Hagbarður Lenín

Hollendingurinn fljúgandi keypti „óvart“ páfagauk handa Pysjunni. Ég hélt að í gildi væri samkomulag um engin gæludýr og er síður en svo ánægð.

„Óttar! Hvernig kaupir maður páfagauk „óvart“? Ég meina hvernig gerist það?“
„Æ, þú veist – hann var blár. Og fallegur. Og pabbi hans er vondur við hann.“

Pabbi hans er vondur við hann – það trompar ekkert þau rök.

Helvítið er reyndar fallegur en hann er vitlaus í skapinu og goggar í allt og alla.
Páfagaukurinn meinti ég – ekki Óttar.

Darri vill láta hann heita Lenín en mér finnst lágmark að ég fái að ráða nafninu enda MUN það koma í minn hlut að þrífa undan honum.
„Hann heitir Hagbarður“ sagði ég. Pysjan fnæsti.
„Hagbarður Lenín“ lagði Hollendingurinn blóðseki til.
Darra finnst það ekki gott nafn.

Best er að deila með því að afrita slóðina