Hrellir

Þegar ég færði persónulega bloggið mitt yfir á lokað svæði, fannst mér ég vera að takmarka tjáningarfrelsi mitt. Reyndin er hinsvegar sú að nú þegar svona fáir hafa aðgang að blogginu mínu og ég veit hverjir þeir eru, þá get ég í raun leyft mér að segja miklu meira en áður.

Fáviti nokkur hefur verið að stjákla mig á facebook. Virðist vera með mig á sálinni, stundum fyllir hann prófílinn sinn af einhverjum kommentum til mín og raðkommentar hjá mér en ekkert af því er áhugavert. Venjulega svara ég honum ekki en hann heldur samt áfram. Hann virðist halda að ekkert komi mér eins mikið til og að þræta á internetinu. Það rétta er náttúrulega að mér þykja menn sem koma vel fyrir sig orði, eru rökfastir og geta gefið mér nýtt sjónarhorn eða dýpkað skilning minn, aðlaðandi (og það sama á reyndar við um konur) en þessi bjáni kemur með gullkorn eins og „viltu koma að rökræða?“ Ég hef bent honum á að allt sem ég kæri mig um að rökræða sé á blogginu mínu og öllum sé velkomið að taka þátt í umræðum þar en hann nennir náttúrulega ekkert að lesa.

Þetta er orðið frekar þreytandi því hann er farinn að sitja um mig á umræðikerfi DV líka. Ég er margbúin að gefa honum fínlega til kynna að ég hafi ekki áhuga á honum og í gær gekk ég svo langt að ljúga því að ég ætti bólfélaga og það liti út fyrir að ætla að verða meira. Breytti m.a.s. hjúskaparstöðunni á fb í it’s complicated en hann færðist bara í aukana.

Af hverju hendi ég honum ekki bara út? Það væri nefnilega einfalt eða hvað? Málið er að mannhelvítið hefur ýjað að hlutum sem gera mig órólega. Hann virðist vita eitthvað um barnæsku mína, ómerkilega hluti að vísu en ýmislegt sem ég hef aldrei svo ég muni skrifað um og þetta er ekki maður sem hefur lesið bloggið mitt, það er greinilegt.

Þetta eru ekki hlutir sem skipta máli en hann veit hvar við bjuggum og að þegar ég var lítil var ég á tímabili með Jóhönnu af Örk og Hróa Hött á heilanum. Líka að á tímabili krafðist ég þess að vera kölluð Olga. Það fékk engar undirtektir neinsstaðar en þótti skrýtið og ég gafst upp á þessu á einni eða tveimur vikum, ég efast um að margir muni þetta í dag. Hann virðist líka hafa eitthvert veður af hinu erfiða sambandi við móður mína. Ég hef aldrei svarað neinu af þessu fremur en öðru en mér finnst þetta mjög óþægilegt.

Málið er að ég er dauðhrædd um að hann þekki mömmu og hafi þessar upplýsingar frá henni. Og móðir mín eins og hún er. Og ég held að ef ég hendi honum út af vinalistanum taki hann því þannig að hann hafi náð að hrella mig, sem vissulega er rétt en mér finnst óþarfi að hann viti það. Tilhugsunin um að hún móðir mín sé kannski að ná að raska sálarró minni í gegnum þriðja aðila er að fara með mig. Hún hringdi í mig um daginn og það fór á sama veg og venjulega. Endaði með því að ég lokaði á hana eina ferðina enn.

Ég hef alveg lent í bjánum á netinu áður og á venjulega ekki í neinum vandræðum með að afgreiða þá. Mér er sama um skítakomment og getgátur um einkalíf mitt og menn sem eru að leita að drætti. Venjulega er alveg nóg að hundsa svoleiðis pakk. En þessi finnst mér óþægilegur. Eiginlega bara mjög.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina