Síðasta óþokkaverk ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fyrir sumarfrí var að fella frumvarp um að varsla neysluskammta fíkniefna verði refsilaus. Þetta er álíka níðingslegt og að samþykkja að refsa exemsjúklingum fyrir að klóra sér eða offitusjúklingum fyrir að borða sykur.

Af og til afhjúpast grimmdin og mannfyrirlitningin sem fíklar mæta í heilbrigðiskerfinu, stjórnkerfinu og dómskerfinu. Þótt nauðungarvistun geti verið réttlætanleg er erfitt að sjá nauðsyn þess að heilbrigðisstarfsfólk standi yfir sjúklingum meðan þeir tala í síma. Þótt varsla fíkniefna sé ólögleg réttlætir það ekki heimildarlausa húsleit. Þótt þjófnaður eigi ekki að viðgangast er fangelsisdómur fyrir að stela samloku ekki líklegur til að bera þann árangur að fíkill sjái að sér. Það hlýtur að þurfa sérstaka tegund af grimmd og heimsku til að skilgreina það sem auðgunarbrot þegar fársjúkur fíkill fer inn í verslun og hvolfir í sig kardemommudropum.

En flest þessara mála sem varða ólögmætt inngrip í einkalíf fíkla og glórulausa refsistefnu gagnvart þeim ná aldrei eyrum almennings. Við sem ekki glímum við fíkn skiljum sennilega ekki til fulls hverskonar álag það er, til viðbótar við sjúkdóminn, að lifa í stöðugum ótta við lögguna og refsivörslukerfið.

Áhrifaríkustu leiðrnar til að draga úr ógæfu þeirra sem ánetjast vímuefnum, og um leið þeim óþægindum sem það kostar samfélagið, eru skaðaminnkandi aðgerðir. Skaðaminnkun merkir í raun að við horfumst í augu við veruleikann og viðurkennum að við getum hvorki læknað manneskju sem tekur ekki meðferð, né rekið sjúkdóminn út með refsingum. Skaðaminnkun merkir að við meðhöndlum fíkn og aðra geðsjúkdóma eins og ólæknandi líkamlegan sjúkdóm – reynum að draga úr þjáningum og koma í veg fyrir að sjúkdómurinn skemmi út frá sér. Þegar óhófsneysla vímuefna er annars vegar er mögulegt að gera t.d. eftirfarandi:

  • Draga úr hættu á auknu líkamstjóni og ótímabærum dauða – með því að veita mjög veikum fíklum aðgengi að „hreinum“ efnum í stað þess að fólk neyti efna sem eru drýgð með öðrum efnum sem geta verið enn skaðlegri en það sem fíkillinn sækir í.
  • Draga úr hættu á ofskömmtun – með því að aðstoða mjög veikt fólk við að stjórna neyslunni í stað þess að reyna að koma í veg fyrir hana.
  • Draga úr innbrotum, þjófnaði úr verslunum, fjársvikum og öðrum auðgunarbrotum, vændi og milligöngu um það, kynferðisofbeldi, mansali og þátttöku í fíkniefnainnflutningi og dreifingu með því að samfélagið sjái fólki fyrir húsaskjóli, mat og öðrum nauðsynjum.
  • Draga úr hættunni á líkamsárásum – með því að auðvelda aðgengi fíkla að vímuefnum og fyrirbyggja þannig vítahring fíkniefnaskulda, glæpa og innheimtu.
  • Draga úr líkum á því að börn og unglingar komist í hættuleg fíkniefni – með því að gera fullorðnum fíklum mögulegt að neyta efna í öruggu umhverfi frekar en að geyma þau heima.
  • Draga úr hættunni á því að ungt fólk festist á glæpabraut – með því að beita refsingum ekki ef hægt er að komast hjá því, í stað þess að setja það í aðstæður (fangelsi) þar sem félagsskapurinn og hugarfarið eykur líkur á að það haldi áfram á sömu braut.

Nú reyndi stjórnarandstaðan að taka eitt, örlítið hænufet í þessa átt. Það hefði auðvitað ekki verið nóg en þó í það minnsta opnað á frekari framfarir. Það hefði ekki kostað samfélagið krónu en sennilega sparað all mikið fé og ómældar þjáningar. Ég ætla ekki einu sinni að nefna hina stjórnarflokkana, ég efast um að nokkur hafi vænst neins af þeim, en ég veit að margir bjuggust við að Vinstri græn myndu standa í lappirnar.

En nei – enn á ný sýnir það sig að stefna VG í velferðar- og heilbrigðismálum er orðin tóm.

Tryggja þarf fíklum viðunandi meðferðarúrræði með samvinnu dóms-, félags- og heilbrigðiskerfis. Snúa þarf af braut harðari refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna.

– Úr stefnu Vinstri grænna í velferðarmálum

Hér má sjá lista sem tilvalið er að stúdera vel fyrir næstu þingkosningar.



Ömurlegt er að sjá þingmenn VG bregðast þegar mannúðarmál eru annars vegar. Svo djúpt ristir afturhaldssemin að sumir þeirra styðja beinlínis refsistefnu gagnvart sjúklingum og aðrir sitja hjá. Það kemur svosem ekki á óvart að Katrín Jakobsdóttir hafi setið hjá, sú manneskja hefur fyrir löngu sýnt og sannað að hún er pólitískur tækifærissinni en að sjá Rósu Björk í þessum arma félagsskap, það sker í hjartað. Svo fyrirlitlegir vesalingar fylla þennan auma stjórnmálaflokk að einn meðflutningsmaður að tillögunni treysti sér ekki til að styðja hana þegar á hólminn var komið.

Ég hef velt því fyrir mér margsinnis á þessu kjörtímabili hversvegna Vinstri græn taka ekki skrefið til fulls og sameinast Sjálfstæðisflokknum. Eina trúverðuga skýringin sem kemur mér í hug er sú að þau vita að ekkert þeirra kemur nógu vel fyrir til þess að mögulegt sé að Sjallar taki þau fram yfir Brynjar Níelsson sem ráðherraefni.