Hversvegna vilja konur endilega eignast maka?

Spurt er:
Hversvegna vilja konur endilega eignast maka?

Mitt svar:
Karlmenn vilja líka eignast maka og það er einmitt það sem þeir gera. Eða ef það væri ekki svo, hvernig stendur þá á því að flestir karlar eru á föstu (það heitir að vera á föstu þegar vinir eru bólfélagar, hvort sem þið viljið viðurkenna það eða ekki) og þeir sem á annað borð eru tilfinningalega heilbrigðir í sambúð? Karlar eru almennt mjög snöggir í samband aftur eftir skilnað, af hverju skyldi það nú vera? Karlar vilja líka eiga maka. Eini munurinn er sá að margir karlar vilja helst eiga margar konur en flestar konur vilja bara einn mann.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að konur vilja halda sig við einn maka og leggja meiri áherslu á að stofna til og leggja rækt við ástarsambönd en karlar. Hér eru nokkrar:

1) Meiri þörf kvenna fyrir félagsskap
-Konur hafa almennt meiri áhuga á samskiptum. Karl getur verið fullkomlega sáttur við að spila tölvuleiki eða horfa á sjónvarp 70% af frítíma sínum en við viljum félagsskap.
-Þar sem konur leggja meira upp úr samskiptum almennt, leggja þær líka meiri vinnu í tilfinningasambönd en karlar og bera kannski þessvegna meiri virðingu fyrir þeim og eru síður tilbúnar til að gefa þau upp á bátinn.

2) Hagsmunamál
-Uppeldi barna lendir oftar á konum en körlum og þær óska þess því ekki að eignast barn nema vera í sambúð. Karlinn getur hinsvegar alveg valið sér það hlutskipti að verða helgarpabbi.
-Það er þreytandi til lengdar að vera einn um alla ábyrgð á börnum og það er ekki gott fyrir börn að alast upp án föðurímyndar. Þessvegna er einstæð móðir líkleg til að reyna að verða sér úti um einhvern til að sinna því hlutverki. Það er aftur á móti skiljanlegt að einhleypur maður sé ekki tilbúinn til að taka að sér föðurhlutverk gagnvart hópi stálpaðra barna.

3) Afstaða til kynlífs
-Konur upplifa kynlíf á dálítið annan hátt en karlar. Við erum líklegri til að tengja saman ást og kynlíf og langtímasambönd henta okkur betur kynferðislega.
-Markaðurinn býður ekki upp á það að konur séu með marga menn í takinu, nema þær séu þeim mun smekklausari og flestar okkar eru frekar raunsæjar. Við viljum því halda í mann sem reynist nothæfur í bælinu.

4) Sjálfsmynd
-Konur líta líklega ekki lengur á sig sem veikara kynið en það er samt stutt í postulínsbrúðuna í okkur. Okkur finnst gott að vera verndaðar, dáðar og dekraðar. Konu finnst ekki eins og karlinn meðhöndli hana sem dýrgrip þegar hann gerir þarfir sínar á henni og dregur svo upp rennilásinn á leiðinni út og segist ætla að hringja í tón sem fullvissir hana um að það sé haugalygi. Sumar okkar (konur geta verið ótrúlega móðgunargjarnar) tala jafnvel um svona framkomu sem virðingarleysi.
-Konur byggja sjálfsmynd sína meira á samböndum en karlar. Góð félagstengsl eru stöðutákn í huga kvenna. Þegar kona missir vin eða elskhuga, líður henni eins og karlmanni þegar hann er rekinn úr vinnu sem hann taldi sig vera góðan í og er búinn að leggja mikið nám á sig fyrir.

Þú karlmaður sem skilur bara ekkert í því hvað konur taka sambandsslitum persónulega, hvernig tækir þú því ef vinnuveitandi segði við þig:
„Friðrik! Þú ert snjall og úrræðagóður, áreiðanlegur, vel menntaður og kemur vel fyrir. Þú ert einhver besti starfsmaður sem við höfum nokkurntíma haft og þú átt ekki skilið að vinna hjá svona ömurlegu fyrirtæki. Ég met þig svo mikils að ég vil að þú verðir hamingjusamur og fáir hærri laun hjá samkeppnisaðilanum. Í fyllstu einlægni Frikki minn, þú ert bara það góður að mér stendur ógn af þér. Ég er hræddur um að fyrirtækið fari fram úr væntingum með sama áframhaldi og þá verður svo rosalega sársaukafullt ef fer að ganga illa aftur. Ég bara þoli ekki tilhugsunina um það svo ég ætla að láta þig róa. Þú mátt samt alls ekki taka því persónulega því þú ert náttúrulega frábær.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Hversvegna vilja konur endilega eignast maka?

  1. ———————————————————-

    Þetta er brilljant samlíking. Þú ert snillingur.

    Posted by: lindablinda | 7.01.2007 | 13:45:52

    ———————————————————-

    þú orðar það sem ég hugsa betur en ég gæti hugsanlega orðað það sem ég hugsa. Eva – þú rokkar!

    Posted by: baun | 7.01.2007 | 15:13:05

    ———————————————————-

    veistu, þetta er næstum því nákvæmlega öfugt hér á bæ. (nema kannski þetta með vernda dá og dekra) En við erum kannski ekki alveg normal.

    Posted by: hildigunnur | 7.01.2007 | 16:12:25

    ———————————————————-

    Auðvitað eru sumir karlar uppteknari af ástinni en sumar konur, sem betur fer er ekki bara ein manngerð af hvoru kyni. En mér sýnist nú almennt að konur leggi meiri áherslu á tilfinningasambönd en karlar.

    Posted by: Eva | 8.01.2007 | 0:18:39

    ———————————————————-

    Er alfarið ósammála. En gaman að lesa bloggið þitt eigi að síður. Vil samt benda á að fólk er yfirleitt ekki einsog fólk er flest ….

    Posted by: FB | 8.01.2007 | 21:47:18

    ———————————————————-

    Ósammála hverju? Þvíað karlar vilji líka eignast maka? Því að hagsmunir vegna móðurhlutverksins hafi áhrif á löngun kvenna til að eignast maka? Einhverju öðru? Eða öllu?

    Posted by: Anonymous | 8.01.2007 | 22:32:20

    ———————————————————-

    Mér finnst þetta mjög áhugaverð pæling. Get reyndar ekki uppfært þetta allt upp á sjálfan mig en ég er heldur kannski ekki alveg týpískur. En hvar eru allar þessar glæsilegu konur sem þú talar um ? Af hverju á að vera miklu meira úrval af konum en körlum á „markaðnum“ ? Svo er ég náttúrulega alls ekki sammála því að karlmenn verði óspennandi uppúr þrítugu 😉

    Posted by: Hugz | 9.01.2007 | 11:50:22

    ———————————————————-

    Það er meira úrval af konum en körlum á markaðnum. Ástæðurnar eru margar:

    -Sveinbörn eru veikbyggðari og því komast fleiri telpur til manns.
    -Karlar eru líklegri til að látast ungir vegna slysa og áhættuhegðunar.
    Af þessum ástæðum eru konur einfaldlega fleiri.

    Við bætast félagslegir þættir sem lækka enn hlutfall bitastæðra einhleypra karla á markaðnum
    -Karlar sækja í yngri konur
    -Konur lifa lengur svo karlar missa síður maka
    -fleiri karlar en konur eru langtímum erlendis vegna náms eða vinnu og því aðeins með annan fótinn á markaðnum
    -mun fleiri karlar eru í óreglu og/eða með afbrotaferil
    -Það er í tísku meðal myndarlegra karla að gera sér upp skuldbindingarfælni

    Ef þú veist ekki hvar glæsilegu einhleypu konurnar halda sig talaðu þá bara við mig. Ég get gefið þér langan nafnalista.

    Posted by: Eva | 9.01.2007 | 13:44:26

    ———————————————————-

    Já og svo auðvitað það sem þú reyndar dregur í efa, að karlar hugsa síður um útlitið á sér og því er lægra hlutfall aðlaðandi karla en kvenna í boði.

    Posted by: Eva | 9.01.2007 | 13:50:04

    ———————————————————-

    Kíkti á tölfræðina. Árið 2006 voru 20654 konur einhleypar og ekki sambúð en 25992 karlar. 2667 karlar voru fráskildir en 3535 konur (giftast karlar þá oftar aftur ?). Þarna sérðu að það eru fleiri karlar en konur á lausu ! Að vísu vantar alveg hjá Hagstofunni að taka fram hverjir af þessum eru huggulegir …

    Posted by: Hugz | 9.01.2007 | 20:03:10

    ———————————————————-

    25992 karlar á lausu! Hvar í fjandanum fela þessir menn sig?

    Ég held reyndar að það sé nú kannski ekki alveg að marka að skoða bara eitt ár. Það eru ekki nema 6 ár síðan konur voru í meirihluta á höfuðborgarsvæðinu. Karlar voru þá í meirihluta í flestum sjávarþorpum en þessihlutföll hafa breyst á nokkrum árum.

    Svo eru nú reyndar inni í þessum tölum menn sem eru hvorki í sambúð né á markaðnum svo sem óreglumenn og aðrir rugludallar, fangar og útlendingar sem stoppa hér aðeins í skamman tíma. Karlar giftast sennilega ekki oftar aftur en þeir eru fljótari að finna sér nýjan maka eftir sambandsslit (jafnvel fyrir sambandsslit). Einnig sýnist mér nokkuð algengt að það sé bara konan sem er á föstu, enda þótt sambandið beri öll merki sambúðar nema sameiginlegt lögheimili. Kannski það skýri eitthvað.

    Víðast hvar í veröldinni eru konur fleiri en karlar en við búum nú blessunarlega að því að hafa ekki herskyldu ennþá. Mér datt samt ekki í hug að þeir væru svona margir.

    Posted by: Eva | 9.01.2007 | 23:31:46

    ———————————————————-

    Hum .. þyrfti að kanna á Hagstofunni hvort það er hægt að fara í sambúð þannig að bara konan sé skráð í sambúð en karlinn bara laus og liðugur. Þetta, ásamt náttúrulega útlitstákni, myndi gera allar hagtölur mun áhugaverðari. En það þyrfti þá líka að bæta inn sviði fyrir konur sem eiga ketti. Væri gott að geta útilokað þær þegar maður er að taka statistik.

    Posted by: Hugz | 10.01.2007 | 8:52:34

    ———————————————————-

    Líst vel á það, nema mér finnst nú eiginlega mikilvægara að hafa tákn fyrir konur sem þjást af fórnarlambsheilkenninu,
    meðvirkni og botnlausri dramsýki. Það er ekki að hægt að leyna ketti mjög lengi.

    Posted by: Eva | 10.01.2007 | 11:35:11

    ———————————————————-

    Já það er kannski ekki alveg sami hópurinn og kattakonurnar. Svo væri ágætt að fá merkingu á konur sem safna fötum með hlébarðamynstri.

    Posted by: Hugz | 10.01.2007 | 13:02:20

    ———————————————————-

    Þar sem kærleikur og ást eru til staðar fyrirfinnast í raun engin vandamál.
    Þegar kærleik og ást vantar, þá fyrirfinnast bara vandamál.

    Sannur skilningur byggir á kærleik.
    Hann fer dýpra en rök og staðreyndir, dýpra en tilfiningar.
    Svo tala ég nú bara um góðan húmor eða hvað.

    Karlar og Konur taka sjálfan sig allt of alvarlega.

    Posted by: Hafþór Guðbjartsson | 14.01.2007 | 0:12:11

    ———————————————————-

    Þar sem kærleikur og ást er til staðar er samt sem áður fullt af vandamálum.

    Krabbamein er t.d. vandamál jafnvel þótt allur heimurinn elski þig og þú elskir allan heiminn.

    Posted by: Eva | 14.01.2007 | 1:16:01

    ———————————————————-

    Krabbamein er ekki vandamál.
    Faðir minn dó úr krabbameini.
    Það skapað meiri kærleik mill okkar en meðan hann var heilbrigður.

    Posted by: Hafþór Guðbjartsson | 19.01.2007 | 20:33:16

    ———————————————————-

    Frábært að heyra að það sé bara misskilningur hjá krabbameinssjúklingum og aðstandendum þeirra að það sé vandamál að þjást óheyrilega og deyja frá undum börnum fyrir aldur fram. Ég skil núna að krabbamein er í rauninni ekkert vandamál og það gleður mig því við þurfum þá ekki að setja meiri peninga í að reyna að leysa það.

    Posted by: Eva | 19.01.2007 | 22:18:49

Lokað er á athugasemdir.