Inngróinn

-Skrýtið að hrífast af konu sem maður þekkir ekki nema í gegnum facebook og fjölmiðla en sannleikurinn er sá að ég hef gert mér erindi í búðina bara til að sjá þig og ég leita að þér á Austurvelli á laugardögum, sagði hann, og þótt hún sæi hann ekki í gegnum tölvuskjáinn og kæmi honum ekki fyrir sig, ímyndaði hún sér að hann væri lítil, úfin lopapeysa með döðluaugu og þykkar varir. Hún vissi að það gat ekki verið, því þá myndi hún eftir honum en hún ímyndaði sér það samt, því það var skemmtilegra þannig. Jafnvel þótt þykku varirnar og döðluaugun tilheyrðu allt annarri lopapeysu, sem hún vissi að hefði aldrei talað við hana í gegnum facebook, og jafnvel þótt sú hin sama lopapeysa væri af dramvarnarlegum ástæðum ekki inni í myndinni.

-Mig langar að tala við þig, heyra þig hlæja, horfa á þig elda, trufla þig þegar þú situr við tölvuna, hélt hann áfram en svo kom löng þögn og hún skildi að ef hún vildi meira í þessa veruna yrði hún að bregðast við.

-Hvernig myndirðu trufla mig? spurði hún og vissi að hún var að ýta samtalinu í átt sem gæti afhjúpað fávitahátt hans, þótt hún væri alls ekki tilbúin til að horfast í augu við að hafa vakið áhuga eins fávitans enn. En þar sem þessar játningar kitluðu hégómagirnd hennar og hún var langsvelt af ástúðlegu hjali, bað hún um meira, rétt eins og þegar maður sem lifir frekar leiðinlegu lífi, heldur áfram að drekka þótt hann viti að hann sé farinn að nálgast það að verða leiðinlegur.

-Þú værir í rauðum, ermalausum bol með flegnu baki og ég myndi koma aftan að þér og kyssa á þér hægri öxlina,
 sagði hann.
Hugmyndin var fráleit. Hún var kuldaskræfa. Gekk aldrei í ermalausum bol um hávetur, heldur sat við tölvuna vafin inní ljótt flísteppi og með grifflur vegna giktarverkja. Samt lokaði hún augunum til að máta koss á öxlina.

Og hún fann hann. Fann hann svo greinilega að andartak hlaut henni að hafa runnið í brjóst. En það var ekki koss frá úfinni lopapeysu með döðlur í augunum. Það var gamall koss, sem hafði verið þar lengi, setið á öxl hennar eins og páfagaukur og gargað upp í eyrað á henni í hvert sinn sem einhver nálgaðist hana nógu mikið til að fjarlægja hann.

Hún sótti sér þvottapoka og reyndi að nudda kossinn af öxlinni. Það tókst ekki. Hann var inngróinn og hafði myndað rauða bólu, sem dálítill gulleitur gröftur vilsaði úr við ertinguna.

Hún var að hugsa um að skrifa:
‘Nei þú myndir ekki gera það, því ég væri með bólu á öxlinni og það er ógeðslegt. Þú myndir bara ganga hreint til verks og ríða mér, er það ekki?’ En hún skrifaði það ekki. Hann hafði enn ekki gefið henni góða ástæðu til að afgreiða hann sem fávita og það var ekkert réttlæti að því að ausa úr brunni karlfyrirlitningar sinnar yfir mann sem hafði ekki gert sig sekan um stærri glæp en að langa til að vera hjá konu. Hún skrifaði samt heldur ekki neitt huggulegt heldur, sagðist bara þurfa að fara og þakkaði fyrir spjallið með broskalli, því svoleiðis á víst að bera vott um netrænan vingjarnleik.

Það var ekki það að hún hefði neitt á móti því að einhversstaðar úti í bæ væri karlmaður sem hefði hug á að tæta utan af henni fötin og flengríða henni. Það var bara það að hún þurfti eitthvað meira en það og þessi inngróni koss var alltaf að trufla hana. Auk þess var hún búin að opna honum leið til að opinbera hugsanlegan fávitahátt sinn og hún hafði bara ekki úthald í fleiri fávita í bili.

Best er að deila með því að afrita slóðina