Á sérstökum stað

Bara svo það sé á hreinu þá er ég ekki á leið með að verða útivistarfrík en um helgina gerði ég nú samt aðra tilraun til að fara í útilegu. Ég hef hingað til talið rétt að prófa allt einu sinni en nú er ég komin að þeirri niðurstöðu að sumt þurfi að prófa þrisvar sinnum áður en maður gerir upp við sig hvort það er áhugavert eða ekki. Fór þessvegna með Einari og Torfa að sjá „sérstakan stað“, þar sem fátt mun vera um túrista, enda var síðasta útilega (í mínu tilviki sú fyrsta) bara fyrir sútkkulaðikleinur.

Það var þoka á leiðinni og þegar bíllinn hafði juðast áfram yfir stórgrýti í klukkutíma var mér orðið óglatt. Þetta var eins og að sitja í einhverju satanísku tívolítæki nema það tekur ekki svona langan tíma.

„Líst þér ekkert á þetta?“ sagði Einar.
„Jasko, Ísland er stórt og fullt af fallegum stöðum þótt það sé síkópati, þannig að ég skil  ekki alveg hversvegna þið völduð ljótan stað. Hér er ekkert nema auðn og grjót.“
„Þú sérð bara ekkert fyrir þokunni og svo ætlum við nú heldur ekki að tjalda hér. Það er fallegt á tjaldstæðinu, ég segi ekki beinlínis gróðursælt en það er rennandi vatn og smá gróður og dálítill hraunveggur.“

Það hljómaði nú alveg ágætlega. Ég sá fyrir mér lága, mosavaxna hraunborg, berjalyng og dálítið blóðberg. Kannski víði. Ekki nein tré en svona eina eða tvæt víðisflækjur í mosanum. Og lítinn hjalandi læk.

Sko! Hér er tjaldstæðið okkar, sagði Einar hamingjusamur

 

„Rennandi vatnið“ reyndist vera skítug óvenju hrein jökulá og hraunveggurinn algerlega óspennandi grjótgarður.

„Gróðurinn“ var smá mosi. Ekki mjúkar og 7 cm þykkar dyngjur af grámosa, heldur þessar þunnu, sterkgrænu skófir sem setjast milli gangstéttahellna. Einn lófastór blettur af krækiberjalyngi og annar á stærð við matardisk. Það voru meira að segja tvö ber á því.

 

„Ætlarðu að tjalda á þessari grjóthrúgu hér?“ sagði ég og reyndi að hljóma eins og ég væri ekki í uppnámi. Einar hélt því fram að ekkert væri betra en að sofa á möl og ég fékk að vera prinsessa og sitja í bílnum á meðan Torfi hjálpaði honum að koma tjaldinu upp. Það tók töluverðan tíma enda hífandi rok hreyfði aðeins vind.

 

 

Hvað er betra, eftir að hafa barist við að koma upp tjaldi í roki,
en ískaldur bjór í blautri möl og 3ja gráðu hita?

 

Einar eldar kúskús við þessar líka huggulegu aðstæður og Torfi slakar á í hægindastólnum. Næstum eins og að vera heima er það ekki?

Þar sem allt var blautt og mig langaði ekki í rigningarvatn út á matinn minn borðaði ég kúskúsið í bílnum hans Torfa og þar sátum við reyndar megnið af kvöldinu og horfðum á þokuna nutum útsýnisins. Af og til reyndi Einar að halda því fram að nú væri að rofa til. Torfi tók nú reyndar ekki undir það en taldi allar líkur á að við myndum vakna í sólskini.

Ég hafði afþakkað bjór fyrir matinn, enda skítakuldi úti. Nú þegar við sátum í heitum bíl hvatti Einar mig eindregið til að gúlla í mig bjór. Ég sagði fyrst nei og ætlaði líka afþakka kakó með rommi, þar sem ég vildi í lengstu lög komast hjá því að pissa en Torfi benti mér á að ef ég ætlaði að sleppa því myndi ég sennilega neyðast til að fara upp úr svefnpokanum og út um miðja nótt. Einar hafði meiri áhyggjur af því að afleiðingarnar af þessu aðhaldi yrðu þær að ég yrði óþarflega edrú en að dýrðina á mér myndi kala. Held að hann hafi ekki einu sinni trúað því að ég gæti haldið í mér fram yfir kl 10, hvað þá lengur. Ég sá að lokum fram á að þetta kvöld yrði ekki skemmtilegra án áfengis og drakk því bæði bjór og romm í bílnum, en án þess að þokan yrði nokkuð fallegri. Paufaðist svo upp fyrir meintan hraunvegg og pissaði í skítakulda bak við stein. Fann rakvél á bakaleiðinni. „Helvítis túristar“ virðast því hafa komið á „sérstakan stað“ þótt þar sjáist annars engin skepna, ekki einu sinni fuglar hvað þá sauðfé, hvað ætti það líka að éta?

Ég trúi því varla enn að tjaldbotninn sé ekkert götóttur eftir mölina en Einar hafði keypt handa mér prinsessudýnu svo það var mjúkt undir mér þrátt fyrir allt. Í þetta sinn tók hann líka með svefnpoka sem á að vera þæglegur í -30°C og enda þótt væri við frostmark um nóttina varð mér ekki kalt.

„Þetta er ágætt“ hugsaði ég áður en ég sofnaði. „Þeir eru ekki að fara að þramma á fjöll í þoku eða rigningu svo við förum bara heim á morgun.“

En við vöknuðum í sólskini, merkilegur andskoti. Og mér var ekki kalt!

 Og jú, þarna eru fjöll eftir allt saman og þau eru hreint ekki ljót.

 

Meira að segja þessi ómerkilegi grjótgarður er bara þó nokkuð sætur í sólinni
ég tala nú ekki um þegar Torfi stendur fyrir framan hann.

Hlýtt? Nei, það sagði ég ekki. Meira að segja Einar, sem helst gengur nakinn, var með húfu. En það var nú samt sólskin. Og hægt að borða morgunmat án þess krókna ef maður sat í skjóli. Það var reyndar næstum því logn.

 

Ekkert finnst Einari betra en að drekka morgunkaffið sitt úti í ískaldri morgunsólinni, nema ef skyldi vera það að drekka bjórinn sinn úti í roki og rigningu. 

 

Við vorum semsagt ekki að fara að taka saman dótið í grenjandi rigningu og hypja okkur í bæinn, heldur í fjallgöngu. „Þetta verður eitthvað“ hugsaði ég, en hefði ég bara vitað hvað var í vændum …

 

Deila færslunni

Share to Facebook