Útför

Sævar Ciesielski var jarðsettur í dag.

Prestsfáráðurinn á sæti í stjórnlaganefnd og notaði tækifærið til að reka áróður fyrir ágæti sinna eigin verka. Líkræðan var að verulegu leyti dásömun á stjórnarskrártillögunni og getgátur um hvað Sævar hefði orðið hrifinn. Ég held reyndar að Sævar hefði orðinn frekar hrifinn af því ef núgildandi stjórnarskrá hefði bara verið framfylgt. Lítil huggun í því að menn fái betri stjórnarskrá til að brjóta.

Sævar var ekki hvítflibbi og í kirkjunni var mikill fjöldi róna samankominn. Haukur sat við hliðina á einum hlandblautum sem kunni ekki að slökkva á símanum sínum. Einn var reiður og aðframkominn af sorg og hafði mikla þörf fyrir að tjá tilfiningar sínar. Hann var á endanum borinn út þótt hann hafi eflaust verið Sævari mun nákomnari en t.d. ég eða Össur Skarphéðinsson.

Hversvegna í ósköpunum er aðeins þetta eina útfararform við lýði? Hversvegna gerir enginn ráð fyrir því að allskonar fólk deyi og þar með greftunarsiðum sem mæta þörfum mismunandi hópa? Mér finnst beinlínis ómannúðlegt að ætla harmi slengnum róna að sitja þögull undir sjálfsbirgingsþvaðrinu í sér Erni Bárði og hvað ef ég hrekk uppaf, eiga þá synir mínir að þjást undir hefðbundinni útför?

Þegar ég dey, vil ég að mínir nánustu fái að kveðja mig á sinn eigin hátt. Segið ekki yfirvöldum frá því, gerið hlutina bara á ykkar hátt. Eyðið ekki of fjár í kistu, brennið hræið af mér í laki einhversstaðar úti í sveiti, dansið í kringum bálið ef ykkur langar, syngið þjóðsöngva ef ykkur langar eða spilið Passion Play á góðum styrk. Drekkið ykkur út úr ef ykkur sýnist svo eða hittist yfir huggulegum kaffibolla ef er meiri stemning fyrir því. Haldið ræður ef þið viljið, ég reikna ekki með að nokkur vilji prest en ef út í það er farið hef ég alltaf haft svolítið álit á Jesússi svo það myndi ekki angra mig heldur. Gerið það sem ykkur sýnist við öskuna. Ef þið viljið geyma hana, ekki þá eyða morðfjár í ílát sem einhver bissnisskall ákvað að héti „öskuker“, notið frekar sætan tebauk, tóma sultukrukku eða hvað sem hendi er næst.

Og fyrir alla muni, vísið ekki syrgjandi róna frá þótt hann tali hátt og mígi í buxurnar. Leyfið honum bara að æpa, þið, eruð hvort sem er úti í sveit. Og ef hann er óhóflega leiðinlegur óhóflega lengi, gefið honum þá óblandaðan byltingarmjöð og haldið áfram á ykkar hátt þegar hann lognast út af.

Eða ef þið fílið ekki þessa hugmynd, gerið þá eitthvað annað. Bara eitthvað sem þjónar þörfum þeirra sem mæta frekar en úreltu formi sem gerir ráð fyrir að þótt líf okkar sé ólíkt sé við hæfi að jarðsetja alla á sama hátt.

Best er að deila með því að afrita slóðina