Ég elska Strathclyde!

Myndin sýnir vegg við John Street sem tilheyrir háskólalóðinni.
Þessum vegg geng ég fram hjá á leið í skólann. Myndin er héðan.

Fyrsti alvöru kennslutíminn við Lagadeild Strathclyde háskóla var í morgun. Ég er himinlifandi! Þetta var eins og Árnagarður ´91 mínus reykingar. Áhugavert námsefni, kennarar sem hafa áhuga á kennslu og nemendur sem hafa áhuga á námsefninu.

Þessi fyrsti tími var í alþjóðlegum umhverfisrétti sem ég ætla að taka sem valnámskeið. Ég get ekki sagt að ég sé hrifin af hópvinnu og hafði efasemdir um ágæti þess að skipta nemendum í umræðuhópa strax á fyrsta degi en áherslan var ekki á að komast yfir efnið heldur á gagnlegar samræður og það gekk alveg eftir. Allir voru virkir og útlendingarnir sem voru kannski aðeins hikandi við að tjá sig fyrsta háftímann voru alveg komnir á flug eftir klukkutíma. Pólitísk álitamál eru ekki tabú og nemendur beinlínis hvattir til að segja skoðanir sínar á ákvæðum þjóðréttarsamninga, verkferlum og niðurstöðum alþjóðlegra dómstóla.

Ég hef haft töluverðar áhyggjur af því að ráða ekki við þetta nám en ef þessi morgunn hefur eitthvert forspárgildi, þá verður þetta frábær vetur.

Deila færslunni

Share to Facebook