Skrýtið móðg

-Þú móðgaðir mig, sagði hún, þegar þú sagðir að það væri áhugamál mitt að fylgjast með America´s next Top Model og fletta tískublöðum.

-Nú, er það ekki einmitt rétt? sagði ég hvumsa og veit satt að segja ekki hvort ég var hvumsari yfir því að hún hefði móðgast eða yfir því að vafi gæti leikið á þessu áhugasviði hennar.
-Ég hef gaman af að fletta tískublöðum en það er ekki áhugamál, sagði hún og þar sem hún hefur nú samt sem áður býsna augljósan áhuga á tísku og tískuheiminum, áttaði mig á því að málið snerist ekki um það hvort hún hefði áhuga á tísku, heldur um það hvort tíska væri merkilegt eða ómerkilegt áhugamál.

Hvernig veit maður hvað vekur fólki áhuga? Ég hefði haldið að það sæist á því hvernig hver og einn ver tíma sínum og peningum, hverju viðkomandi tekur eftir í umhverfi sínu og í fari annarra og hvað hann talar um. Ég hebbði einnig haldið að þegar kona er áskrifandi að tískutímaritum, fylgist með sjónvarpsþáttum sem tengjast tísku, þekkir hönnuðinn þegar hún sér flíkina eða skartgripinn, þekkir nöfn helstu fyrirsæta og feril þeirra, finnst gífurlega skemmtilegt að fara í búðir til að skoða og enn skemmtilegra að versla, bloggar um tísku og man eftir því hvernig einhver leikkona var klædd á Óskarsverðlaunaafhendingunni, þá hljóti það að skýrast af því að hún hafi áhuga á tísku. Ég hebbði ennfremur haldið að sá sem hefur áhuga á tísku liti þá á tískuheiminn sem eitthvað frekar flott og merkilegt, heim fullan af peningum, frægð og ævintýrum.

Ég hef engan áhuga á tísku. Ekki heldur fótbolta, geimvísindum, málmsmíði eða skák. Ég efast þó um að margir þeirra sem hafa áhuga á geimvísindum taki það nærri sér að vera álitnir geimnördar. Keli, sem er einn af mínum allra kærustu vinum, finnst leikhús afspyrnu hallærislegt fyrirbæri en ég hef nú alltaf álitið það hans missi en ekki árás á mig.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina