Að vilja ekki festast

Ég veit að mörgum finnst það óskynsamlegt að vilja ekki binda sig í vinnu á einum stað. Það er heldur ekkert gallalaust. Það merkir að stundum verður maður bara vessgú að taka því sem býðst þá stundina og maður getur ekkert alltaf reiknað með góðum launum. Verður líka svolítið flóknara ef maður er á föstu, þeir hafa svo mikla öryggisþörf þessar elskur.

En frelsitilfinningin er svo góð.

Af því að maður veit aldrei hvaða tækifæri banka upp á næst og það er gott til þess að hugsa að þegar þau koma þá getur maður tekið á móti þeim. Að vakna á morgnana og hafa ekki hugmynd um hvernig dagurinn verður, það er stundum svolítið stressandi en bara svo gaman á meðan maður er ekki blankur. Að vita að maður þarf aldrei að gera það sama mikið lengur en mann langar, vera stöðugt að fást við eitthvað nýtt.

Ég vinn við að gera það sem mér bara sýnist og mér finnst það yndislegt.

Hátt uppi á fjöllum er hellingur af köllum og í sumar fer ég líklega þangað og elda kjötsúpu handa þeim. Það hlýtur að koma eitthvað skemmtilegt út úr því.

Best er að deila með því að afrita slóðina