sér að kynjaðar áhorfstölur séu það sem sjónvarpsfólk og jesúsar leggi til grundvallar þegar ákveðið er hvað sé „karla“ og „kvenna“ og þannig sé þetta orðinn hálfgerður vítahringur áhorfs -> kynjuð framleiðsla -> meira áhorf -> enn kynmiðaðri framleiðsa.
Það hefur verið prófað, og mér fyndist sniðugt að prófa meira af, að hrista upp í þessum kynjuðu þáttum með því að láta t.d. konu stjórna og kynna mótorsport þáttum og karlmann sjá um tísku og förðunarþætti. Mér fannst það amk sniðugt og hressandi að minnka pungsvitann í spjallhlutanum í síðasta HM í handboltanum.
En hey, ferð þú ekki bráðum að verða orðin nógu þekkt, umdeild og átspóken til að geta farið að pittsa sjálf þáttum á framleiðsufyrirtækin og sjónvarpsstöðvarnar? Seriously…
Posted by: Einar Þór | 30.10.2011 | 9:59:11
Ég held að það að vera þekktur og umdeildur sé ekkert skilyrði til að gera sjónvarpsþætti. Ég reikna ekki með að gera það sjálf þar sem ég hef engan áhuga á að búa á Íslandi.
Ég væri hinsvegar til í að fylgjast með sjónvarpsþætti um samfélagsmál þar sem gerðar yrðu tilraunir með efnistök sem höfða til meira en 10% þjóðarinnar.
Posted by: Eva | 30.10.2011 | 12:18:22
Nei, það er alls ekkert skilyrði en það hjálpar með áhorf, sem er víst það sem skiptir máli…
Posted by: Einar Þór | 30.10.2011 | 13:35:33
Tek undir þessar pælingar Eva og spyr einnig:
Er þetta fjandans náttúrulögmál?
Posted by: Gunnar Th. Gunnarsson | 2.11.2011 | 5:02:48
Ég verð að viðurkenna að ég er gersamlega að verða geðveikur á að hlusta á vælið í kvenfólki og horfa upp á allt það kvennadekur sem tröllríður samfélaginu. Ég veit ekki betur en konur séu um það bil helmingur mannkynsins og þeim ætti að vera í lófa lagið að láta til sín taka ef þær nenna því.
Mér minnist þess t.d. að hafa heyrt ungar konur vera að nöldra yfir því að flestar hljómsveitir séu skipaðar karlmönnum og að það sé erfitt fyrir konur að fá að spreyta sig á sviðinu. En, hvar eru hljómsveitirnar sem eru að mestu skipaðar konum og karlar eiga erfitt með að fá pláss í? Hverjum er þetta að kenna? Karlmönnum?
Ef konur hafa almennt svona mikinn áhuga á alvöru kvenna-sjónvarpsefni, af hverju er það þá ekki framleitt? Er það vegna þess að eitthvert karlasamsæri er í gangi sem hindrar konur í að láta til sín taka? Og svo má spyrja sig hvort þetta kvenna-sjónvarpsefni sé ekki bara nú þegar til staðar, bara framleitt af karlmönnum af því að þeir nenna því – og eru ekkert sérstaklega að eyrnamerkja það öðru kyninu.
Ég veit ekki svarið, en ég hef dálítinn grun um að konur geti bara kennt sjálfum sér um.
Posted by: Theodór Gunnarsson | 5.11.2011 | 10:09:55
Theódór, ég er ekki 100% viss um að þáttur um eitthvað sem ekki er talið einkamál kvenna, sem væri matreiddur sérstaklega fyrir konur, yrði vinsæll en mér finnst alveg sjálfsagt að gera slíka tilraun. Fyrir því er ekki áhugi hjá fjölmiðlum.
Það er töluverður munur á pólitískum áhuga karla og kvenna og konur sýna líka lítinn áhuga á því að hafa áhrif á fræði og vísindi. Ég er síður en svo að kenna körlum um það (eins og þeir sem fylgjast með skrifum mínum vita) en það breytir dæminu heldur ekkert að segja konum að hætta þessu væli. Ef við viljum breyta þessu (og það vil ég) þá þarf væntanlega að finna aðferðir til að vekja áhuga kvenna á einhverju mikilvægarara en nærbuxum og facebook. Eða finnst þér allt í lagi að konur taki sáralítinn þátt í að móta samfélagið?
Posted by: Eva | 5.11.2011 | 19:40:49
Eva, ég er síður en svo að skammast í þér. Ég hef einmitt fylgst dálítið með því sem þú skrifar og finnst það ferskur andvari úr kvennadeildinni.
Ég er kominn langleiðina í sextugt og er búinn að hafa þennan feminisma yfir mér yfir mér alla ævi, og hef séð samfélagið gerbyltast konum í hag – sem mér finnst aldeilis prýðilegt. En ofsinn og illskan út í karlmenn hefur ekkert minnkað, heldur aukist ef eitthvað er, og mér finnst alltaf verið að kenna okkur karlmönnum um allan andskotann, og oft get ég engan vegin séð fyrir mér að við eigum það skilið.
Auðvitað finnst mér að konur mættu gjarnan vera virkari og taka þátt í að móta samfélagið, eins og þú orðar það, en þær virðast einfaldlega ekki hafa áhuga á því, og það á líka bara að vera réttur þeirra, ef það er það sem þær vilja. Það er í gangi stöðug pressa á að troða konum hingað og þangað og eina leiðin virðist vera valdboð, þvingarnir og jákvæð mismunun. Það er merkilegur andskoti að þær skuli ekki bara geta rifið sig upp af eigin rammleik. Það á samt e.t.v. eftir að gerast í náinni framtíð, núna þegar 70% af öllum brottskráðum í hálskólum landsins eru konur.
Posted by: Theodór Gunnarsson | 5.11.2011 | 23:23:58
Fjöldinn rífur sig ekki upp af eigin rammleik nema áhuginn komi fyrst Theodór. Ef við viljum sjá meiri vídd í stjórnmálaþátttöku og vísindum, þá verðum við að reikna með því að fólk sé misjafnt og þar með þörf fyrir margar aðferðir til að nálgast hvert viðfangsefni.
Um daginn var fjallað um beint lýðræði í Kastljósinu og þar kom fram að fólk virðist síður áhugasamt um þátttöku þegar það sér ekki fram á að framlag þess hafi neitt að segja. Ég held að það geti skýrt þetta áhugaleysi kvenna að nokkru leyti. Líklega hafa margar konur meiri trú á því að þær geti haft áhrif á nærumhverfi sitt en landsmálin og frekar á „mjúku málin“ en t.d. efnahagsstjórn og fiskveiðistefnu. Það er áreiðanlega líka þörf á efni sem höfðar til þeirra karlar sem aldrei heyrist í, það er bara svo lítið talað um (og ennþá minna við) þá karla sem ekki eru ríkir og voldugir.
Posted by: Eva | 7.11.2011 | 18:51:38
Þetta er sjálfsat alveg rétt hjá þér, en á þá að taka fólk og þvinga það með valdi til að fá áhuga? Má fólk ekki bara vera áhugalaust í friði? Ég segi fyrir mig, að ég hef alltaf verið fremur áhugalaus um stjórnmál, hef aldrei nennt að leggja á minnið hvað þingmennirnir heita og úr hvaða kjördæmi þeir koma, nema bara þeir sem mest eru í fréttum og þess háttar. Ég held að það sé bara allt í lagi að ég sé þannig og tel þjóðfélagið ekki vera að missa af neinu, þó að ég sé ekki að djöflast í stjórnmálunum.
Svo fæ ég ekki séð að það sé skortur á efni sem höfðar til karla sem ekki heyrist í. Ég get t.d. ekki ímyndað mér hver hefur áhuga á að heyra hvað ég hef um hlutina að segja, en ég er einmitt bláfátækur nobody. Hver ætti að hafa áhuga á að heyra viðtal við mig um ekki neitt? Ég er ansi hræddur um að þáttur sem fjallaði um, og tæki viðtöl við, ofurvenjulegt fólk, sem ekki er að gera nokkuð sem merkilegt gæti talist, yrði fljótt tekinn af dagskrá vegna skorts á áhorfi.
Posted by: Theodór Gunnarsson | 8.11.2011 | 2:08:25
Hver var að tala um að þvinga fólk til að fá áhuga? Ég sé ekki fyrir mér að það sé einu sinni hægt.
Nei mér finnst ekki í lagi að fólk fái bara að vera áhugalaust í friði þegar um er að ræða mál sem varða velferð okkar allra. Mér finnst nauðsynlegt að þegar ákvarðanir eru teknar komi fram eins mörg sjónarmið og mögulegt er. Þessvegna þarf að finna leiðir til að vekja áhuga.
Það geta verið margar ástæður fyrir þínu áhugaleysi. Kannski hefðirðu meiri áhuga ef þú sæir möguleika á einhverju öðru stjórnarfyrirkomulagi eða meiri innsýn í ákveðna málaflokka (það er vel hægt að hafa áhuga á málefnum þótt manni sé sama hvaða rassar verma ráðherrastólana.)
Ég er bara algerlega ósammála því að „ofurvenjulegt“ fólk hafi ekki áhugaverðar skoðanir. Það sést t.d. á því að margir af mest lesnu bloggurum landsins hafa aldrei haft nein formleg völd en eru samt, áhuga síns vegna farnir að hafa töluverð áhrif á pólitíska umræðu í landinu.
Posted by: Eva | 8.11.2011 | 8:18:32