Ranghugmyndir

Ég sé eftir Prófessornum. Hef ekki áður kynnst manni sem á jafn vel við mig. Ég held að stærstu mistök sem ég hef gert í lífinu hafi verið þau að bregðast svona neikvætt við þessu 5 ára plani hans. En ég réði ekki við það. Fór bara í baklás.

„Við gætum gefið þessu 5 ár og endurskoðað það svo“ sagði hann. Hann hafði áður talað um að hann yrði í Glasgow í 5 ár og þetta hljómaði eins og hann vantaði tímabundinn félagsskap í útlegðinni. Ég kólnaði.

En kannski var það ekki þannig. Líklega var það ekki þannig. Hann reyndi að útskýra hvað var að gerast innra með honum en ég gat ekki hlustað. Það eina sem komst að hjá mér var að hraðfrysta allar tilfinningar sem ég hafði verið að næra, til að forða mér frá því að brotna endanlega niður. Best gæti ég trúað því að ástæðan fyrir því að hann fann ekki svona sterkar tilfinningar til mín, hafi verið hans innra varnarkerfi. Ég var búin að hlaupa upp í fangið á öðrum manni einu sinni og hann hefur sennilega nógu mikið innsæi til að finna að það er beinlínis átak fyrir mig að treysta einhverjum fyrir sjálfri mér svo sennilega hefur hann reiknað með þeim möguleika að ég væri ekki staðföst í þeirri fyrirætlun að búa með honum og kannski ekki þorað að gefa sig allan.

En ég var viss. Og þessvegna þoldi ég það ekki. Ekki á þessu augnabliki. Ég vildi að ég gæti farið til baka. Hlustað á hann, kinkað kolli og sagt, já ég skil, tilfinningar eru flóknar, stefnum á fimm ár til að byrja með. En ég veit að þótt ég fengi annað tækifæri til að takast á við sama atvik yrði það ekki þannig. Á yfirborðinu kannski. Ég myndi kannski ekki snúa þessari klakaskel beint að honum. En ég hefði ekki þorað að elska hann. Ekki til fulls.

Ég vil ekki vera ein mikið lengur og ég veit hvað er að. Ég er haldin ranghugmynd varðandi karlmenn. Ég trúi því að þeir noti ástarjátningar og framtíðarplön til þess að kaupa sér drátt. Ég veit, svona rökrænt að það er ekki rétt. Alveg eins og ég veit að sölumennska er ekki ósiðleg í eðli sínu, að það er grundvallarmunur á því að bjóða fólki eitthvað sem það hefur líklega áhuga á og að kippa framfæslumöguleikunum undan öreigum í þróunarríkjum til að reisa álver. En tilfinningin um að ég sé að svíkja og blekkja blossar upp í hvert sinn sem ég reyni að selja eitthvað. Og á sama hátt verð ég yfirþyrmd af höfnunarkennd þegar karlmaður sem ég er að reyna að treysta, sýnir einhver merki þess að vera mannlegur.

Mig vantar ekki karlmann. Mig vantar vélmenni. Einhvern sem er hægt að prógrammera til að sannfæra mig um að hvað sem á gangi, muni hann samt aldrei yfirgefa mig. Kannski er ég bara ofboðslega skemmd. Komin á fimmtugsaldur og þá er maður víst fullorðinn en kannski vantar mig föðurímynd frekar en eiginmann.

Best er að deila með því að afrita slóðina