… og ég dey ef hann vaknar

Þetta er nefnilega ekki bara spurning um hvað mann langar að gera, heldur líka um forsendurnar. Þær stjórna því að töluverðu leyti hvað það má kosta þegar upp er staðið.

Fyrir mörgum árum lofaði ég sjálfri mér því að verða einskis manns hjákona. Ekki af því að mér finnist það einhver stórsynd heldur vegna þess að ég tók þann pakka út sextán ára að aldri og mér fannst það ekki skemmtilegt hlutskipti.

Þegar allt kemur til alls er eina ástæðan fyrir því að mig langar að sofa hjá honum sú að hann elskar mig frá dýpstu hjartans rótum. En þótt mér þyki ofur vænt um hann yrði ekkert vit í því að hlaupa á eftir því, það myndi bara særa hann. Vinátta okkar hangir eingöngu saman á ást hans á mér og þörf minni fyrir að vera elskuð. Og það er bara það sem mér finnst spennandi við hugmyndina um að vera með honum; ég hef nefnilega aldrei sofið hjá neinum sem elskar mig og geng með einhverjar rómantískar grillur um að það hljóti að vera eitthvað öðruvísi og betra. Ég hef nefnilega aldrei verið elskuð. Ég er ekki að vanþakka það sem ég hef; ég hef eignast vini, jafnvel sálufélaga, ég hef notið athygli og viðurkenningar, ég hef aldrei staðið alveg ein. En ég hef ekki verið elskuð og þótt margir megi búa við harmrænni aðstæður er það mér lítil huggun. Að lifa við ástleysi er álíka tragískt og að vera fatlaður. Þannig er nú bara það.

Ég geri mér grein fyrir að þetta hljómar kannski biturlega og að einhverjir sjálfskipaðir sjálfsvirðingarpostular hafa lagt blátt bann við biturð. En sannleikurinn á það til að vera bitur og ég sé ekki að það sé réttlætanlegt að afneita honum þessvegna. Þegar allt kemur til alls er ég vönust því að gera það sem mér bara sýnist og segja það sem aðrir láta sér nægja að hugsa (svo framarlega sem það felur ekki í sér persónulegar árásir) og veruleikinn skaðar ekki sjálfsvirðingu manns nema maður neiti að bíta í sig kjark til að horfast í augu við hann.

Svona er þetta bara, hann elskar mig og mér finnst það gott bara vegna þess að ég þarfnast þess svo sárlega en sumt er best að láta í friði, láta það vera eins og það hefur alltaf verið. Þegar allt kemur til alls er ég dularfulla blómið í draumi hins unga manns og ég dey ef hann vaknar.

Best er að deila með því að afrita slóðina