Allir þessir ókunnugu menn

rauðhetta

Venjulega er ekkert að óttast þótt maður verði þess var að einhver annar eigi leið um sömu götur og maður sjálfur.

Samt.

Sem kona hef ég heyrt hamrað á því í 40 ár samfleytt að mér sé stórkostleg hætta búin ef ég er ein á ferli í myrki. Ég trúi því ekki, svona þegar ég hugsa rökrétt því líkurnar á því að rekast á gott og heilbrigt fólk eru svo miklu meiri en líkurnar á því að rekast á ógeð.

Samt.

Ég verð þess vör að maður gengur um 20 metrum fyrir aftan mig og án þess að hugsa beinlínis út í það greikka ég sporið. Finnst ég knúin til að fara aðra leið og ákveð (án þess að hugsa beinlínis út í það) að ganga í gegnum kirkjugarðinn. Átta mig auðvitað á því um leið og ég er komin inn fyrir hliðið að það eru miklu meiri líkur á að verða fyrir árás í kirkjugarði en á Suðurgötunni. Ég lít m.a.s. við, eins og til að ganga úr skugga um að hann hafi ekki elt mig. Án þess að hafa nokkra ástæðu til að halda að maðurinn sé að elta mig.

Af hverju er ég stöðugt vakandi fyrir möguleikanum á því að hver einasti karlmaður sem verður á vegi mínum í myrkri sé einhverskonar afbrigði af Jekyll og Hyde, þegar það er fjarri reynslu minni og ég er ekki hrædd við karlmenn í neinum öðrum aðstæðum?

Ég var lítil stelpa og átti að gæta mín gagnvart ókunnugum. Menn sem ég þekkti voru allir góðir kallar. Ég hændist að Gústa gamla í sveitinni sem kenndi mér vísur. Afa sem gerði við biluð leikföng og fór með mig í sund. Og pabbi, elsku pabbi sem alltaf stóð með mér og gerir enn. Ég hafði ekki ástæðu til að óttast neinn en ég átti að forðast ókunnuga og ég byggði upp tortryggni gagnvart ókunnugum, einkum karlmönnum. Samt reyndist enginn ókunnugur mér illa en þar fyrir utan þá upplifði ég fólk ekki sem ókunnugt þegar það hafði einu sinni ávarpað mig.

Eftir á að hyggja er það kannski eins gott því líf mitt hefði líklega orðið mun erfiðara ef ég hefði ekki treyst ókunnugum. Þegar ég villtist voru það ókunnugir menn og konur sem hjálpuðu mér heim. Þegar ég datt og meiddi mig var það ókunnugt fólk sem huggaði mig ef enginn úr fjölskyldunni var nálægt. Ég man eftir gamla húsverðinum sem klæddi mig úr blautum sokkum og gaf mér kakó. Lögreglumanni sem bar mig sofandi upp á fjórðu hæð. Manninum sem leiddi reiðhjólið mitt heim þegar ég hljólaði niður Bröttubrekku, datt og skóf af mér hnén. Manninum sem sótti volgt vatn og losaði mig þegar ég sleikti rólustaur í frosti.

Svo varð ég fullorðin og þá var ég lítil kona sem þurfti líka að passa mig á ókunnugum körlum. Ég lenti í einum en hann elti mig ekki á götu heldur dró ég hann með mér heim. Aðrir sem hafa gert mér óleik af einhverju tagi voru allir vinir og vandamenn og oftar hafa þeir þó gert mér gott en illt. Það sama á við um ókunnuga. Ókunnugir menn hafa borið fyrir mig ferðatöskur, skipt um dekk fyrir mig, borgað drykki og dregið bílinn minn upp úr snjósköflum. Það var bláókunnugur maður sem ók mér alla leið frá Nilin til Jerúsalem þegar ég þurfi að komast undan eftirliti ísraelska hersins og tvisvar sinnum hafa ókunnugir karlmenn verndað mig þegar ég átti á hættu að troðast undir í mannþröng.

Og samt, þótt ekkert sé rökrétt við það, grípur mig beygur ef ég verð þess vör að ókunnugur maður gangi að baki mér í myrkri.

Og eins kjánalegt og það er gæti ég best trúað því að ef ég ætti dóttur hefði ég alið sömu paranojuna upp í henni.

Deildu færslunni

Share to Facebook