Mannfyrirlitning?

Var að fá tölvupóst frá vini mínum sem vill fá mig til að þýða nokkra texta við söngleik sem hann langar að setja upp. Ekkert víst að hann fáist uppsettur en það er alveg sama, ég fæ bara hjartsláttartruflanir af æsingi.

Það hlýtur að vera eitthvað að mér. Ég ætti að vera skeptísk. Ætti að þverneita að ræða þetta fyrr en uppsetning er í sjónmáli. Ætti að vera drullusvekkt yfir öllum óútgefnu bókunum mínum, gagnvirku ljóðunum sem ég hef ekki forritunarkunnáttu til að klára, óútgefnu tónlistinni með textum efir mig, óuppsetta söngleiknum með kvæðum eftir mig…

Samkvæmt öllum lögmálum ætti ég annaðhvort að vera löngu búin að gera eitthvað í því að koma þessu öllu á framfæri eða vera illa haldin af sjálfsvorkunn yfir því að það gerist ekki sjálfkrafa. Sannleikurinn er hinsvegar sá að það er mér lítið kappsmál að gefa eitthvað út. Þessi eina bók sem ég hef gefið út gleður mig nákvæmlega ekkert meira en allt hitt sem liggur í skúffunni.

Kannski er það af því að ég held að útgáfa sé engin trygging fyrir áheyrn. Fullt af því sem ég hef skrifað er aðgengilegt á netinu en ég veit ósköp vel að það eina af því sem fólk les eftir mig, eru nauðaómerkilegar bloggfærslur og þá helst þær sem fjalla um kynni mín að kynjaverunni hómó typpus. Besta aðsókn fá þær sem hafa titil sem á einhvern hátt má tengja klámi og sora. Mér finnst svosem gaman að fá hrós, en yfirleitt hafa þeir sem á annað borð segja eitthvað um skrifin mín, hvort sem er ekkert vit á skáldskap svo það skiptir mig í rauninni litlu.

Spákonan sem heldur að gula ljósið nái ekki niður í klofið á mér, segir að ef mér sé raunverulega svona mikið sama, þá sé það merki um alvarlega mannfyrirlitningu. Að vísu veit ég af þeirri tilhneigingu og reyni að gæta þess að láta hana ekki hafa yfirhöndina. Í þessu tilviki held ég samt að þetta sé meira svona eins og verslunarsyndromið. Sumt fólk nýtur þess að tæta út úr búðunum en virðist svo ekki hafa neina sérstaka ánægju af hlutunum þegar það er búið að eignast þá. Kannski er þetta eitthvað svoleiðis. Ferlið en ekki afurðin er það sem málið snýst um. Og hvað ætli búðafíklinum sé ekki slétt sama hvað öðrum finnst um öll fötin sem hanga ónotuð inni í skáp. Ég held að það sé meira þannig.

Eiginlega er mannfyrirlitningarskýringin ekki mjög sannfærandi, þar sem athyglisþörfin kemur sterkt fram á öðrum sviðum. T.d. leiksviðum. Ég hefði líklega ekki mjög gaman af því að æfa upp leikrit sem ekki stæði til að sýna. Ég held að kikkið sem ég hef fengið út úr því að standa á leiksviði, sé svipað því sem flestir rithöfundar fá þegar þeir gefa út bók. Sem ég missti alveg af.

Ég fæ líka kikk út úr því að halda fyrirlestra.
Kannski finnst mér svona gaman að láta horfa á mig?
Já, það er kannski að einhverju leyti það. Mér finnst það gaman.

Á hinn bóginn fékk ég þetta leiksviðskikk þegar ég heyrði mann syngja kvæði eftir mig.
Svo líklega er þetta metnaðarleysi mitt aðeins flóknara.

Best er að deila með því að afrita slóðina