Alheimspíkan

http://www.saudek.com/en/jan/fotografie.html?r=2001-2005&typ=f&l=0&f=423

Þann 3. október sl. birti mbl.is. frétt þar sem haft er eftir lektor við háskóla að jarðgöng séu femínískar framkvæmdir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem því er haldið fram að jarðgöng þjóni sérstöku kvenfrelsishlutverki, Eyjan birti t.d. þessa frétt í apríl 2015, um niðurstöður fræðimanna við sama skóla, sem höfðu skoðað gerð Héðinsfjarðarganga út frá kynjafræðilegu sjónarhorni.

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/10/04/segja/

 

Samkvæmt þessum skýringum á jarðgangagerð sem „femínískum framkvæmdum“ hlýtur allt sem hefur í för með sér breytingar á kynhlutverkum og aðstæður sem konur lengir meira í en karla að teljast femínískt. Þar með hlýtur allt sem karlar telja aðkallandi að teljast maskúlínískt, ég tala nú ekki um ef það auðveldar kynbundna verkaskiptingu. Framfarir í byggingariðnaði og öryggismálum sjómanna eru þannig maskúlínískar aðgerðir af því að þær gagnast körlum betur en konum. Bann við virðisaukaskatti á varalit yrði þannig femínisk aðgerð í augum þeirra femínista sem finnst gott mál að konur hafi efni á varalit en maskúlínísk fyrir lengra komna; þ.e. þá femínísta sem finnst nauðsynlegt að uppræta kynjahallann í varalitarnotkun.

Það er þó ekki svo gott að hægt sé að treysta á jarðgöng sem femíníska aðgerð því í hinni gömlu frétt Eyjunnar, sem vísað er til hér að ofan, segir jafnframt:

Segja þau Andrea og Atli að samgöngubætur geti ýtt undir hefðbundin kynhlutverk þar sem kynin noti samgöngukerfið á ólíkan hátt. Í kjölfar samgöngubóta séu allar líkur á að atvinnusvæði karla stækki meira en kvenna þar sem þær séu líklegri til að skipuleggja líf sitt í nágrenni við heimilið og skóla barnanna.

Já það er vandlifað í kynjaveröld femínista. Jarðgangagerð er semsagt femínísk aðgerð af því að hún dregur úr vægi hefðbundinna kynhlutverka og gagnast konum sem eru hræddar við fjallvegi (og líklega 5-6 körlum sem eru reyndar líka hræddir við þá þótt þeir séu kannski ekkert mikið fyrir að tala um það). Hinsvegar getur jarðgangagerð líka ýtt undir hefðbundin kynhlutverk og þá eru jarðgöng væntanlega maskúlínískar framkvæmdir. Mikilvægt er að ríkið haldi uppi sem flestum fræðimönnum til þess að greina hvort hver jarðgöng um sig teljist femínísk eða maskúlínísk.

Annars finnst mér vanta táknfræðikafla í þessa kynjafræðilegu úttekt. Nauðsynlegt er að menn átti sig á því að hinn raunverulegi ávinningur af jarðgangagerð er sá að í jarðgöngum hlutgerist hin erkitýpíska alheimspíka og myndar þannig mótvægi við öll fallosartáknin í umhverfi okkar, svo sem ljósastaura, brúarstólpa, byggingarkrana og súkkulaðistengur. Konur valdeflast til muna þegar vagínusymbólið blasir við þeim á leið til vinnu, og karlar hrökklast inn á heimilin af djúpstæðum ótta við að þessi hyldjúpu göng muni gleypa karlmennsku þeirra.

Mynd: Jan Saudek

Deildu færslunni

Share to Facebook