Strok

Halldór nokkur var að hringja í mig frá lögreglunni í Reykjavík. Hann sagði að lögreglan hefði nokkrum mínútum fyrr, fengið tilkynningu um að ungur piltur, vopnaður riffli, sæti í strætóskýli uppi á Norðhöfða.

Höfðu Halldór og kollegi hans brunað með sírenuvæli og ljósum upp á Höfða til að handsama byssumanninn og komist að raun um að frethólkur sá er sonur minn Hárlaugur hafði um öxl væri að vísu hin mesta völundarsmíð en þó lítt til þess fallinn að vega mann og annan. Hrósaði þessi laganna vörður piltinum í hástert fyrir fagurt handbragð en vakti um leið athygli mína á því að drengurinn hefði gefið þá skýringu á ferðum sínum að hann ætlaði sér norður í Skagafjörð, fyrst með strætisvagni svo langt sem hann kæmist og síðan á tveimur jafnfljótum. Slík ferðalög 15 ára ungtryppa væru að mati lögreglu fremur óæskileg, ekki síður en vopnaburður og hvort ég vildi ekki gjöra svo vel að pilla mér upp á Höfða og hirða minn byssumann.

Ég hringdi í Hárlaug. Hann var þá staddur í Mosfellsbænum og ekki gott að segja til um hvort brestirnir í rödd hans stöfuðu af mútum eða geðshræringu. Ég sagði honum að ég mætti eiga von á frekari afskiptum lögreglu ef hann sæist á göngu á fjallvegum landsins og gat ekki betur heyrt en að hann væri dauðfeginn að fá þessa afsökun fyrir að snúa við. Krafðist þess að ég kæmi að sækja sig, eigi síðar en í hvelli, fyrst á að banna mér þetta eins og allt annað. Held ég nú í þá svaðilför og segir mér svo hugur um að Hárlaugur verði ekki með skemmtilegra móti það sem eftir lifir dags.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina