Skilnaðarblús

Í síðustu viku sölsaði ég undir mig Nornabúðarveldið. Nú þarf ég bara að finna meðeiganda sem nennir að standa í því að hnattvæða dæmið.

Ef búðin væri þegar orðin hnattræn (eða „global group“, svo maður tali nú skiljanlegt mál), gæti ég fundið meðeiganda í gegnum raunveruleikaþátt. Fyrsta verkefnið yrði að leggja tarotspil fyrir Birgi Baldurs. Ekki af því að ég hafi unun af því að horfa á fólk þjást (ég hef það vissulega en einmitt þessvegna voru bollgaggið og pískurinn sett á markað), heldur til að útiloka miðlamafíuna og finna fólk sem getur staðið með mér án þess að þurfa vikulega áfallahjálp.

Ég hef komist að því síðustu daga að skilnaður við viðskiptafélaga er meira vatnslosandi en netluseyði. Munurinn á þessu og skilnaði við fávita af loðnara kyninu er sá að viðskiptafélaginn hefur hvorki umgengnis- né forsjárskyldu gagnvart afkvæminu.

Sem betur fer er samt allt í góðu á milli okkar og ég reikna með einhverju samstarfi áfram. Og það er nú gott því ég elska Spúnkhildi meira en búðina. Ef það er þá hægt.

Best er að deila með því að afrita slóðina