Draumfarir

Ég er búin að ákveða að læra að drekka viský, sagði vinkona mín sem er svo léleg drykkjukona að þegar hún fékk einu sinni skemmt rauðvín, hélt hún að það væri bara hún sem hefði engan smekk. 

-Mér finnst viský svo vont að ég kúgast alltaf þegar ég reyni að drekka það og það er ekki kúl að kúgast. Ég ætla semsagt að drekka alltaf eitt glas af viský fyrir svefninn, þar til mér er hætt að finnast það svona ógeðslegt
-Af hverju drekkurðu ekki bara frekar eitthvað sem þér finnst ekki eins vont? Nú eða sleppir því bara?. sagði ég.
Áfengi er náttúrulega yfirleitt vont en það er bara eitthvað kúl við að drekka viský. Svona bíómyndarmóment; hvolfa í sig einum drykk, skella tómu glasinu á borðið og fara svo. Mér finnst reyndar Bailey´s góður, hristur með klaka en það er ekki kúl drykkur. Helvíti góður samt. Eiginlega svo góður að það gæti alveg orðið vandamál hjá mér ef ég nennti að standa í veseninu við að hrista hann.
-Veseninu?
-Já, þú veist; finna ís í frystinum og kraka hann upp ú r boxinu, ferlegt vesen. Setja molana í viskustykki og brjóta þá, meira vesen. Hrista… það er venjulega þar sem ég gefst upp. Ég bara get ekki staðið í svona veseni.
-Veistu dálítið, ég held að manneskja sem nennir ekki einu sinni að hrista sér Bailly´s sé ekkert efni í dagdrykkjukonu. Ég meina, hvers vegna ættirðu frekar að nenna að setja ís í viskýið?
-Það er annað þegar maður hefur mission. Viský er kúl.
-Ég skil svosem hvað þú meinar. Rjómalíkjör er fyrir kerlingar og dúllur. Alan Shore og Denny Crane drekka viský. Þeir eru kúl. Og ekkert vesen með ísinn.
-Já hugsaðu þér, bráðum verð ég jafn kúl og þeir.
-Ég held samt að þú verðir fyrst að fá þér klakavél, annars áttu aldrei eftir að sýna þann sjálfsaga sem þarf til að vera dagdrykkjukona.

Sumsé. Ef einhver þarf að losna við klakavél þá veit ég um kaupanda. Með missjón. Það gegnur uððitað ekki að láta smávægileg tæknileg vandamál standa í vegi fyrir því að maður nái markmiðum sínum.

Ég man sjaldan drauma en ég sofnaði út frá þessum pælingum í gærkvöld og í nótt dreymdi mig að ég væri stödd á bar með mínum heittelskaða. Hann var með kúrekahatt, en ég hef annars aldrei séð hann með slíkt höfuðfat. Hann var með viskýglas með engum ísmolum og tilkynnti mér formlega að hann ætlaði að gerast dagdrykkjumaður.

-Þú um það en þú mátt samt ekki berja mig, sagði ég.
-Þú segir mér ekkert hvað ég má og hvað ég má ekki, sagði hann.
Svo hvolfdi hann í sig viskýglasi, skellti því á borðið og gekk út.
Ég sat eftir og hugsaði með mér að það væri líklega ekki hægt að ná sömu áhrifum með klaka, því þá hefðu ímolarnir dottið niður um hálsmálið hans.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Draumfarir

  1. ———————————————– 
    ís? í viskíið? NEEEEIIIIII! Í hæsta lagi 2-3 vatnsdropa til að opna bragðið…

    Posted by: hildigunnur | 6.04.2008 | 9:17:36

    —   —   —

    Maður þarf sko ís í viský og aðra töffaradrykki á meðan maður er að læra. Fyrir 10 árum kældi ég rauðvínið, það var ögn skárra þannig og ég þekki m.a.s. eina sem setur klaka í bjórinn sinn. Kannski ekki siviliserað en einhversstaðar verður maður að byrja.

    Posted by: Eva | 6.04.2008 | 9:59:13

    —   —   —

    Úff… það er miklu betra að byrja bara á því að drekka almennilegt viskí. Beint í gott single malt og nokkrir vatnsdropar út í eftir smekk.

    Ég veit ekki hvort ég gæti drukkið blended rudda yfirleitt. Með eða án klaka.

    Svo ertu bara að gera hárrétt með að kæla rauðvínið. Flest rauðvín virka best í kringum 18° niður í 16° jafnvel. Það er vel undir íslenskum stofuhita.

    Posted by: Kalli | 6.04.2008 | 13:59:28

    —   —   —

    Ég kæli svo sannarlega líka rauðvínið mitt. Auðvitað drekkur maður það ekki ísskápskalt, en tek undir með Kalla, 18-19° er fínt fyrir langflest vín.

    En jú, það má náttúrlega venja sig við viskíið með því að hafa það kalt fyrst. Myndi jafnvel frekar nota svona kalda steina frekar en klaka, kemur bara vatnsbragð sem gerir viskíið ekki gott.

    besserwissi lokið 😀

    Posted by: hildigunnur | 6.04.2008 | 18:23:24

    —   —   —

    Ég fæ enn smá vanlíðunartilfinningu þegar ég hugsa til þess þegar ég tvítugur hvolpurinn drakk oftast viskí á fylleríum því mér fannst það kúl.

    Eftirminnilegt að kaupa einhvern blended rudda, eða jafnvel bourbon eða Tennessee viskí (shock, horror), á bar og sjá klaka skóflað í glasið úr klakastampinum sem oftast hefði frekar átt að heita kaldavatnsstampur því vatnið sem klakinn var að mestu orðinn var vissulega kalt.

    Merkilegast er að ég hafi getað farið að drekka viskí aftur og skiljanlegt að ég drekki bara single malt í dag. Og helst Islay, takk.

    Posted by: Kalli | 7.04.2008 | 1:43:55

    —   —   —

    Hvaða bölvaða vitleysa er þetta, viský með eða án klaka er karladrykkur. Viskýglas hjálpar að styrkja karlmannlega töffaraímynd og fer konum alveg hræðilega illa. Litríkir og bragðgóðir gleðikokteilar fara konum mun betur og það þarf ekki að stunda sérþjálfun til að geta drukkið þá með góðu móti.

    Posted by: Alexander | 9.04.2008 | 15:59:22

    —   —   —

    HUN MENGAR ANDSKOTANN MED KLAKA!!!

    Svona folki er fyrirmunad ad vera kul. Thu getur alveg haett ad reyna strax, Sigrun.

    Posted by: Haukur | 10.04.2008 | 10:25:48

    —   —   —

    Þetta var ekki Sigrún.

    Posted by: Eva | 10.04.2008 | 10:50:45

    —   —   —

    My mistake

    Posted by: Haukur | 11.04.2008 | 11:08:12

Lokað er á athugasemdir.