Líkamsárásir eiga sér oft aðdraganda sem gefa árásarmanninum tilefni til einhverskonar viðbragða. Fórnarlambið kann að hafa ögrað árásarmanninum eða ógnað honum. Þótt það sem á undan er gengið réttlæti sjaldan líkamsárás getur hegðun þess sem fyrir árásinni varð verið þess eðlis að dómara sé skylt að taka tillit til þess við ákvörðun refsingar. Það þarf þó mjög sérstakar aðstæður til þess að sá sem ræðst á annan mann og veldur honum tjóni verði ekki látinn sæta refsiábyrgð.

Tungubitsmálið

Töluvert hefur verið fjallað um dómsmál frá árinu 2018 þar sem áströlsk kona, Nara Walker, hlaut 18 mánaða fangelsisdóm fyrir að bíta sundur tungu eiginmanns síns. Þar af voru 15 mánuðir skilorðsbundnir. Hún þurfti því að afplána að hámarki 3ja mánaða refsivist en var að sögn Fréttablaðsins flutt á áfangaheimilið Vernd eftir rúmlega mánaðar dvöl í fangelsi. Maðurinn býr við varanlegar afleiðingar af árásinni.

Það er litlum vafa undirorpið að mikið var búið að ganga á áður en Nara beit tungu eiginmanns síns í sundur og aðstæður virðast hreint ekki hafa gefið manninum efni til að halda að hún kærði sig um tungukoss. En viðbrögð hennar voru ekkert þau að rétt glefsa í tunguna á honum til að bíta hann af sér – hún beit bókstaflega 2ja cm langt stykki framan af henni. Það þarf mikið átak til að bíta sundur tungu, samkvæmt vottorði sérfræðings í háls-, nef- og eyrnalækningum sem lagt var fyrir dóminn. Þrjátíu spor þurfti til að sauma tunguna saman. Það dugði þó ekki til og svo fór að maðurinn missti þann hluta sem Nara beit af tungu hans. Það hefur varanleg áhrif á tal hans og getu til að matast. Miskinn var metinn á 1.800.000.

Nara Walker heldur því fram að árásin hafi verið neyðarvörn, dómstólar féllust ekki á það en þó var tekið tillit til aðdraganda árásarinnar. Forsagan sem hún rakti fyrir dómi, um langvarandi heimilisofbeldi kom ekki til álita enda líta dómstólar almennt svo á að rétt viðbrögð við ofbeldissambandi séu þau að slíta því og leita aðstoðar ef þörf er á en ekki að valda maka sínum alvarlegu líkamstjóni.

Nara telur ríkið hafa brotið gegn réttindum sínum og hefur kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hún segist hafa fengið harðari dóm en tíðkast í sambærilegum málum og telur það skýrast af því að hún sé útlendingur. Mér er ekki kunnugt um það hvaða mál hún telur sambærileg en dómstólar líta líkamsárásir almennt undarlega mildum augum nema þær séu lífshættulegar. Það verður áhugavert að sjá viðbrögð MDE.

Gerandinn kynntur sem fórnarlamb

Viðbrögð fjölmiðla við þessu máli koma ekki á óvart í okkar femíniska samfélagi. Blaðamenn hafa gefið Nöru Walker tækifæri til að skýra frá sinni hlið á málinu en ég hef ekki séð neitt viðtal við brotaþolann í málinu eða einhvern talsmann hans. Í umfjöllun fjölmiðla hefur ítrekað verið látið að því liggja að eiginmaðurinn hafi eiginlega átt það skilið að missa tunguna og að konan sé hið raunverulega fórnarlamb. Lítið fer fyrir samúð með karlinum sem getur reiknað með því, það sem eftir er ævinnar, að vera minntur á tjón sitt í hvert sinn sem hann borðar og í hvert sinn sem hann reynir að tala. Blaðamenn lýsa ekki aðgerðunum sem hann hefur undirgengist, þjáningunni eða erfiðleikum hans í daglegu lífi. Samúðin er með tungubítnum, sem glímir við áfallastreituröskun eftir þessa hryllilegu lífsreynslu.

Nara er ekki íslenskur ríkisborgari og hefur ekki landvistarleyfi. Hún hefur afplánað hinn óskilorðsbundna hluta dómsins en má ekki fara úr landi fyrr en skilorðstímanum lýkur. Hún er í mjög erfiðri stöðu að því leyti að hún er nánast réttindalaus á Íslandi. Staða þeirra sem geta hvorki verið né farið er áhugaverður vinkill á þessu máli og bara gott mál að um það sé fjallað. Það er líka stórfínt að almenningur sé upplýstur um það hvernig dæmdir glæpamenn lýsa aðdragandanum og hvernig þeir réttlæta gjörðir sínar. En tónninn í umfjöllun fjölmiðla, í það minnsta Mannlífs, menningarsíðu RÚV, Tengivagnsins á Rás 1 og Fréttablaðsins, endurspeglar það viðhorf að tungubíturinn Nara Walker sé fórnarlamb en ekki gerandi og umfjöllun erlendra miðla er á svipuðum nótum.

Gerandinn kynntur sem stjarna

Það er ekki nóg með að Nara sé kynnt sem fórnarlamb í málinu, RÚV hampar henni ennfremur sem listamanni sem noti listina sér til sjálfshjálpar. Það er sjálfsagt að þeir sem hafa tekið út refsingu fái tækifæri til að koma aftur út í samfélagið, og eðlilegt að fjalla um listaverk þeirra eins og annarra, en umfjöllun RÚV um list Nöru snýst fyrst og fremst um stöðu hennar sem fórnarlambs. Óréttlætið sem hún varð fyrir með því að sæta ábyrgð fyrir að bíta tunguna úr manni er þannig notað til að vekja athygli á listsköpun hennar. Smartland hefur ennfremur tekið hana í tölu smástirna, það þykir af einhverjum ástæðum viðeigandi að vekja athygli almenning á því að hún hafi mætt í partý.

Þessi stjörnuvæðing var svosem fyrirsjáanlegt framhald af undirskriftaherferð sem miðaði að því að kynna Nöru Walker, ekki bara sem fórnarlamb, heldur píslarhetju. Ekki færri en 43 þúsund manns skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að veita henni sakaruppgjöf, enda ekkert réttlæti í því að hún sé dregin til ábyrgðar fyrir jafn lítilfjörlegt brot og að verja sig með því að valda manni varanlegu tjóni. Landsréttur taldi reyndar ekki að hún hefði verið að verja sig en dómstóll götunnar veit betur.

Það er ekki óþekkt að fjölmiðlar geri ofbeldismenn og aumingja að „stjörnuglæpamönnum“ en ég þekki ekki dæmi þess að dregin sé upp sú mynd af karlmanni að hann sé fórnarlamb í eigin ofbeldisglæp gegn konu og eigi ekki að sæta ábyrgð vegna afbrota sinna. Ég velti því fyrir mér hvað þyrfti til að fá 43 þúsund manns til að krefjast þess að karli yrðu gefnar upp sakir eftir að hafa bitið í sundur tunguna í konu.