Fjórða ástæðan til að uppræta feminisma er sú að feministar líta á karla sem skúrka sem eru líklegir til að meiða konur og nauðga þeim. Þetta viðhorf nær jafnvel til smábarna. Þess sjást meira að segja merki á Íslandi.
Reyndar viðurkenna feministar ekki þessa afstöðu sína. Í orði kveðnu líta þær svo á að karlar séu frá náttúrunnar hendi jafn dásamlegir og konur. Skoðum t.d. aftur þessa færslu. Sjáið lið nr. 17:
Vegna þess að við þurfum að breyta ímynd feðraveldisins af karlmanninum sem árásargjörnu dýri sem getur ekki haft stjórn á hvötum sínum.
Vá hvað þetta hljómar vel. Það eru ekki feministar sem breiða út þessa hugmynd heldur „feðraveldið“. Og hvernig fara svo bjargvættir okkar að því að breyta þessu viðhorfi? Við getum byrjað á því að skoða umrædda færslu. Þarna eru taldar upp 33 ástæður fyrir nauðsyn feminismans, þar af 14 sem snúast beinlínis um það að konum sé nauðgað og ein sem varðar heimilisofbeldi. Restin snýst að mestu um klámvæðingu, kvenfyrirlitningu og það hvað konur séu í miklu veikari stöðu en karlar. Ég hef ekki gert úttekt á því hversu hátt hlutfall pistla á Knúzinu sýnir karla sem eitthvað annað en ofbeldismenn og kvenhatara en ég fullyrði að það hlutfall er ekki hátt.