Með Walter á vélhjóli – moskan

Þessi megatöffari heitir Walter. Hann býður ferðamönnum upp á skoðunarferðir um Kampala sem farþegar á mótorhjólum eða “boda boda” eins og vélhjól eru kölluð hér.

Það er hægt að hugsa sér öruggari ferðamáta en að sitja aftan á mótorhjóli í umferðinni í Kampala og það runnu á okkur tvær grímur þegar Walter sagðist reikna með  minnst 6 tímum ef við ættum að ná því að gera eitthvað áhugavert. Ferðin reyndist þó sannarlega þess virði að eyða heilum degi í hana og maður er ekki á hjólinu nema lítinn hluta tímans.

https://www.facebook.com/eva.hauksdottir.norn.is/videos/10151434232252963/

Því miður náðist ekki skot af því þegar bíll ók utan í hjólið sem Eynar sat á

 

Myndin er af vefsíðu Þúsund bolla

Viðskiptavinir Walters geta að nokkru leyti ráðið ferðinni sjálfir svo við byrjuðum á því að fara á kaffihúsið þúsund bolla til að kaupa kaffi. Þetta er víst eitthvert besta kaffihús borgarinnar en Eynar var búinn að vera í öngum sínum af ótta um að fengist ekkert almennilegt kaffi í Úganda og var dálítið skeptískur. Eftir daginn var hann þó orðinn svo mikið “afrík” að hann hafði orð á því að kaffið væri “alls ekki slæmt”. Það verða að teljast meðmæli þegar Eynar á í hlut því hann lítur á ófullkomið kaffi sem glæp gegn bragðlaukunum og fólskulega árás á nývaknað fólk sem er engan veginn í formi til að takast á við áföll.

Hér er Walter og einn af ökumönnum hans (öllu ráðsettari í fasi) fyrir framan hindúahof. Líklega furða margir ferðamenn sig á hakakrossinum því Walter lagði sérstaka áherslu á sögu hans. Við fórum ekki inn í hofið en við skoðuðum hinsvegar moskuna. Hún er gjöf frá Gaddafi og að sögn Walters dugar það til þess að Gaddafi er hetja í hugum múslima í Kampala.

 Þessi mynd er tekin ofan úr turninum

Múslimir líta á skó sem tákn fyrirlitningar og því skulu gestir ganga berfættir inn í moskuna. Einnig er allt klám, svosem fegurð kvenna, bannað í moskunni og til þess að hindra vestrænar druslur í því að spilla helgi staðarins með dónalegu höfuðhári og nöktum hálsum og herðum, klæða umsjónarmenn staðarins hverja konu sem vill skoða moskuna í lambússhettu áður en hún gengur inn í helgidóminn. Ég var með peysu svo ég þurfti ekki lánsflík til að hylja bersynduga handleggi mína og þar sem ég klæddist gallabuxum taldi ég að siðareglum væri fullnægt neðan beltis. Því var konan sem klæddi mig ósammála og batt slæðu, skósíða og forljóta, um mittið á mér. Það er víst ekki nóg að konur hylji hina klámfengnu skanka sína á svo helgum stað, það má heldur ekki sjást að konur hafi bil á milli fótanna. Körlum með sítt hár er einnig gert að hylja hár sitt en karlmannsháls þykir ekki eins dónalegur og háls konu. Ég get ekki hugsað mér mikið ljótari höfuðbúnað en hijab. Held svei mér þá að hatturinn á fimmþúsundkellingunni sé skárri. Myndin er skömminni skárri í svarthvítu.

Stíllinn á moskunni er blandaður. Arabiskt mósaíkmynstur í hvelfingunum, steindir gluggar að ítölskum sið en með afrískri litasamsetningu og panellinn fyrir aftan okkar knáu leiðsögumenn er einnig afrískur.

Eins og ég er nú annars lítið hrifin af islam þá finnst mér  stemningin í moskum vera öllu eðlilegri en í kirkjum kristinna manna. Moskan er samkomustaður. Fólk  talar saman, börn leika sér og ef einhvern langar að velta sér í gólfinu þá er það ekki vandamál. Mér finnst samt dálítið skrýtið að mega liggja í gólfinu en samt ekki vera á skóm en það er svosem ekki eins og eitthvað sé rökrétt við gvuðdóminn.

Það sem mér finnst annars athyglisverðast við moskuna eru eldhússklukkurnar sem hanga á veggjunum innan um mósaík, súlur og allskonar útflúr. Undarlegt stílbrot.

https://www.facebook.com/eva.hauksdottir.norn.is/videos/10151434184452963/?hc_ref=ARSg98-vhCsZQTxZPIQz9cJRe9NiM8Dx768hxdoQZ–HZcDMuskLYEgC-DQvd3WoEwo

Ég held að hljóti að vera mjög þreytandi að syngja Kórarinn lengi

Við gengum upp í þennan gríðarháa turn. Samkvæmt því sem Walter sagði eru þrepin upp á útsýnispallinn 286 talsins. Ég hef ekki fundið áreiðanlegri heimildir en á netinu eru þau sögð frá 150 og upp í 368.

Úr turninum sér maður yfir alla borgina sem er byggð í ótal hæðum. Sjö þessara hæða eru taldar merkilegri en aðrar, enda er 7 heilög tala. Þetta er tilvalinn staður til þess að hlýða á ágrip af sögu Kampala og heyra dálítið um alla staðina sem við náum ekki að skoða.

Fyrir áhugamenn um hallir, hof og kirkjur er Kampala frábær borg. Mér finnst gaman að skoða flottar byggingar en ég heillast meira af smáatriðum sem gefa manni pínulitla innsýn í menninguna. T.d. þann afslappaða hugsunarhátt sem birtist í eldhússklukkum innan um arabiskt útflúr og þá afstöðu að það sé viðurkennd hegðun að liggja á gólfinu í moskunni og spila tölvuleiki á símann sinn.

Já og þessu hérna. Auglýsing fyrir boda boda ferðir Walters efst uppi í turni moskunnar. Líklegast hefur  hann límt þessa miða þarna sjálfur og kannski líta umsjónarmenn staðarins fram hjá þessu af því að hann kemur hingað með marga ferðamenn?

Þrátt fyrir fjölda glæsilegra halla og bænahúsa í Kampala var moskan eini staðurinn af þessu tagi sem Walter mælti með að við skoðuðum að innan.

Áður en ég fór út í eigin rekstur vann ég sem leiðsögumaður hjá öðrum. Margir ferðamenn hafa séð hallir og moskur í mörgum löndum og ég tók eftir því að sumum þeirra fannst áhugaverðara að sjá kúaskít en það sem okkur fannst merkilegast við Kampala. Mig langaði að bjóða upp á öðruvísi ferðir og það hefur gengið vel, segir Walter sem auk skoðunarferða um Kampala býður upp á tveggja daga kynnisferð á kaffiræktarsvæði, kynningu á næturlífi Kampala eða skipuleggur ferðir í samræmi við óskir hvers og eins, ýmist á vélhjólum eða bílum.

Við létum Walter ráða ferðinni að mestu og þennan dag hittum við galdrafólk á Owino makaðinum, sáum Matatu bílastöðina (sem ég hef þegar skrifað um), kynntumst hefðbundnum afrískum mat og bananabruggi. Við skoðuðum einnig pyndingaklefa Idi Amins sem Obote nýtti sér síðar í sama tilgangi. Eins og sjá má er þessi eina ferð efni í margar færslur.

Auk þess að bjóða upp á áhugaverðar ferðir er Walter þægilegur leiðsögumaður. Hann gefur upplýsingar um það sem mestu máli skiptir en heldur ekki svo langa fyrirlestra að maður fari að óska eftir frímínútum. Verðið er líka mjög viðráðanlegt.

Þeir sem eru á leið til Úganda og hafa áhuga á því að ferðast með Walter geta óskað eftir nánari upplýsingum hér.

Deila færslunni

Share to Facebook