Náin kynni

Maður nokkur telur að náin kynni gætu leitt til þess að hann yrði ástfanginn af mér. Reyndar er það nú mín reynsla að þeir menn sem verða ástfangnir af mér eru undantekningalaust menn sem ég hef EKKI boðið upp á líkamlegt samneyti og mig rennir í grun að þarna séu einhver orsakatengsl. Þeir eru svo miklir veiðimenn í sér, þessar elskur. Eiginlega er hinn dæmigerði karlmaður einn eilífðar veiðimaður með titrandi tár.

Annars hef ég verið að velta því fyrir mér hvers vegna „náin kynni“ er oftast notað um þá athöfn að skiptast á líkamsvessum. Hvað er svona náið við það? Nánd er í mínum huga eitthvað allt annað. Vissulega hægt að upplifa nánd í bælinu eins og hvar annarsstaðar en ég sé ekki að riðlirí sé skilyrði eða trygging fyrir nánum kynnum.

Náin kynni eru t.d. það að sitja í bíó með Kela í troðfullum sal af fólki og við skellum upp úr bæði á sama augnablikinu þegar engum öðrum stekkur bros. Og stuttu síðar liggur salurinn í krampa yfir einhverju sem er í eðli sínu ósmekklegt eða allavega ákaflega ófyndið og við horfum furðu lostin hvort á annað.

Nánd er að segja Spúnkhildi frá einhverju sem er ekki hægt að setja á bloggið og þegar hún grípur af mér orðið og lýkur málsgreininni fyrir mig, veit ég nákvæmlega hvernig hún mun orða hana og að það verður nákvæmlega það sem ég vildi sagt hafa, nema með ofurlítið Spúnkhildarlegra orðalagi.

Að hitta Gerði eftir margra ára aðskilnað og upplifa aldrei vandræðalega þögn.

Að koma til systur minnar í fjarskanum og skynja, strax í forstofunni að nú þarf að laga kaffi og koma börnunum út úr eldhúsinu, áður en ég sé hana eða heyri í henni. Að sakna hennar endalaust eftir að hún fór, þótt við eigum ekkert sameiginlegt nema uppeldið og genin.

Og þegar Endofínstrákurinn bankar upp á um miðja nótt og spyr skælbrosandi hvort ég trúi á líf eftir miðnætti. Ég nudda svefnhrukkurnar ergileg og spyr hvort hann vilji kaffi.
-Þú hefur þekkt mig í 10 ár, þú veist að ég verð veikur af kaffi segir hann.
-Þú hefur þekkt mig í 10 ár og veist að ég trúi á svefn eftir miðnætti, segi ég.
-Viltu að ég fari?
-Glætan. Þú skalt sko gjöra svo vel að svæfa mig aftur fyrst þú vaktir mig.

Og vita að hann mun sitja hjá mér og deila með mér vísdómi sínum þar til ég er farin að bulla einhverja vitleysu, kyssa mig þá á ennið og læðast ofur varlega út, á meðan ég líð inn í svefninn með æðarnar fullar af endorfíni.

Það eru náin kynni.

Best er að deila með því að afrita slóðina