Áttu kost á sálfræðingi en réðu kynjafræðing

stígamótUm daginn spurði ég Önnu Bentínu Hermansen í umræðum hér á Pistlinum, hvort það væri rétt að sálfræðingur hefði sótt um vinnu hjá Stígamótum en ekki fengið starfið af því að hún féllist ekki á skýringu kynjafræðinnar á orsökum kynferðisofbeldis.

Anna Bentína svaraði því í pistli á Pressunni að hún vissi ekki hvern ég væri að tala um (sem óneitanlega vekur spurningu um hvort það séu margir sálfræðingar sem hafa sótt um hjá Stígamótum en verið hafnað af pólitískum ástæðum.) Einhversstaðar nefndi hún líka að hún hefði ekki unnið lengi hjá Stígamótum svo hún vissi þetta ekki.

Þessu hefur nú verið svarað en ekki af fulltrúa Stígamóta, heldur af sálfræðingi sem sótti um vinnu hjá Stígamótum. Sú kona fékk reyndar ekki þá skýringu að efasemdir hennar um kynjafræðilega sýn á kynferðisofbeldi væru frágangssök; hið rétta er að það var ekki einu sinni rætt – henni var ekki boðið viðtal þar sem hún hafði ekki af eigin frumkvæði lýst yfir hollustu við pólitíska afstöðu Stígamóta.

Ég þakka Lilju Sif Þorsteinsdóttur fyrir að varpa ljósi á málið. Það er þá væntanlega hægt að ganga út frá því að það komi enginn nálægt starfi Stígamóta sem hefur minnstu efasemdir um skýringar kynjafræðinnar á kynferðisofbeldi. Stígamótakonur eru væntanlega hæst ánægðar með það sjálfar að hafa ráðið kynjafræðing þegar þær áttu kost á sálfræðingi en í ársskýrslu Stígamóta 2011, á bls 4, kemur fram að Anna Bentína Hermanssen, kynjafræðingur, hafi hafið störf hjá samtökunum í október.

Deildu færslunni

Share to Facebook